Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Ekki líta undan, ekki gefast upp!

Ekki líta undan, ekki gefast upp!

Stjórnvöld í Ísrael sæta gagnrýni fyrir harðæri, ofbeldi, kúgun, loftárásir, eyðileggingu, morð á borgurum og varnarlausum börnum. Þó að nú væri, þau eru að fremja stríðsglæpi, þau eru að drepa til að stela húsum og landi af þjáðri*1 þjóð, einstaklingum og börnum. Gegndarlausar og mannskæðar árásir standa yfir á Gazasvæðinu. Hversu göfugt er það á Alþjóðaári friðar og trausts hjá Sameinuðu þjóðunum?

Stöðu Palestínumanna í eigin landi var breytt í stöðu flóttafólks í „Landinu helga“ um miðja síðustu öld og dag frá degi síðan þá hefur umráðasvæði Ísraela stækkað þar til völdum var náð á öllu því svæði sem kallað var Palestína í byrjun 20. aldar.

Arabar og Ísraelar eru af sama meiði og spurningin núna ætti að vera:

Hvernig ætla Ísraelar og Palestínumenn að búa saman í sátt og samlyndi, þar sem friður og réttlæti eru æðstu gildin?

Svarið er á hendi Ísraela því Palestínuarabar hafa ekki fengið neitt eftir átök þjóða á svæðinu, enga stöðu í 73 ár nema að vera flóttafólk í eigin landi og í nágrannlöndunum eins og Líbanón og Jórdaníu. Núna í maí 2021 flýr fólk yfir til Egyptalands undan loftárásum.

Ekkert land, ekkert sjálfstæði. Það er engin leið að skilja hvers vegna lausn á flóttamannavandamáli evrópskra gyðinga í síðari heimstyrjöldinni fólst í því að skapa sama vanda fyrir araba í Mið-Austurlöndum. Hernám Ísraela heldur bara endalaust áfram og sú saga er mörkuð glæpum, morðum, ránum og nauðgunum og hvers konar ofbeldi. Yfirburðastaðan er yfirþyrmandi og skapar enn meiri hræðslu og óöryggi.

Staðreyndin er sú að Palestínumönnum er meinað að vera sjálfstæð þjóð meðal þjóða. Í hvert sinn sem það brjótast út átök þá nýta Ísraelsmenn þau til að grafa undan stofnunum Palestínu, drepa fólk og leggja undir sig meira land og fleiri hús í eigin þágu. Þetta er augljóst.

Ekki gefast upp

Falasteen Abu Libdeh hélt ræðu á Austurvelli 15. maí 2021 en amma hennar varð flóttamaður sama dag árið 1948 þegar hún þurfti að yfirgefa húsið sitt við stofnun Ísraelsríkis. Hún fékk húsið sitt aldrei aftur - enn er verið að ræna húsum af fólki. Árið 1956 létu Sameinuðu þjóðirnar byggja hús fyrir palentískt flóttafólk í eigin landi en þau hafa ekki fengið að vera í friði. Múr hefur verið reistur til að læsa það inni, vatn og rafmagn er skammtað af „herraþjóðinni“.

Á kvöldin kemur landtöku- og hústökufólk inn á Gazasvæðið, fer inn á heimili fólks, hendir út húsgögnum og flytur inn í húsin með sitt eigið dót. Flóttafólkið innan múrsins tapar híbýlum sínum. Það er réttindalaust - en þó ekki út frá almennum mannréttindum. Hvert getur það leitað? Hvað getum við gert?

Við getum tekið afstöðu, við getum mótmælt stríðsglæpum og þjóðernishreinsunum...

Við getum krafist viðskiptabanns, hætt að kaupa tilteknar vörur, sýnt gott fordæmi, haldið áfram.

Stríðsglæpir valdhafa í Ísrael eru fyrsta frétt í fjölmiðlum víða um heim um þessar mundir en þegar morðunum linnir í þessari lotu þá megum við ekki hætta. Enn á ný er farið langt út fyrir öll mörk á öllum mælikvörðum og nú er kominn tími til að til dæmis kæra stjórnvöld til Alþjóða sakamáladómstólsins í Haag fyrir stríðsglæpi. Herinn sprengdi og felldi m.a. blokk sem hýsir alþjóðlegar fréttaskrifstofur.

Fjölskylda hittist til að fagna á degi hátíðar. Stjórnvöld sendu sprengju á hópinn. Átta börn og tvær mæður voru drepin. Eitt barn lifði af, hvítvoðungur.

Ekki líta undan, ekki gefast upp!

*1 Íslensk orðsifjabók: þjá, †þéa s. ‘þjaka, kvelja; hneppa í þrældóm’; sbr. nno. tjå ‘þjaka; nugga, hrinda’, sæ. máll. tjå ‘núa í sundur, seiglast’; fe. ðeowian, fhþ. dewēn, gotn. gaþiwan ‘þrælka’; norr. þjá, þéa líkl. < *þewēn fremur en *þewōn. Í merk. ‘hneppa í ánauð’ hefur so. líkl. misst forsk. an(a)-, sbr. gotn. ana-þiwan (s.m.) og ísl. áþján; hún er tengd -þér og þír, þý (2), þéna og þjónn. Af so. þjá er leitt no. þján kv. ‘undirokun, kvöl’ < *þéan (< *þewǣni-), og af no. so. þjána ‘þjaka, kvelja’, sbr. nno. tjåna ‘núast, eyðast’, og af so. þjána no. þjáning kv. ‘kvöl’. Sjá þjaka. (malid.is)

Mótmælafundur á Austurvelli 15. maí. Stöðvum blóðbaðið #sheikhJarrah

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni