Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Ekki rangt að endursenda þau ekki

Ekki rangt að endursenda þau ekki

Mynd/Börn hælisleitenda og fjölskyldur sem þrá að vera hér bíða endursendingar/ GH

Það er ekki ólöglegt að hætta við að senda hælisleitendur á Íslandi til Grikklands eða Ítalíu, þótt þeir hafi vernd þar. Það er ekki heldur siðferðilega rangt að bjóða þeim efnislega meðferð og vernd á Íslandi.

Það er alls ekkert rangt við það að hætta við að endursenda barn og fjölskyldu þess út í bláinn.

Sérstaklega ekki ef það óskar þess innilega að vera hér og vill fá alþjóðlega vernd fremur en í eymdinni. Þessi börn vitnuðu um það í mótmælastöðu við dómsmálaráðuneytið í dag, 2. mars. 

Við eigum að hlusta á og trúa börnum.

Fimm barnafjölskyldur eru í þessari stöðu í dag. Þær bjuggu allar við neyð í heimalandinu og gafst ekki kostur á öðru en flótta. Það er alls ekki merki um skilvirka stjórnsýslu á Íslandi* að senda þau héðan í hítina í Grikklandi.

Stafkrókar segja að það megi senda þau í burtu en það eru samt veruleg áhöld um það í ljósi Barnasáttmálans. En eitt er víst að það er ekki rangt að endursenda þau ekki. Einnig er líklegt að það sé rangt að senda þau í burtu gegn vilja þeirra – hefur það verið rætt til enda? Þau þurfa ekki að segja orð til að klára þá umræðu, það nægir að horfast í augu við þau. Ég gerði það í dag.

Mildin kemur þeim til hjálpar?

Í stóískri heimspeki er dyggðin mildi hátt skrifuð. Sagt er að sá og sú sem beitir valdi sínu af mildi efli um leið farsæld heildarinnar. Andstæðan við mildi er grimmd eða að minnsta kosti harka.

Það ætti að vera auðvelt að sýna þessum fimm fjölskyldum, sem bíða milli vonar og ótta, feitletraða mildi. Þær hafa ekki framið neinn glæp, heldur verið hafðar að leiksoppi örlaganna og reglna milli þjóða, og þær bíða nú viðbragða íslenskra yfirvalda. 

Mildin heyrir ekki aðeins undir siðferði, hún er einnig pólitísk og getur á þann hátt orðið áhrifarík gagnvart álitamálum af þessum toga. Mildi og miskunnsemi eiga vel saman og þá  reynist hugarfarið vera höfuðatriðið - hvert er það?

Það er ekki rangt að endursenda þau ekki. Eða hvers vegna ættum við þá að gera það? Ef það verður gert þá þarf að svara annarri spurningu á heiðarlegan hátt án undanbragða:

Var rangt að endursenda þessar barnafjölskyldur?

Tengill

Stundin: Sýnum fjölskyldunum ... 

*“12. gr. Meðalhófsreglan. Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.”

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni