Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Láttu núna reyna á mátt mildinnar

Láttu núna reyna á mátt mildinnar

Ég var að lesa bókina Um mildina eftir Lucius Annaeus Senecu og áttaði mig umsvifalaust á að þessi stóíska dyggð gæti hjálpað okkur til að leysa þann hnút sem staða hælisleitenda á Íslandi er í núna. Það væri þess virði að hugsa um þetta mál með hjálp Senecu en í vikunni á að senda fimm barnafjölskyldur á flótta gegn vilja þeirra til Grikklands.

Um mildina kom út sem Lærdómsrit HÍB árið 2017 í þýðingu Hauks Sigurðssonar en hún kom fyrst út í Rómaveldi á árið 56 á okkar tímatali. Hún var skrifuð af stóuspekingi til að kenna Neró keisara mildi og til að sýna honum í hverju hún væri fólgin og hversu mikilfengleg hún gæti verið fyrir stjórnanda. Keisarinn fylgdi ráðunum fyrstu fimm árin og er sá tími kallaður farsældartími.  

Mynd/Láttu núna reyna á mátt mildinnar, ráðlagi Livia Drusilla.

Stóuspekingar vissu að rétt meðferð gagnvart fólki sem hefur ekki framið glæp ræðst ekki aðeins af lögum og reglum heldur mannúð og mennsku. Mannúðin og valdið til að breyta örlögum þeirra vinna þá saman að því að rétt ákvörðun verði tekin. Sú ákvörðun er ekki aðeins byggð á lögum heldur einnig félagslegri stöðu.

Þetta mál heyrir ekki aðeins undir dómsmálaráðherra heldur einnig barnamálaráðherra.

Kenningar stóuspekinnar ruddu mannúð og alþjóðahyggju braut í veröldinni vegna þess að því var haldið fram að allar mannverur væru tengdar og það varð skylda að sýna öðrum umburðarlyndi. Allir voru jafnir fyrir Guði.

Mildi er dyggð sem þarf að þekkja vel til að skilja áhrifamátt hennar. Seneca (4. f. Kr- 65. e. Kr) snerist í nafni stóustefnunnar gegn allri hörku gagnvart fólki sem stóð höllum fæti í samfélaginu og boðaði í staðinn mildi, góðvild, kærleika, umburðarlyndi og ástúð. Að sýna þeim mildi sem eru í aumri stöðu í lífinu.

Íslensk yfirvöld hafa sent barnafjölskyldum tilkynningu um að þær verði fluttar til Grikklands og hafa um leið sagt við þær: „Þið eru þegar með alþjóðlega vernd í Grikklandi, við megum senda ykkur þangað, jafnvel þótt þið viljið það ekki og jafnvel þótt almannaviljinn sé ykkar megin hér á landi.“

Höfuðatriði stóustefnunnar er nefnt í bókinni Um mildina. Dyggðirnar sjálfar eru allar jafngildar og göfgi hugans og skynsemi er öllum jafnt gefið. En það sem skilur að er valdastaðan. Mildi almannaviljans birtist í samtakamættinum en mildi dómsmálaráðherra og barnamálaráðherra getur skilið á milli gæfu og ógæfu fjölskyldna á flótta. Þeirra mildi er því afar mikilvæg í þessu máli.

Seneca myndi segja að það væri kjörið tækifæri fyrir valdstjórnina að sýna þessum manneskjum mildi. Okkar er stuðningurinn, þeirra er framkvæmdin-  og við getum gefið þeim heiðurinn.  Munum að þessi hópur er „berskjaldaðri en aðrir sem þola þau rangindi sem þeir hafa orðið fyrir.“ (95).

Þessi mildi sem framkvæmdavaldið ræður yfir er opin leið um þessar stundir en ef hún birtist ekki þá þarf að ræða hvort um sé að ræða hlutlaust áhugaleysi eða hjartalausa hörku. Það sæmir ekki að leigja þotu og ráða starfsfólk til að flytja barnafjölskyldur héðan til Grikklands. Sérstaklega ekki þegar áreiðanlegar upplýsingar hafa borist um hrikalegar aðstæður þar ásamt alvarlegri viðvörun og mótmælum frá Rauða krossinum.

Fólk sem hefur ekki framið glæp, fólk sem getur ekki farið heim, fólk sem þarfnast ekki fyrirgefningar, fólk sem vill vera hér, fólk á flótta á að njóta mannréttinda á sama hátt og annað fólk.

Livia Drusilla (58 f.Kr - 29 e.Kr.) keisaraynja þekkti mátt mildinnar. „Láttu núna reyna á mátt mildinnar,“ ráðlagi Livia Drusilla á sínum tíma þegar Ágústus (f. 63 f.Kr) keisari og maðurinn hennar, ætlaði að beita hörkunni enn á ný, hún kenndi honum að beita mildi í heimsveldinu. Gerum það sem hún ráðlagði, núna 8. mars á alþjóðlegum baráttudegi kvenna! Þessar fimm barnafjölskyldur þurfa ekki á vorkunnsemi að halda og ekki fyrirgefningu, aðeins mildi og miskunnsemi.  

Mildin fylgir skynseminni sem hjálpar til góðs og til heilla fyrir almenning, skrifaði Seneca. Hlustum á stóuspeki Senecu og Liviu og könnum hvort það nýtist ekki valdhöfum til að taka rétta ákvörðun. Við hin erum þegar sannfærð um það. „Mildin hefur frelsi til að úrskurða ekki eftir bókstaf laganna, heldur eftir því sem er sanngjarnt og gott.“ (141).

Svo legg ég það til að allir lesi bókina Um mildina eftir Senecu í þýðingu Hauks Sigurðssonar sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út 2017.

Tengill

Fyrri pistill um málið: Ekki rangt að endursenda þau ekki

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni