Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Að elska Ísland eða ekki

1.
Það er skondið að elska land en ekki fossana í því, ekki náttúruna.

Elska þjóð og einkavæða heilbrigðiskerfi hennar.  

Ég veit hvernig tilfinning það er þegar einhver tekur eitthvað frá þér sem er heilagt. Mér þykir vænt um þjóð sem tók aldrei þátt í stríði en var látin lýsa stuðning við tvö stríð í Írak og Afganistan, sem standa ennþá yfir og hafa kostað milljón líf. Ég elska náttúru þessa lands en hef fylgst með lífríki þess eitrað, bæði í Hvalfirðinum og Lagarfljóti og Mývatni. Nú á að rukka fólk fyrir að taka sér göngutúr út í móa án sérstaks passa og gefa landeigendum réttinn til að girða náttúruperlur af.

En verst er sennilega samt hvernig það er búið að ræna þessa þjóð. Og að ránið standi ennþá yfir. Hvort sem það eru fossar, fiskar, bankar, menntakerfið eða heilbrigðisþjónustan.

Svo hver er það sem elskar Ísland? Sá mótmælir þessu eða sá sem mótmælir þessu ekki?

 

2.

Æ, þetta er léleg orðræða hjá mér. Sorrí.

Að stilla upp pólitískum andstæðingum sem einhvers konar þjóðernissvikurum. Fyrir mér er þetta bara dagur, ég hef margar ágætar minningar af pulsum og blöðrum og hátíðum á grænum grasvöllum en fyrir mér er þetta ekki svo heilagt. Sennilega elska ég Ísland ekki nóg. Eða fjallkonuna. Eða skátana. Mér finnst þetta pínu hallærislegt, full fasískt fyrir minn smekk án þess þó að það sé beint fasískt (þótt skátarnir eigi sinn vafasama uppruna), aðallega er þetta bara gamaldags og talar ekki til mín. Held að ég sé ekki sá eini af minni kynslóð sem það á við um. Ég tengi ekki við kröfuna um að mótmæla ekki á honum, við erum jú að minnast mannsins sem mælti: Vér mótmælum allir. 

(Fyrir þá sem hafa áhyggjur af krökkunum, þá ekki mótmæla á öskudaginn, a.m.k. ekki þar sem krakkarnir eru að syngja fyrir nammi, og ekki mótmæla á menningarnótt því sá dagur er helgaður unglingafylleríum).

Við getum öll elskað Ísland á mismunandi máta. Og munum að vinur er sá er til vamms segir. Við getum ekki alltaf sýnt þessa margfrægu aðgát, farið í spariföt og beðið vini um að læka okkur, ég get skilið að þið viljið varðveita ykkar Ísland en gæti ég fengið að halda smá af mínu Íslandi? Kannski svona eins og einum foss, hálfu tonni af makríl og 50% afslátt á krabbameinsmeðferð? Þá megið þið eiga fjallkonuna í friði fyrir mér. Og þennan (að mínu mati) innantóma pulsudag.

3.

P.S. Til hamingju með afmælið Bryndís.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni