Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Að skrifa fyrir börn og fullorðna

Að skrifa fyrir börn og fullorðna

Hvers vegna skrifa rithöfundar fyrir börn? Að skrifa texta sem jafnt fullorðnir og börn skilja áreynslulaust krefst aukavinnu og einhvers aga en það er einnig skemmtilegt verkefni.

Allt efni sem ekki er nauðsynlegt verður aukaefni sem þurrkast út. Langar setningar þarf að stytta og endurtekningar hverfa. Heilu kaflarnir, efnisþættir og hliðarefni verður eftir í möppum og margskonar sköpunarverk þurfa að bíða betri tíma. Þetta er vissulega þreytandi og jafnvel sársaukafullt en gefandi ef það heppnast.

Verkefnið er að skrifa sig á áfangastað og skriftirnar eru gjöf til lesandans og börn og fullorðnir eru jafningjar í textanum.

Barnsleikur að orðum til að breyta heiminum

Eitt af því sem lærist við að skrifa texta sem bæði börn og fullorðnir geta lesið af ánægju er þessi lexía: Ekki útskýra allt út í hörgul. Markmiðið er alls ekki að segja lesandanum nákvæmlega hvað hugtakið merkir. Markmiðið er að hjálpa honum til að gera sér það í hugarlund og glíma við það sjálfur. Markmiðið er að rækta ímyndunarafl lesandans því það er heill heimur handan tungumálsins.

Ef til vill eru skriftir barnsleikur að/með orðum til að breyta heiminum á einhvern hátt sem áður var ósagður eða þá til að skrifa um það augljósa á óvenjulegan hátt.

Frumskilyrði er, vona ég, að höfundurinn skilji það sem hann hefur skrifað. Kannski ekki áður en hann skrifaði það, en að minnsta kosti eftir að það er komið á blað og áður en það barst út í heiminn fyrir augu annarra.

Það verða oft óvæntar tengingar í skriftum og uppgötvanir sem ekki voru fyrirsjáanlegar enda segir SP: „skrif eru hugsun sem verður til á meðan þú skrifar“ (Hraðlest VI, Ljóðorkusvið, 2006).

Annað skilyrði er að löngunin til að gefa af sér sé til staðar, ekki taka, stela eða tæma. Heldur að deila með öðrum. Höfundurinn les og skrifar í einrúmi en þráir svo að miðla og ræða efnið.

Af ást til barnsins

Börn kenna öðrum að það er vel þess virði að rækta undrun, forvitni og gleði. Fullorðnir og börn geta lært hvert af öðru.

Við Helga Björg Kjerúlf og Hera Guðmundsdóttir tókust á við það vandasama verkefni að gera bók sem væri bæði læsileg fyrir börn og fullorðna og að hönnun hennar gæti höfðað til beggja hópa. Bókin heitir Heillaspor – gildin okkar (Forlagið, 2020).

Heillaspor fjallar um gildin sem leggja grunn að farsælu lífi fyrir ungt fólk og fjölskyldur þess. Gleði, þakklæti, vinátta, hugrekki, samlíðun, fyrirgefning, virðing og náttúruást koma við sögu.

Fallegar myndir og hugarljós hjálpa lesandanum að finna svörin til að stíga heillaspor í lífinu. Hugarljós eru stuttar nútvitundaræfingar til að lifa sig betur inn í hugtökin.

Auðvitað eru mörg markmið á bak við bókina en eitt af þeim er að hún skapi samræður og samtal milli kynslóða um lífsgildin. Hún er skrifuð handa börnum og til allra sem elska börn, öll börn í heiminum og alla sem vilja leggja þeim lið.

Textadæmi úr kafla um gleði

"Gleðin byrjar að innan, þrýstir sér út um líkamann og streymir til annarra. Börn þurfa ekki að læra að gleðjast, það er þeim eðlilegt. Gleði barnsins er ómenguð og leggur allan líkamann undir sig. Hún gerir limina létta."

Meira um Heillaspor - gildin okkar. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni