Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Árið 10 eftir Hrun

Það er svo skrítið að finna fyrir þeirri tilfinningu á tíu ára afmæli Hrunsins að maður vilji segja allt sem maður man eftir um Hrunið og eftirmála þess en á sama tíma hugsa með sér hvort maður eigi að vera að segja nokkuð.

En samt er einhver þörf til að skrifa einhverjar línur um þetta sem blundar í mann en hvar ætti maður að byrja? Ætti maður að byrja á fyrir Hruns-árunum þegar Mammon, guð frjálshyggjunnar, rúllaði yfir allt og alla hvort sem það voru fjölmiðlar sem keyptir voru upp, keyrði upp fasteignaverði þannig að láglauna Jón og Gunna voru komin í húsnæðisvandræði, íbúar miðborgarinnar sem voru umsetnir banksterum í teinóttu og verktakavinum sem fluttu inn dópgreni ef enginn vildi þýðast Mammon, landinn sem hafði verið hræddur til þagnar með óttastjórnun Davíðismans og kvótagreifanna sem veifuðu búntum af seðlum og stjórnmálaflokkum sem bugtuðu og beygðu sig fyrir feitum „prófkjörs- og kosningastyrkjum“ sem tryggðu að velaldar strengjabrúður stjórnmálanna dönsuðu í kringum bankanna, útrásarvíkinganna, kvótagreifanna og „fjárfestanna“ trylltum Kauphallardansi til heiðurs Mammon frjálshyggjunnar þar sem markaðsmisnotkun var daglegt brauð og innherjasvik regla frekar en undantekning?

Eða ætti maður að byrja við Guð blessi Ísland-ræðuna hans Geirs þar sem maður náfölnaði upp í kjallara Tryggingamiðstöðvarinnar svo mikið að vinnufélagi manns klappaði manni á öxlina og sagði að þetta yrði allt í lagi? Ætti maður svo að tala um að það hefði ekkert verið í lagi eftir þetta því ef Guð er beðinn með blessun þá tortímast samfélög þegar sá skrattakollur tekur til spilltra málanna? Ætti maður svo að skrifa um fyrstu hikskrefin á fyrstu mótmælin sem hingað til höfðu verið álitin heimskuleg athöfn á Íslandi og þóttu svo óviðeigandi að millistéttarliðið talaði af hneykslun um að mótmælendur ættu að vera á afviknum stað þar sem þeir trufluðu ekki vinnandi fólk? Ætti maður svo að tala um hvernig maður endaði í því að taka þátt í Borgarafundum Gunnars Sig þar sem maður varð vitni að ýmsu hvort sem það var upp á sviði eða utan sviðs, Borgarahreyfinguna sem varð eigin reiði að bráð eftir góðan sigur i kosningum, Búsaháldabyltinguna og aðdraganda hennar í gengum ýmis mótmæli þar sem reynt var hvað mest af fylgisfólki ráðandi flokka að gera lítið úr mótmælum og afbaka ýmislegt sem fór fram? Ætti maður kannski svo að ljúka þessu með því að tala um hvernig svo þetta rann allt út í sandinn þegar fólk snéri aftur á básana sína og lét hina ógeðfelldu stétt almannatengla sigra hugsun sína með útsmognum lygum og hætti að slá hjartatakt réttlætisins til þess eins að geta kosið Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn til að drottna yfir sér að nýju?

Eða ætti maður kannski bara að byrja á að tala um hversu stórbrenglað samfélag við vorum þar sem aðaldeiluefnið var bleik og blá sængurföt á Landsspítalanum, útlendingahatrið ríkti í mesta góðærinu gegn innfluttum verkamönnum sem við fórum með sem skít og Sjálfstæðismenn skipuðu vini og vandamenn Davíðs sem dómara ef það var ekki hægt að finna handa þeim vinnu á almenna markaðnum? Ætti maður svo að tala um hvernig við fundum skyndilega þegar hlekkjum þrælahalds frjálshyggju Mammons var HrunDið við fundum skyndilega frelsið til að tjá okkur, segja að hlutirnir væru ekki í lagi og flestöll vildum við breyta hlutunum til hins betra jafnvel þó við þyrftum að fara í stríð við ríka prósentið sem réði ríkjum úr fílabeinsturnum sínum og ásælist allar eigur okkar?

Ég veit það ekki.

Kannski ætti maður bara að bíða með allt svona, skrifa það niður fyrir sjálfan sig og láta svo allt gossa einn daginn þegar maður fær tiltrú á íslenskt samfélag og stjórnmál aftur.

Því stóri lærdómurinn af þessu er líklegast falinn í orðunum úr Hlébarðanum þar sem ein persónan segir að því meir sem reynt er að breyta, því meira verða hlutirnir eins.

Það er þannig á margan hátt tíu árum eftir Hrunið sem Sjálfstæðisflokkurinn og þeirra félagar á „hinum frjálsa markaði“ orsakaði þó sumt af því sé falið betra en áður.

Horfum bara yfir þetta allt saman.

Bankarnir hafa kannski tekið sig á í því að láta landann kvitta upp á form eftir form og tryggja allskonar formsatriði en þegar kemur kemur að svokölluðum „vildarviðskiptavinum“ sem oftast nær eru góðkunningjar einhvers með rétta flokkskírteinið þá bara skyndilega dettur Borgun í fangið á einum, Arion-banki í fangið á öðrum og Bakkavör ratar heim til bræðranna sem fokkuðu því fyrirtæki upp til viðbótar við eitt stykki banka, fjárfestingarfélag og nokkra lífeyrissjóði. Þegar hneykslun ríður yfir og fólk er æft yfir þessu þá er viðkvæðið á þennan veg:

„Æ sorrí, það urðu kannski pínkumistök. Við skulum skoða verkferlana okkar og laga þá......Við þurfum að fá frjálst spil til að borga veglega bankabónusa til lykilstarfsmanna og stjórnenda.“

Viðskiptalífið er svo að öðru leyti enn við sama keip. Feitum bónusum og ofurlaunum er raðað inn til stjórnenda til viðbótar við stórar arðgreiðslur úr fyrirtækjum á meðan Samtök Atvinnulífsins grenjar um að hér fari allt til fjandans ef láglauna Jón og Gunna fái laun til að lifa af í venjulegu lífi, okurleiga hrægammafyrirtækja og græðgi ferðaþjónustunnar hefur keyrt húsnæðismarkaðinn í hæstu hæðir þannig að sömu Jón og Gunna eiga í vandræðum, hagmsunasamtök sem sætta sig ekki við lög og úrskurði láta þingmenn og ráðherra taka tvist í breytingum á lögum og úrskurðum til þjónkunar, traðkað er á réttindum erlends vinnuafls líkt og á tímum Davíðismans fyrir Hrun meðan kyrjaðar eru endurteknar möntrur útlendingahatursins frá 2007 um að múslimar, flóttamenn og hælisleitendur séu vont fólk. Austur-Evrópubúarnir hafa þó fengið frí frá þessari umræðu ólíkt launaseðlum þeirra hjá starfsmannaleigunum enda fór hið hvíta afl að væla undan vonsku Breta þegar þeir stimpluðu Ísland sem efnahagsleg terroristasamtök.

Smá útúrdúr, það er kómískt annars hversu mikið er vælt undan hryðjuverkalagahóprefsingu Breta vegna gjörða hermdarverkamanna frjálshyggjunnar af hálfu sumra aðila sem telja í góðu lagi að beita múslima, flóttamenn, hælisleitendur og Palestínumenn hóprefsingum vegna gjörða fárra.

Það er víst ekki það sama hvíti, íslenski, kristni, aríski Jón og svo venjulegi Jón alls heimsins.

En svo eru það stjórnmálin.

Stjórnmálin eru enn að mestu föst í sama farinu. Dómarar og embættismenn eru skipaðir út á flokkskírteini og frændhygli, stofnanir eru búnar til í kringum atvinnulausa Sjálfstæðismenn, hringdans er tekin í kringum kvótagreifanna og sungið innihaldslaust með að lækka þurfi veiðigjöldin til að þeir geti greitt sér út enn meiri arð, vinstri og miðjuflokkar telja sér enn trú um að leiðin til áhrifa sé aðeins fengin í gegnum þjónkun við Sjálfstæðisflokkinn, það þarf ennþá mikinn djöfulskap til að nokkur stjórnmálamaður axli ábyrgð með afsögn, skjaldborg er slegið utan um spillingu og svo er endalaust reynt að hagræða sögunni með aðstoð KOM og annara viðbjóðslegra almannatenglafyrirtækja sem fengu fólk til að grenja aumingja Geir, Hanna Birna er ofsótt vegna kynferðis og yfirhylmingar með barnaníðngum Sjálfstæðisflokksins er bara smámál miðað við það að Bjarni bakaði voða flotta, bleika köku sem hann brenndi ekki eins og sjálfan sig í Panama.

Svo er hann sætur að mati landans þegar hann fer að hugsa um slík alvörumál í kjörklefanum sem skilar því að 27% fylgi kemst í höfn frá Panama og kynþokkinn dugar á vinstrið sem er grænt af hamingju yfir því að hafa landað svona föngulegum flokki frjálshyggjunnar með sér í stjórn.

Engu skiptir svo að fyrri sambönd Sjálfstæðisflokksins hafa yfirleitt endað með skilnaði og hörmungum fyrir þá flokka sem telja sig geta breytt honum líkt og Florence Nightingales þessa heims telja sig geta breytt ofbeldisfullum ölkum til hins betra með meðvirkni og undirlægjuhætti.

Maður gæti ælt ef Brynjar Níelsson hefði ekki einkarétt á því að kyngja ælunni.

En stjórnmálin hafa samt breyst þó Hrunvaldar, Hrunkóngar og aðrir fautar frjálshyggjunnar í Valhöll hafi forherst í stríði sínu gegn breyttu og bættu samfélagi. Við skulum ekki bara horfa á hið neikvæða því það eru aðilar og flokkar sem byrjaðir eru að hlusta á fólkið á gólfinu í stað forstjórans forríka í fílabeinsturnum Viðskiptaráðs. Fólkið hefur nefnilega eftir Hrun byrjað að tala opinberlega um hlutina þó það fari illa ofan í fólslega framámenn frjálshyggjunnar, fauskslegir fjölmiðlamenn og „málsmetandi“ álitsgjafa sem þeyta yfirleitt hrokafullum skeytasendingum í bland við skyr um að samskiptamiðlar séu vandamál, gagnrýnendur séu bara „síröflandi fúlir á móti“ og það sé alveg óþolandi að stjórnmálamenn séu í sífellu að hlusta á hvað þjóðin sé að fjasa því henni komi t.d. ekkert við hvort ráðherrar og þingmenn séu að hylma yfir með barnaperrum á milli þess sem þeir skoða stöðu sína á bankareikningunum sínum í skattsvikaparadísum.

Landinn lærði nefnilega að tala eftir Hrun vegna þess að hann hætti að óttast því hvað hafði hann að óttast eftir að peningarnir voru farnir, vinnan var farinn og húsið var farið?

Við sjáum líka tilraunir til alvöru breytinga af hálfu stjórnmálamanna og við sjáum líka að stjórnmálamenn reyna stundum að gera góða hluti þó landinn sjái það stundum ekki.

Aftur á móti hefur stjórnmálamönnunum algjörlega misheppnast það verk að vinna aftur traust enda rann tilraun til siðbótar stjórnmála út í sandinn eftir að þingsályktun var samþykkt út frá niðurstöðum skýrslu RNA og allt gleymdist í endalausri Æseif-deilu. Of mörg mál síðan hafa sýnt og sannað að það er líklegast ómögulegt verkefni í ljósi t.d. Lekamálsins, Panamaskjala, Barnaníðngsmála Sjálfstæðisflokksins, hundsun þingsins á niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu um fyrstu íslensku stjórnarskránna í stað danska yfirstéttarskeinisins, Landsréttarmálsins, lögbannsins á Stundina, brask Bjarna Ben og ættingja hans og fleiri og fleiri og fleiri og fleiri mála sem drekkja öllum góðum verkum í minningunni.

Það er ekki nema von að maður hafi misst trúna á stjórnmálin líkt og fleiri í þessu ljósi.

En höfum við hin í mengi „venjulega fólksins“ eitthvað lært af Hruninu?

Fyrir utan það að við eigum ekki að treysta stjórnmálamönnum, viðskiptamönnum og því sem okkur er sagt þá veit ég ekki hvaða lexíur við eigum að hafa lært af Hruninu.

Það eru kannski einstaklingsbundnar lexíur en ég held að við höfum allavega lært að þegja ekki, við höfum lært að fara eitthvað skynsamlegra með fé, við erum hætt að setja fé í hlutabréf, við lærðum að samtakamáttur getur fellt ríkisstjórnir og stoppað af fólk sem ætlar sér slæma hluti.  

Við höfum líka náð að minnka Sjálfstæðisflokkinn þó hann sé enn við völd vegna fylgispeki fólks sem fellur auðveldlega fyrir hræðsluáróðri og óttastjórnun, við höfum náð fram þjóðaratkvæðagreiðslum, við höfum fengið betri fjölmiðla sem trufla valdið, við höfum fengið fram bætt réttindi sumra hópa og við höfum fengið því framgengt að það sé allavega hlustað einstaka sinnum á landann en ekki bara þá sem bjóða upp á besta kókaínpartýiið í atvinnulífinu hverju sinni.

En kannski dýrmætasta lexían er að við uppgötvuðum hjá okkur um tíma að þegar við vorum orðin fátæk að nýju þá vorum við ekki lengur sjálfselsk og frek góðærisbörn sem týndust í yfirborðsmennskukapphlaupinu heldur vorum við enn inn við beinið hugmyndarík, hjálpsöm, sýndum samkennd í stað sjálfselsku og gátum fengið það fram sem við vildum ef við sameinuðumst gegn ofurefli þeirra sem lögðu landið í rúst.

Það er lexía frá Hruninu sem við þurfum að varðveita með okkur.

En alls ekki glopra niður líkt og öllu því sem við reyndum að breyta til betri vegar gegn harðri andspyrnu valds hinna ríku.

Svo að lokum er það ein lexía sem maður hefur sjálfur dregið af Hruninu og eftirmálum þess.

Lexían er sú að það er hægt að beisla reiði til góðra hluta ef henni er beint í rétta átt en við þurfum líka að gæta að því að láta reiðina ekki verða að vopni andstæðinga sem vilja halda okkur sundruðum í ýmsum deilum sér einum til hagsbóta.

Að þessu sögðu þá langar mig að segja að ég er þannig séð ekki lengur reiður yfir Hruninu þó ég finni reiðina blossa upp við og við yfir tilraunum manna til hvítþvotta á Hrunvöldum á borð við Geir og endurskrifun sögunnar sem er á skjön við staðreyndir.

En þó reiðin sé í rénum þá mun ég aldrei fyrirgefa einum eða neinum sem olli hér Hruninu því enginn þeirra hefur sýnt raunverulega yfirbót, iðrun eða auðmýkt í verki heldur aðeins hlaupist undan eigin ábyrgð.

Slíka fyrirgefningu þarf fólk að vinna sér inn fyrir og sumt er ófyrirgefanlegt.

Á það erum við minnt með þessu Hrunafmæli.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni