Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Heimskuleg hugmynd Hildar

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ritaði í dag grein í Fréttablaðið þar sem hún setur fram frekar heimskulega hugmynd svo maður taki pent til orða um þetta nýjasta útspil úr ranni frjálshyggjunnar.

Hún vill láta leggja niður mötuneyti opinberra starfsmanna sem eru miðsvæðis og neyða þá til þess að versla við einhver veitingahús í miðbænum svo hægt sé að auka tekjur þeirra. Ástæðan sem er gefin upp fyrir þessu er sú að örfá veitingahús af þeim fjölmörgu sem eru miðsvæðis hafa lokað. Velflestir staðir þar ganga ágætlega, aðilar sem hafa lokað hafa m.a. kvartð undan of mikilli samkeppni og það er heldur ekki ný saga heldur hreinlega ansi gömul að veitingahús loki og oftast nær opnar annað í staðinn einhverju síðar, jafnvel af sömu rekstraraðilum á nýrri kennitölu „the Icelandic way“.

Þetta eitt gerir þessa hugmynd strax arfavitlausa en það er hreinlega svo margt til viðbótar sem gerir þessa tillögu enn heimkulegri fyrir vikið.

Fyrir það fyrsta þá til að hugmyndin gengi upp í ljósi þess að Hildur talar um í grein sinni að starfsmenn beri ekki tjón af þessu þá þyrfti að færa hana inn í kjarasamningaviðræður. Fæðispeningur og mötuneytismatur telst nefnilega til starfskjara bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum. Veitingahúsamatur er yfirleitt líka mun dýrari heldur mötuneytismatur og þetta myndi því hafa aukinn kostnað í för með sér fyrir ríki og borg. Að auki þyrftu laun opinberra starsmanna að hækka talsvert ef ætlunin er að margir þeirra geti leyft sér að borða úti í hverju hádegi án þess að heimilisbuddan finndi fyrir því. Það er frekar hæpið að kjör þeirra yrðu bætt, sérstaklega í ljósi þess að það bólar lítið á því að laun og önnur kjör í opinbera geiranum verði jafngóð almenna markaðnum í framhaldi af jöfnun lífeyrisréttinda.

Það er líka vandséð hvernig veitingahús eiga að fara að því að hafa alltaf frátekin borð fyrir þessi mörg hundruð manns sem ætlað er að versla við þau á ákveðnum tíma. Það er nefnilega grunnskilyrði til að þetta gangi upp að nægilegt borðapláss sé til staðar fyrir fólk og ég held nú að flest veitingahús séu ekki tilbúinn til þess að binda upp á von og óvon að t.d. helmingur staðarins sé frátekin fyrir fólk mili 11:30 til 13:30 sem er ekkert víst að komi í mat til þeirra sem nota bene þarf að vera framreiddur mjög fljótt, vera fjölbreyttur og helst tilbún þegar fólk kemur svo örtröðin myndi nú hreyfast. Þess til viðbótar er ekki hægt að neyða fólk til þess að versla við veitingahús frekar en það vill né afhenda veitingahúsi áskrift að hluta tekna fólks á móti þeirra vilja.  Slíkt væri einnig ávísun á kurr og verri starfsanda til viðbótar við óvild gagnvart veitingastaðnum.

Svo er þetta nú heldur ekki beint framleiðniaukandi fyrir vinnustaðina að missa starfsfólkið út fyrir vinnuumhverfið dags daglega. Í grunninn þá lengir þetta alla matartíma þar sem fólk þarf aukinn tíma til að komast til og frá á staðinn, það þarf að bíða eftir sæti og mat, það þarf að gefa sér tíma til að borða hann og já, það tekur svo sinn tíma að komast í gírinn aftur þegar á vinnustaðinn er komið. Þetta tekur líka einnig í burt stóran hluta félagslegra og vinnutengdra samskipta sem eiga sér oft stað í mötuneytum um hina og þessa hluti á milli starfsmanna mismunandi deilda. Ef aftur á móti mótsvarið til að sporna við þessu er að hinir sérvöldu veitingastaðir eigi að koma með matinn eða hann sé sóttur til þeirra þá er þetta komið út í það einfaldlega að vera nokkuð óbreytt fyrirkomulag en með meiri tilkostnaði og óhagkvæmari nýtingu á peningum skattborgaranna.

Nokkuð sem Sjálfstæðismenn eru reyndar alltaf að væna núverandi meirihluta um að fara illa með.

Síðan er nú það eitt til viðbótar að fjölmargar opinberar stofnanir eru með mötuneyti sem utanaðkomandi aðili rekur. Oftast er um að ræða fyrirtæki sem sérhæfir sig í mötuneytis- og bakkamat. Með þessari hugmynd Hildar er verið að taka af þeim tekjur sem þarf að bæta þeim upp á einhvern hátt. Á kannski að neyða leikskóla og grunnskóla í úthverfum til að versla af þeim í staðinn? Eða eitthvað í svipuðum dúr til að redda þessum fyrirtækjum? Og hvernig er þá með veitingastaði og matsölur annars staðar í borginni? Á ekkert að gæta jafnræðis gagnvart þeim?

En svo er það nú einnig að þessi hugmynd er svo í mikilli andstöðu við þeirri dólgafrjálshyggju dauðans sem Sjálfstæðismenn aðhyllast. Þarna er verið að tala um að hið opinbera fari að stýra neyslu fólks inn á mjög virkum samkeppnismarkaði og í einhverskonar „byggðastefnu“ til útvalins hóps fyrirtækja meðan á öðrum vígstöðvum segja Sjálfstæðismenn að markaðurinn sé bestur í að leysa málin sjálfur. Þetta væri fyndið i fáránleika frjálshyggjunar ef þetta væri einhverskonar Yes, minister þáttur en í raunveruleikanum er þetta einfaldlega heimskuleg hugmynd og popúlískur pilsfaldakapítalismi í dulargervi sem á hvorki að neyða opinbera starfsmenn eða stofnanir til að fjármagna.

Nóg er nú þegar verið að borga fyrir allskonar önnur frjálshyggjuflipp Sjálfstæðisflokksins.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni