Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Að standa vörð um kraftmikla fjölmiðla

Að standa vörð um kraftmikla fjölmiðla

Við fjölmenntum á Austurvöll Í Reykjavík og Ráðhústorginu á Akureyri 19. febrúar 2022 til að sýna samstöðu með frjálsum fjölmiðlum og mótmæla ofsóknum gegn fjölmiðlafólki. Við eigum ekki sitja hjá, ekki vera sama, heldur styðja góð málefni, það er nefnilega ekki réttlætanlegt að vera bara áhorfandi og láta öðrum eftir að móta framtíðina.

„Að lögreglan á Norðurlandi Eystra skuli kalla til yfirheyrslu fjölmiðlafólk fyrir gagnrýna umfjöllun með erindi til almennings er óásættanleg skerðing á tjáningarfrelsi,“ sagði í fundarboði ungliðahreyfinga Sósíalista, Samfylkingar, Pírata, Vinstri Grænna og Viðreisna.

Auður Jónsdóttir rithöfundur hélt ávarp á Austurvelli og vitnaði í Um harðstjórn eftir Timothy Snyder sem skrifar að siðferðislega skyldan sé að leggja sitt af mörkum til að vernda frjálsa fjölmiðlun. Styrkja og vera áskrifandi að sjálfstæðum, einka­reknum fjölmiðlum.

Mig langar til að taka undir með Auði og benda fólki líka á þessa bók sem hún vitnaði í því efni hennar gefur okkur kjark til að vernda lýðræðið sem nú verður sífellt fyrir árásum. Guðmundur Andri Thorsson þýddi bókina og Mál og menning gaf út 2018. Svetlana Alexievich nóbelsverðlaunahafi, höfundur Tsjernobyl-bænarinnar,  sagði um skrif Timothy Snyders: „Við stefnum hraðbyri í átt að fasisma. Þessi bandaríski rithöfundur lætur okkur ekki komast upp með neina sjálfsblekkingu.“

Timothy Snyder prófsessor í sagnfræði við Yale-háskólann dregur tuttugu lærdóma af tuttugustu öldinni sem m.a. hvetur okkur til að standa vörð um fjölmiðlafrelsi og vera virk í andstöðu við stríðsrekstur harðstjóranna sem nú birtist við landamæri Úkraníu.

Hér er snögg upprifjun á bókinni en ég hvet ykkur til að lesa hana umsvifalaust.

Látum ekki grafa undan trausti á fjölmiðlum

Timothy Snyder  minnir okkur á að órannsakað líf er einskis virði eins og Sókrates fullyrti forðum. Ekki láta aðra hugsa fyrir ykkur og stjórna lífi ykkar. Ekki hlýða í blindni, við eigum betra skilið.

Hlustið ekki á óvildarmenn sem vilja leggja stofnanir niður sem eiga að þjóna almenningi. Ekki láta valdafólk grafa undan trausti á fjölmiðlum með því að gera þá tortryggilega.

Ásýnd samfélagsins er ekki aðeins á ábyrgð annarra heldur einnig okkar sjálfra. Látið ekki telja ykkur trú um að sannleikurinn sé ákvörðunarefni og háður aðstæðum. Lærið að gera greinarmun á lygi og sannleika, réttu og röngu og temjið ykkur yfirvegun. Ekki láta sefjun stjórna lífinu, skerið ykkur úr ef með þarf í stað þess að þegja yfir óréttlætinu.

Talið um hlutina, horfist í augu og skiptist á skoðunum. Ekki þykjast vita svarið áður en umræðan hefst, njótið þess að rannsaka málið sjálf. Forðist hægindastólinn, farið á vettvang, í kröfugöngur, mótmæli, verið sýnileg og takið þátt. Talið við ókunnuga og takið þátt í félagasamtökum, styðjið góðgerðarsamtök, styrkið siðað samfélag og kennið öðrum að láta líka gott af sér leiða. Ekki vera værukær og skeytingarlaus.

Temjið ykkur að reiðast yfir óréttlæti og hafnið öfgastefnum snarlega. Veitið ekki undanþágu frá mannúð. Látið enga harðstjórn takmarka tjáningarfrelsi ykkar eða breyta réttarkerfinu.

Elskið land ykkar og þjóð en látið ekki hvarfla að ykkur að ein þjóð geti verið framar annarri eða einn hópur öðrum fremri. Safnið vinaþjóðum, ekki óvinum. Gerið eitthvað fyrir aðra og verið hugrökk.

Timothy Snyder sýnir með dæmum að komist harðstjórar til valda muni þeir nota fyrsta tækifæri til að eyðileggja lýðræðið, t.d. með því að lýsa yfir neyðarástandi gagnvart ógn og leggja svo niður þær stofnanir sem þjóna almenningi, banna fjölmiðlaumfjöllun. Þetta þarf ekki að taka langan tíma. Okkur er ógnað um þessar mundir.

Fjölmiðlar geta ekki bara varið sig sjálfir, þeir þurfa að fólkinu að halda, gerist áskrifendur. 

Vakið hugrökk á verðinum!

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Sigmundur Guðmundsson skrifaði
    Þessi grein er okkur góð áminning.

    Gleymum ekki einræðistilburðum Davíð Oddssonar sumarið 2004 !!
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni