Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Loftslagskreppan og aðgerðir í þágu framtíðarinnar

Loftslagskreppan og aðgerðir í þágu framtíðarinnar

Spurt var á málþinginu Öll á sama báti - Loftslagskreppan og aðgerðir í þágu framtíðarinnar. „Hvert er sjónarhorn þitt út frá lífsskoðun og afstöðu - til náttúru og umhverfis?“ Hér er svarið mitt.

Manneskjan þarf að læra að vinna verkin af alúð sem vekur vinsemd og virðingu, friðsemd sem vinnur lífinu aldrei mein, krafti til að skapa heillaríkt líf og góðvild sem er uppspretta þakklætis og leyndardómur velgengni.

Allt rask er alvarlegt, því það skapar ójafnvægi, færir eitthvað úr lagi, eitthvað fer úrskeiðis. Rask er ekki aðeins rask á jarðvegi, dal, á, landslagi eða loftslagi. Rask er skemmd, truflun á fegurð og jafnvægi, eyðilegging á griðlandi jurta, fiska, dýra, samveru og gleðistundum.

Friðlýsa má óbyggð víðerni: stór landsvæði þar sem ummerkja mannsins gætir lítið sem ekkert og náttúran fær að þróast án álags af mannlegum umsvifum. Að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum er af svipuðum meiði og friðlýsing á landi, markmiðið er að koma í veg fyrir meira rask.

Allt tengist saman í einni jörð undir einum himni, einni tímarás, einu lífi. Öll náttúra á hnettinum þarf á góðvild og virðingu að halda til að lifa og dafna, því að við getum elskað hvert annað og við getum elskað dýrin og landið og aðrir geta elskað okkur á móti eða að minnsta kosti sýnt okkur væntumþykju.

Hvernig lærum við að elska náttúruna?

Ástin á lífinu bætir samband fólks við náttúruna sjálfa. Náttúran býr yfir auðlindum sem gera svæði lífvænleg og vistvæn fyrir fólk og aðrar lífverur – eða gerir þau óbyggileg. Jörðin er frjósöm eða hrjóstrug og hún breytist í sífellu. Náttúran gefur og

með því að þiggja gjöfina lærum við
að elska hana og virða.

Verkefnið okkar er að rækta sambandið við náttúruna og lífið á jörðinni. Við erum ekki aðeins íbúar í borg, bæjum og sveitarfélögum. Við erum einnig háð staðnum sem við stöndum á, landslagi og náttúrunni allri, í lofti, láði og legi.

Manneskjan er ekki annað og meira en ein af þeim lífverum sem fram hafa komið í sögu lífsins á jörðinni. Framkoma hennar gagnvart náttúrunni þarf því að einkennast af hrokalausri virðingu. Allir þurfa að gæta sín á hrokanum.  Besta ráðið til að verða hrokanum ekki að bráð felst meðal annars í því að læra samlíðun, góðvild, þakklæti og vinsemd.  ,,Ég mun vernda jörðina og lífið á henni,” er loforð húmanistans og ,,Ég verð góður granni gagnvart fólkinu sem deilir jörðinni með mér og mun leggja mitt af mörkum til að gera jörðina að betri stað fyrir okkur öll.”

Verkefnið felst í því að rækta sambandið við krafta náttúrunnar. Náttúruást einkennist af innlifun og barnslegri undrun. Hún sprettur af gnótt og hrikafegurð og hún streymir um æðar.

Virðing lífgar samband manns og náttúru.

Fátt er vænlegra til að efla virðinguna og rækta kærleikann gagnvart náttúrunni, bláa hnettinum okkar og sólkerfinu öllu, heldur en hæfnin til að undrast. Að sjá fegurð fjallanna, heyra fuglasönginn og niðinn í ánni, finna lykt hinna ólíku staða, snerta og dýfa tánum í læk, bragða á berjunum, yrkja jörðina og leika sér í fjörunni. Það er að vera ástfanginn af landinu, hafinu og lífinu.

Virðing felst í því að hlusta, skoða, greina, og meta með framtíðina í huga, ekki aðeins næstu þrjú ár, heldur þrjátíu og þrjú og ekki aðeins það heldur þrjú hundruð þrjátíu og þrjú. Allt okkar líf og næstu kynslóða.

Við þurfum að læra góðvild sem umfaðmar komandi kynslóðir.

Góðvild er nátengd farsælu lífi til framtíðar. Hún er dygð alls mannkyns. Hamingjan er falin í þeirri athöfn að gera eitthvað fyrir aðra, fyrir þau sem við munum aldrei hitta.*1 Getum við það?

Getum við það?

Tenglar

Erindi flutt á málþinginu Öll á sama báti í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins 29. október 2021.

*1P.S. "Helping someone else through difficulty is where civilization starts," Margaret Mead.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni