Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Nýársþanki á Klakanum á kínverskum nótum

Nýársþanki á Klakanum á kínverskum nótum

Blábyrjun árs er ekki öll þar sem hún er séð þrátt fyrir flugeldasýningar. Allt líður hiklaust hjá eins og halastjarna á himni.

Lífið líður hjá, líf hvers og eins líður hjá. Það er vandalaust að leyfa öllu að líða hjá, láta sig reka stefnulaust eða láta aðra draga sig þangað sem þeir fara.

Ég greip því bók í hönd til að stöðva tímann (sem tókst auðvitað ekki) og lesturinn hafði umsvifalaust áhrif á mig þótt textinn væri túlkun á sígildum texta Konfúsíusar og lestur minn enn önnur túlkun. Þetta er smáritið Úr gagnleysisskálanum – Esseyjur um Kína eftir Kínafræðinginn Simon Leys í þýðingu Geirs Sigurðssonar heimspekings.

Texti hefur áhrif á hugsun og getur breytt viðhorfum ef hann fær leyfi til að flæða um æðar. Tímasetning lestursins, Gamlársdagur, hafði áhrif á túlkun mína og nú á Nýársdag skrifa ég það sem ég hugsaði í óbeinum tengslum við það sem Simon Leys skrifaði, Konfúsíus sagði og Geir þýddi.

Undur þegar gamalt verður nýtt

Nú árið er liðið, en það er ekki farið neitt frekar en önnur ár sem líða hjá eins og tungl á himni. Árin sem búa í okkur, eru „andlega virk og áþreifanlega ósýnileg“ (12). Sama á við um dauða persónu, hún verður áfram til í minningu annarra og ef til vill áfram í hugum þeirra sem á eftir koma: orð, athafnir og verk hennar – oft fyrir tilstilli hins ritaða orðs eða munnmæli (29).

Gamalt getur orðið nýtt í huga lesanda. Konfúsíus fæddist á 6. öld f.o.t. en Munnmæli hans (Speki Konfúsíusar) sem skráð voru af nemendum hans geta gefið lesendum á 21. öldinni aðra eða óvænta sýn á tilveru sína. Orðin berast milli kynslóða, þau líða ekki alfarið hjá heldur sáldrast yfir tímaskeiðin eins og stjörnuryk. Er það ekki mikið undur?

Orð aldanna sáldrast
yfir okkur eins og stjörnuryk

Hugljómun um stund

Það merkilega er, að til að ákveðið fyrirbæri hafi áhrif í nútímanum, þarf það ekki nauðsynlega að hafa verið til. Sagan um það eða mýtan þarf ekki á hlutlægri tilveru að halda sem þarft er að sanna. Fortíðin felst í orðum, myndum og tónum, ekki í grjóti. Hún er í huganum, bókunum, pennanum, á blaðinu, í ljóðunum, túlkuninni og tóninum.

Undrið felst í því að sjá það sem er ósýnilegt. Aðferðin er að brjótast út úr flokkunarkerfi hugans um stundarsakir og undrast yfir því sem passar ekki inn í fastar skilgreiningar og hugtök. Það víkkar sjóndeildarhringinn.

Ef okkur lánast að sjá það sem ekki sést þá ljómum við um stund. Seinna getum við efast um þessa „sýn“, að hún hafi átt sér stað, því hún er/var ekki innan skynsemismarka og rökin festast ekki við þessa hugljómum, koma henni ekki heldur í orð.

Hver sem les Munnmæli Konfúsíusar (sem glíma við spurningar um mannlega reynslu) þarf að horfast í augu við sjálfan sig, spyrja sig síðan t.a.m. Hvað get ég lagt til eða gert til að efla traust í samfélaginu? (Eða annarra mikilvægra spurninga).

Það er m.a. hægt að gera með því að samstilla nöfn og hugtök við raunveruleikann, þannig að staðreyndin og orðin passi saman, aðeins með því móti geta ákvarðanir orðið til heilla (87).

Almannaheill raungerist þegar
hugtökin falla að staðreyndum

Veröldin á bak við orðin

Forvitni, menntun og góðvild er leiðin til mannúðar, ekki mælskulist eða ríkidæmi (91). Ljómun hugans þarf ekki að orða eða segja, það má þegja um hana. Er það ekki fallegt? Jafnvel þótt texti veiti innsýn í leyndardóma þá getur svarið búið handan stafanna og bak við setningarnar.

Rithöfundur getur bent lesandum sínum í áttina til sannleikans með þögnum í textanum. Tilraunir til að festa hann í orðum eru dæmdar til að mistakast (93). Aðeins vísbendingar standa til boða og þær finnum við í fortíðinni, liðnum árum, eldri textum, tónlist og listum.

Tökumst á við árið 2022 af virðingu og metnaði, góðvild og þolinmæði. Látum það ekki bara líða hjá eins og hvert annað ár. Hlutverk okkar er að stilla saman samfélag okkar við allt lífið á hnettinum, með einhverju móti og hver með sínum hætti.

Gleðilegt nýár,
það er enginn skortur á góðum verkefnum og takk Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur fyrir nýju smáritin!

p.s. Úr gagnleysisskálanum – Esseyjur um Kína eftir Simon Leys er eitt af þremur smáritum Stofnunar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sem komu út í desember hin tvö eru næst á lesdagskránni. Þau eru eftir danska heimspekinginn og guðfræðinginn Dorthe Jørgensen og nefnist Hvers vegna hræðumst við ímyndunaraflið? – Af siðaskiptum og fagurfræði, í þýðingu Gísla Magnússonar. Þriðja ritið er eftir fransk-marokkóska rithöfundinn og blaðakonuna Leïla Slimani og kallast Kynlíf, nauðung og lygar í Marokkó, í þýðingu Irmu Erlingsdóttur.

p.p.s. Blaðsíðutölin í hugleiðingunni vísa í óbeinar og frjálsar tilvitnanir mínar í bók Simons Leys. Smárit Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur: Leys, Jörgensen, Slimani.

p.p.p.s. Ragnar Baldursson hefur þýtt Munnmælin, undir heitinu: Speki Konfúsíusar. Simon Leys skrifar að þessi texti sé geti veitt okkur aðgang að hinum kínverska heimi. Bæta má við að hann veitir líka betri aðgang að okkar eigin hugarheimi. 

Konfúsíusarstofnunin Norðurljós

 

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni