Öryggi barna er ofar öðrum hagsmunum
Ég hef skrifað, ásamt a.m.k 18 þúsund öðrum, undir yfirlýsingu gegn brottvísun barns og fjölskyldu frá Íslandi. „Við undirrituð skorum á íslensk stjórnvöld að virða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hætta við brottvísun Muhammeds Zohair Faisal og fjölskyldu hans þann 3. febrúar.“
Barnið býr hér við öryggi, vináttu, menntun, velvild og kærleika. Allt sómasamlegt fólk vill að það verði hér áfram og enginn getur skilið réttlætingar fyrir því að stefna þessari fjölskyldu í óvissu og öryggisleysi þangað sem hún vill ekki fara. Hvers vegna þarf að senda þau til Pakistan á mánudag? Er heil brú í því? Þau vilja ekki fara og almenningur vill ekki að þau fari.
Ísland er staðurinn sem Muhammed þekkir, hann hefur fest hér rætur og eignast vini. Hvað tekur við á öðrum stað sem hann þekkir ekki og þar sem hann á enga vini? Mannréttindi voru brotin á Niha móður hans því gera átti tilraun til að þvinga hana til að giftast manni í Pakistan sem hún vildi ekki giftast, syni föðurbróður síns. Hún neitaði og hefur búið við óvissu síðan fjarri heimalandinu. Hér er því einnig á ferðinni kúgun kvenna. Þau hjónin Faisal og Niha hafa sótt um hæli og ríkisborgararrétt til að njóta mannréttinda. Muhammed sonur þeirra hefur aldrei verið í Pakistan.
Muhammed lék á alls oddi á samstöðufundi í dag í Vesturbæjarskóla. Hann var glaður með foreldrum og vinum, ekki vegna þess að hann væri að kveðja, heldur vegna vináttunnar sem hann skynjaði. Þar voru börn og fullorðnir á einu máli. Þarna voru kennarar, nemendur, foreldrar og aðrir sem vildu leggja lið.
Hversu mögnuð er samstaðan, þessi samhugur?
Við kennum börnum að setja sig í spor annarra og samkennd og samlíðun er meðal æðstu gilda í mannlegu samfélagi. Börnin fylgjast nú með hvernig fullorðnir standa sig í þessu máli. Muhammed er vinur þeirra og börnin á samstöðufundinum sungu textann, Betri veröld, þar sem segir: Já, hér á jörðu stöndum við saman.
Hlustum á börnin!
Okkur gefst tækifæri til að veita foreldrum hans ríkisborgararétt og að veita honum öryggi og vinsemd. Það er allt sem hann biður um. Það fellst áfall í því að senda þau í burtu, ekki aðeins fyrir þau heldur einnig fyrir okkur, það slokknar á ljósi.
Hvers vegna ætti Muhammed að fara til Pakistan? Hann hefur aldrei farið þangað. Hann kom ekki þaðan. Hvers vegna að stefna að stefna velferð barns í hættu?
Öryggi barna er ofar öðrum hagsmunum, átta ekki allir sig á því? Það er óþarfi að vitna í lagatexta eða ritningar, allir sem gera greinarmun á réttu og röngu vita það í hjarta sínu. Það þarfnast ekki rökstuðnings.
Gildi Vesturbæjarskóla eru virðing, vellíðan og velgengni. Skólinn er réttindaskóli barna fyrir UNICEF. Afmælisbörn októbermánaðar gáfu afmælispeninginn sinn til UNICEF, barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er útgangspunktur fyrir allar ákvarðanir. Þar er enginn vafi um rétta ákvörðun gagnvart nemanda eins og Muhammed en hvaða ákvörðun tekur „kerfið“ á morgun mánudaginn 3. febrúar?
Brottvísun frestað
Viðbót: Fullyrða má að undirskriftasöfnun og samstöðufundur hafi skilað árangri: Kerfið tók ákvörðun um að fresta brottvísun: Frá dómsmálaráðuneyti 2.2.2020 undir kvöld: Breytingar á málsmeðferðartíma: "Þessar breytingar verða útfærðar nánar í reglugerð. Þegar hefur verið ákveðið að fresta brottvísun barna í þeim málum þar sem málsmeðferð hefur farið yfir sextán mánuði."
Í yfirlýsingu yfirvalda stendur einnig: "Taka ber sérstakt tillit til hagsmuna barna við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd."
Nú geta allir verið sammála um það!
Athugasemdir