Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Að draga skip í land

Eitt sinn þegar ég var að fara nývaknaður á kvöldvaktina í togararalli Hafró og gekk út um klefadyrnar þá stóð áhöfnin á ganginum haldandi á stórri taug út á dekk. Einn hásetinn sagði glottandi við mig þegar hann sá mig að ég væri í góðum málum og gæti bara slakað á yfir myndum í stað vinnu. Ég varð eitt stórt spurningamerki og þá kom í ljós að loðnuflutningarskip var vélarvana og verið var að undirbúa að draga það í land.

Eftir að hafa matast og slíkt fór maður aðeins upp í brú þar sem maður sá línu skotið yfir til loðnuflutningaskipsins og byrjað var að græja hlutina. Spennan var áþreifanleg upp í brú og maður kom sér fljótlega niður í matsal til að flækjast ekki fyrir skipstjóranum og öðrum þeim sem þurftu að sinna þessu verki að reyna að koma vélarvana skipinu til hafnar

Svo leið kvöldið og nóttin þar sem menn spjölluðu eitthvað, menn gláptu á sjónvarpið, fleygðu sér í sófann og annað í þeim dúr. Allir voru samt að hugsa til skipsins sem verið var að draga og ef einhver kom ofan úr brúnni þá var yfirleitt spurt fregna. Einhvern tímann fór ég um nóttina upp í brú og þá var kominn snjókokma þannig að skyggnið var ekki upp á hið besta. Einn háseti benti út í kolniðamyrkrið og sagði við mig að áhöfnin um borð í loðnuflutingaskipinu sæti þar víst öll upp í brúnni í flotgöllum með heitt kaffi og kakó í ísköldu loðnuflutingaskipinu. Andrúmsloftið í brúnni okkar megin var þrungið spennu enda mannslíf í húfi og skipstjórinn greinilega stressaður en sallarólegur í öllum skipunum og framkomu. Að endingu var svo komið inn til hafnar og mönnum létti mikið um borð. Daginn eftir fór svo lífið í sinn vanagang og vinnan hélt áfram.

Mér er mikið búið að vera hugsað til þessarar upplifunar þessa daganna þegar maður sér til allskonar skyndisérfræðinga í læknavísindum hrópa yfir Internetið allskonar hlutum sem tromma upp hræðslu og vantrú á að fagmennirnir í læknavísindum séu að bregðast rétt við. Verstir eru þeir( sem virðast vonast eftir að sjá einhverja drastíska og öfgakennda hluti verða að raunverulegri framkvæmd líkt og það svali einhverri þörf þeirra fyrir að sjá ástandið verða að einhverskonar viðbrögðum við zombie apocalypse úr bíómyndum. Manni finnst líka eins og sumir fjölmiðlar séu líka að vonast eftir sem öfgakenndustum hlutum svo hægt sé að búa til enn fleiri æsispennandi smellifréttir í ástandi þar sem þörfin er meir á að upplýsingum sé rétt miðlað og ekki hjálpa til allskonar tækifærissinar í stjórnmálum og atvinnulífinu sem telja að eigi að nota tækifærið sér til framdráttar eða réttindasviptinga..

Þó það eigi ekki að hætta gagnrýnni hugsun á svona tímum og ekki eigi að loka augum fyrir því sem er rangt eða illa gert þá verðum við að treysta á það að fagfólkið í sóttvarnarmálum sé að reyna að gera sitt besta í stöðunni með sinni þekkingu. Ég veit allavega að að ef þetta lið sem er að tromma upp hræðslu, vantrú, vitleysu og öfga hefðu verið í brú skipsins sem dró loðnuflutingarskipið til hafnar þá hefði það flækst fyrir skipstjóranum í hverju skrefi, það hefði ekkert áunnist og líklegast hefði þetta endað með því að báðum skipum hefði verið sökkt sem þeirra lausn á verkefninu meðan öllum væri gert að svamla í land haldandi í einn björgunarhring.

Ekki hlusta á loddarana, ekki panika sama hvað og haldð haus í gegnum þetta allt saman.

Það virkar best.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu