Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Hin síendurtekna hringekja græðginnar

Árið 2016 blossaði upp mikil reiði í samfélaginu vegna fregna af ofurbónusum sem átti að greiða stjórnendum þrotabúa gömlu bankanna. Þingmenn og margir fleiri stjórnmálamenn misstu sig af vandlætingu og fóru stórum orðum um að taka þyrfti á þessari græðgi bankamanna. Þar var m.a.s. hent fram af hálfu eins Framsóknarþingmanns sem tilheyrir Miðflokknum að skattleggja ætti þessa græðgi og sjálftöku um 90-98%.

Og hvað gerðist svo?

Prófkjörin kláruðust fyrir kosningar sem boðað var til vegna Panamaskjalanna þar sem landinn hafði séð hvernig þeirra þingmenn og ráðherrar stela undan skatti.

Þingmennirnir þögnuðu þá.

Ráðherrarnir líka.

Svo komu kosningar.

Enginn gerði neitt í þessu heldur kom þá bara næsta hrina af kauphækkunum þingmanna og ráðherra.

Á sama tíma og/eða eftir kom svo hrina af græðgisfullri launahækkunum stjórna og sjtórnenda fyrirtækja.

Gott ef það var ekki fleygt inn einhversstaðar á milli kveini sama fólks um að opinberir starfsmenn á borð við ljósmæður væru að leggja samfélagið á hliðina með græðgisfullum launakröfum sem voru eins og brauðmoli í samanburði við það sem æðstu stjórnendur ríkis og atvinnulífs fengu skammtað í hækkun.

Svo komu aðrar kosningar vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafði reynt að þagga niður í fórnarlömbum barnanníðinga sem uppreistrar æru flokksbundinna barnaperra.

Hvað gerðist svo aftur eftir kosningar?

Kjararáð splæsti feitri launahækkun á þá hæstlaunuðu. Forstjórarnir og stjórnir atvinnulífsins fengu sína feitu launahækkun og svo ríkisforstjórarnir urðu hærri en dómararnir.

Reyndar varð Guðni forseti ósáttur og sendi þau skilaboð að þetta væri ekki í lagi, hann þyrfti heldur ekki þessa hækkun.

En hlustaði efsta lagið á hann?

Ónei, þau hirtu hækkunina og til að þykjast gera eitthvað þá fengu stjórnir ríkisbankanna, opinberu fyrirtækjanna og fleiri aðilar frítt spil til að hækka laun bankastjóranna, Landsvirkjunarforstjóra og fleiri svo þeir gætu verið allir "samkeppnishæfir í launum". 

Fokk starfskjarastfna ríkisins, hún er bara eitthvað ofan á brauðmola pöpulsins.

Við megum því við getum.

Það voru skilaboðin sem þessir aðilar sendu til þingmanna og ráðherra sem voru alveg í sama pakkanum.

Stjórnmálamenn sögðu svo þegar það varð ljóst:

"Æ, æ,æ,æ, við ætluðumst ekki til þess að færi svona þegar við ætluðum að leggja niður Kjararáð."

En hvað svo núna?

Nú koma svo fregnir um að bankastjóri Landsbankans hafi fengið 82% launahækkun sem er væntanlega nýtt markmið kauphækkana handa stjórnendum vinnumarkaðarins.

"Loksins að verða samkeppnishæf laun í bankanum.", er sagt svo.

Samkeppnishæf við hvað svo maður spyrji? Er einhver eftirspurn eftir íslenskum bankamönnum nema kannski hjá kókaínframleiðendum sem hafa ekki efni á betri aðilum í peningaþvættið og skattsvikaparadísir?

Held ekki.

En þarna kemur sama margtuggna endurtekningin sem minnst var á í upphafi. Það var endurtekning á ferli sem hefur margoft endurtekið sig.

Stjórnmálamenn hneykslast, forsvarsmenn samtaka atvinnulífsins hneykslast, þeir sem veittu kauphækkunina koma með einhverja réttlætingu og svo fellur allt í sama farið aftur.

Keppni efsta lagsins í samfélaginu um það hver verði með feitasta umslagið í gortkeppni græðginnar mun halda áfram með síendurteknum hætti líkt og hringekja þar sem skiptist á hneykslun og sjálftaka.

Og já, svo verður því dúndrað fram í vikulegum föstudagsritstjórnarpistli Fréttablaðsins að verkalýðshreyfingin ógni stöðugleikanum með óbilgjörnum launakröfum sínum.

Það verður ekkert gert í þessu frekar en í öðrum síendurteknum uppákomum vegna starfsmannaleigna, launaþjófnaði og kjarasamningsbrotum gagnvart erlendu verkafólki.

Því ef það væri vilji til þess þá hefði bankaráð Landsbankans, bankastjóri og aðrir stjórnendur sem fá ofurlaunahækkanir verið reknir eftir þessar fréttir og mun hæfara fólk fengið í störfin fyrir lægri laun. Það hefði líka verið búið að setja lög árið 2016 sem skattleggðu ofurbónusanna í drasl. Það hefði líka verið búið að banna bankabónusa og taka hart á fjármálafyrirtækjunum, stjórnendum á almennum markaði og fleiri græðgisfullum dýrkendum Mammons sem halda að þeir megi allt.

En slíkt mun aldrei gerast.

Þetta er jú Ísland.

Þar sem hringekja græðginnar stjórnar öllu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni