Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Þegar þú getur allt eins stofnað aflandsfélag

Þegar þú getur allt eins stofnað aflandsfélag

Það eru núna tvö ár liðin síðan í ljós kom að fjármála og stjórnmála-elíta Íslands ætti talsverðar eignir í skattaskjólum. Í sjálfu sér hefði það ekki átt að koma neinum á óvart. Almenningur vissi vel að aðrar reglur giltu fyrir þá að ofan, að þeir kæmu ekki alltaf með gjaldeyrinn heim, og þegar þeir gerðu það þá myndu þeir gera það á öðrum kjörum en aðrir.

En það er eitthvað lúmskt smekklaust yfir því að gera flytja fjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar á tveggja ára afmæli stærstu mótmæla Íslandssögunnar. Mótmæla sem kröfðust þess að skúrkarnir úr Panamaskjölunum segðu af sér og sneru sér að einhverju öðru en að hindra kaup á skattaskýrslum, leggja láglaunafólk í einelti og öskra á erlenda blaðamenn.

Bjarni Benediktsson á langa brunaslóð í bisness sínum. Það er erfiðara að gera upp við sig, hvort var það verra þegar hann stóð upp í pontu Alþingis og talaði fyrir því að Ísland myndi greiða Icesave á 10% vöxtum eða þegar hann sagði ekkert á meðan þurfti að bjarga Sjóvá Almenningi fyrir klúður sem hann hafði kvittað upp á. (DV fjallaði um það á sínum tíma hvernig kaup ættingja hans á turnum í Macau leiddi til gjaldþrota stærsta tryggingafélags landsins og hvernig hann væri mögulega viðriðinn lögbrot í því samhengi).

Það kom því varla á óvart að hann hefði reynt að kaupa íbúðir í Dubai, í gegnum aflandsfélag á Seychelles eyjum, með peningum úr svissneskum banka. Hann var jú, búinn að berjast gegn því af offorsi að íslenska ríkið myndi kaupa upplýsingar um skattsvikara. Það eina sem ætti að vekja furðu er að VG og Katrín Jakobsdóttir, sem voru hörðustu gagnrýnendur hans, treysti honum fyrir fjármálaráðuneytinu. Aftur.

Katrín og Bjarni ná vel saman. Hvað gerir það að verkum er erfitt að segja. Fyrir femínista eins og Katrínu ætti að vera erfitt að taka í höndina á manni sem kom jafn illa fram við fórnarlömb barnaníðingsins Robert Downey, og Bjarni gerði. Síðar kom það í ljós að hann vissi allt um undirskriftir föður síns hjá öðrum barnaníðing og var því aftur að koma í veg fyrir að upplýsingar yrðu opinberaðar. (Hvað gerir það að verkum að Benedikt Sveinsson og nauðgarinn Hjalti Sigurjón ná svona vel saman er líka ráðgáta).

Það var nefnilega alveg ljóst hvað gerði það að verkum að Sigmundur Davíð og Bjarni Ben gátu unnið saman. Þeir voru báðir hrægammar með allt sitt í skattaskjólum. En miðað við fjármálaáætlun þar sem forstjóri Eimskips fær hundrað þúsund króna skattalækkun og verkamaðurinn fær 2000 króna skattalækkun, í áætlun sérhannaðri af Bjarna (sem var jú fjármálaráðherra Sigmundar líka). Miðað við fjármálaáætlun þar sem stendur til að dæla steypu í grunna en ekki borga fólkinu sem skúrar gólfin eða heldur spítalanum gangandi almennileg laun. Miðað við fjármálaáætlun sem dregur úr húsnæðisstuðningi og gerir ekkert til að auka barnabætur.

Þá gæti Katrín Jakobsdóttir allt eins fengið sér aflandsfélag.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni