Kæru vinir.
Hér stöndum við fjórum vikum eftir að Sigmundur Davíð sagði af sér og Sigmundur Ingi tók við. Fjórum vikum eftir að Bjarni Ben og Ólöf Nordal sögðu ekki af sér. Fjórum vikum eftir að Ísland var afhjúpað sem bananalýðveldi. Fjórum vikum eftir að íslensk stjórnmálamenning varð enn og aftur að skemmtiefni í öllum helstu skemmtiþáttum heimsins. Fjórum vikum eftir að stund sannleikans rann upp.
Birting Panamaskjalanna sviptir hulunni af leynimakki íslenskrar fjármála- og valdayfirstéttar, tjaldið er dregið frá og fjármagnströllin verða að steini, og þar með öll eins á svipinn:
“Ha, nei, ég?” eða “No no, no no no no”.
Eða þá að þessir nýtilkomnu steinar eru búnir að steingleyma öllu saman. Segið mér: Síðan hvenær hafa aurasálir getað gleymt aurunum sínum? Aðrir bera fyrir sig barnaskap. “Ég fór á Tortóla, af því að bankinn vildi það.” Allt ábyrga fólkið okkar, fólkið sem stjórnar landinu, fólkið sem er forsætisráðherra, forseti, ráðherra, fjölmiðlaveldiseigandi, framkvæmdastjóri og gjaldkeri stjórnmálaflokks, fólkið sem rekur lífeyrissjóðina, fólkið sem á atkvæði okkar, fólkið sem fer með peningana okkar, fólkið sem rekur okkur og ræður, fólkið sem á okkur, allt í einu á það ekki neitt. Það á ekki einu sinni til orð.
“Ja…. ég hafði nú bara satt að segja ekki hugmynd að þetta væri þarna á schjoshill… sheckzhyll… schljæschel-eyjum.”
Allt í einu kunna menn ekki lengur að tala. En svo fá þeir samt allt í einu minnið aftur.
“En við skulum samt hafa það alveg á hreinu, að það voru allavega borgaðir skattar og full gjöld af þessu, sko.”
“Já? En afhverju fóru þessir peningar þá í gegnum fjórar heimsálfur?”
“Ja… bara, peningar hafa gaman af því að ferðast og…”
“En afhverju enduðu þeir svo á Tortóla, af öllum stöðum?”
“Bara… einhverstaðar verða peningarnir að vera. Ég meina peningar þurfa líka að komast í frí sko.”
Einhverstaðar verða peningarnir að vera. Þeir þurfa líka að komast í frí. Þetta fólk talar um peninga eins og þeir séu fólk, einsog peningar sé með sömu þarfir og við. Þau tala um peninga þannig að maður á að fara að vorkenna þeim, það er að segja peningunum. Einhverstaðar verða þeir að vera. Einhverstaðar verða vondir að vera. Fyrirgefið en þetta er nú bara eins og út úr þjóðsögum Jóns Árnasonar. Þetta er eins og blanda af sögunni af gráloðnu loppunni í Drangeyjarbjargi og sögunum af Bakkabræðrum.
“Hófu þeir þá að bera fé sitt úr landi og notuðu til þess húfur sínar og hatta og komu því öllu fyrir í skattaskjóli á eyju þeirri er Torfhola nefnist. Sneru síðan til baka með fötur tvær og sögðu þær fullar af skattgreiðslum. Ryndust þær þó vera tómar þegar í var gáð. Svöruðu þá Bakkabræður því til að þetta væru skattaskjólur.”
Peningarnir þurfa að komast í frí! Ráðherrarnir þurfa að komast í frí! Latasta ríkisstjórn sögunnar geymir peningana í Karabíska hafinu en sjálfa sig í Flórída, hún þarf nefnilega að ná einum golfhring í viðbót áður en hún “missir af” fluginu heim til að finna sér nýjan forsætisráðherra. Það er nefnilega svo flókið að eiga peninga á Íslandi, það er svo flókið að vera ríkur á Íslandi, og að þurfa svo að vera ráðherra líka, það er ógeðslega erfitt og flókið, og þess vegna þarf maður að vera svona mikið í Flórída, og fara annaðslagið í gott frí. Eigum við þá ekki bara að gefa þessum ráðherrum endanlegt frí?!
Sigmundur Ingi! Bless! Bjarni Ben! Bless! Ólöf Nordal! Bless! Ríkisstjórn ríka fólksins! Bless! Framsókn og Sjálfstæðisflokkur! Bless!
Þessir flokkar hafa ráðið yfir okkur frá stríðslokum. Þeir hafa setið í öllum ríkisstjórnum Íslands nema einni frá því landið fékk sjálfstæði. Þeir hafa raðað sínum á garðann og gefið á hann í 70 ár. Þetta er fólkið sem færði okkur Íslenska aðalverktaka, Kolkrabbann, SÍS, kvótakerfið, einkavæðingu bankanna, útrásina, Glitni, Kaupþing og Landsbankann, Stím, stærstu gjaldþrot sögunnar, stærsta efnahagshrun heimsins, (þetta síðasta reyndar með aðstoð Samfylkingarinnar).
ÞULARRÖDD: Já, frá fólkinu sem færði okkur Hrunið, Icesave, gjaldþrot Seðlabankans, IceHot1 og Finn Ingólfsson, kemur nú stórmyndin “Fyndni forsætisráðherrann”, sem slegið hefur í gegn um allan heim. Einnig er væntaleg gamanmyndin “Ég man ekki hvað ég gerði við peningana mína af því ég á svo ógeðslega mikið af þeim, en ef þú hittir þá þá bið ég að heilsa”, sem vakið hefur traust um allt land. Í framleiðslu eru svo sjónvarpsseríurnar “Dýrafjarðargöng” og “Líklega kosningar í haust, djók!”
Þessir flokkar hafa kostað okkur mikið. Bara Finnur Ingólfsson kostaði okkur 14 milljarða. Fyrir það væri hægt að gera göng til Vestmannaeyja og önnur til baka. Afhverju dæmum við hann ekki bara til þess að moka þau?
Framsóknarflokkurinn er svo helsjúkur af spillingu að þar á bæ finnst mönnum bara allt í lagi að framámenn hans og ráðherrar geymi peningana sína utan hagkerfis og krónu, í leynihólfum á vegum lögfræðiskrifstofu eiturlyfjabaróna, vopnasala, Pútíns, Assads og Blatters.
Framsóknarflokkurinn er svo helsjúkur af spillingu að nýr og tandurhreinn ráðherra hans er orðinn ónýtur eftir sitt fyrsta viðtal. Eftir korter í pólitík er nýr utanríkisráðherra búin að kóa svo með spillingunni að hún er orðin marklaus. Því ef hún hefði ekki gert það hefði hún aldrei orðið ráðherra. Hvað segir það okkur um íslenska pólitík að hið eina stóra inntökuskilyrði hennar sé hæfileikinn að geta logið í beinni?
Hvað þarf mikið til þess að við náum að breyta þessu kerfi? Hvað þarf mörg Hrun til? Hvað marga gagnaleka? Við stöndum hérna í dag, aðeins vegna þess að einhver góð og hugrökk manneskja úti í heimi lak heilli lögfræðistofu í Panamaborg, og hundrað blaðamenn unnu kauplaust og kauplítið við að vinna úr þeim leka mánuðum saman, og Jóhannes Kr. Kristjánsson fórnaði heilum vetri úr lífi sínu og kannski miklu meira en því, til að koma þessum afhjúpunum á framfæri.
Klöppum fyrir honum, klöppum fyrir öllu þessu fólki!
Ef ekki fyrir þau, værum við nú heima í vorverkunum, uppí bústað að sleikja sól eða heima að pósta hundamyndum á Facebook. Og Sigmundur Davíð væri ennþá sitjandi, nei ég meina liggjandi, forsætisráðherra í fríinu sínu á Flórídaströnd, og Bjarni Ben væri enn á sjöundu holunni í Tampa, og Sigmundur Ingi væri ennþá bara Sigurður Ingi á hestbaki uppí sveit, en ekki sestur í þann stól sem enginn, ekki einu sinni konan hans, kaus hann í.
Íslenska þjóðin er með tvo heila stjórnmálaflokka á sínu framfæri og það er því ekki furða að það gangi brösulega að reka hér skólakerfi, heilbriðgiskerfi, samgöngur, lögreglu, lánasjóð og íbúðalánasjóð. Hugsið ykkur hvað við gætum án þessara tveggja flokka? Þá kæmumst við ekki bara á EM heldur HM líka!
Sko. Þetta eru tveir flokkar:
XD) Í öðrum flokknum er fólk sem á peninga. Sem er svo ríkt að það veit ekki hvað það á mikið. Þess vegna fer það í pólitík, svo það geti lesið um það í fjölmiðlum hvar allir peningarnir eru. Þetta fólk átti sér upphaflega drauminn um að græða á daginn og grilla á kvöldin, en fattaði svo Tortólu, að það gæti líka grætt á kvöldin, útaf tímamismuninum. Enn betra er samt að hafa peningana í fjórum heimsálfum, þá er hægt að græða allan sólarhringinn, hringinn í kringum jörðina.
XB) Í hinum flokknum er svo fólk sem á ekki pening en langar í pening. Sem langar að verða ríkt en hefur enga sérstaka hæfileika til þess. Þess vegna fer það í Framsókn. Sjáið bara Finn Ingólfsson. Ólaf Ólafsson. Og Gunnlaug “rosa flott flétta” Sigmundsson. Og nýjustu spillingarstjörnu flokksins, Hrólf Ölvisson. Og sjálf þekkið þið hundrað nöfn í kringum ykkur. Allir Íslendingar eiga að minnsta kosti einn hæfileikalausan frænda sem ekkert gat þar til hann seldi sál sína Framsókn og á nú sölubás í Leifsstöð, þrjú hús, sjö bíla og sérákvæði um sig í nýja Búvörusamningnum.
En afhverju kjósum við þetta fólk, og þessa flokka, aftur og aftur? Og það eftir að þeir á sínum tíma gáfu sjálfum sér þjóðarbankana, eða öllu heldur stálu frá þjóðinni bönkunum hennar, gáfu svo amerískum álrisa hluta af hálendinu, bjuggu til mestu bólu allra tíma, og mesta skuldaklafa Íslandssögunnar, Icesave, sem leiddi til mesta Hruns allra tíma… en samt, þá kaus þjóðin þá aftur til valda. Á fjórum árum tókst henni að gleyma Finni Ingólfssyni. (Ég meina, hvernig er það hægt?) Afþví að ÞEIR sögðu að Jóhanna hefði ekki verið nógu fljót að skúra skítinn, hefði ekki gert það rétt, ekki notað rétt hreinsiefni, og ætlaði auk þess að borga fyrir þau sjálf.
Öll þessi saga um Skuldaleiðréttinguna, móður allra kosningaloforða, var eins og þegar fyllibyttan heimilisfaðirinn braut allt og bramlaði í stofunni eitt laugardagskvöldið og hvarf svo út í nóttina, en birtist svo daginn eftir, akþunnur, þrútinn og baugaður (svona eins og Sigmundur Davíð leit alltaf út)… birtist allt í einu um hádegið og byrjar á því að húðskamma konuna, sem er að reyna að þrífa og raða saman brotunum, skamma hana fyrir að raða þeim ekki rétt saman og hugsa ekki nóg um börnin á meðan. Og svo lofar hann börnunum ísbíltúr! Auðvitað vildu börnin ísbíltúr. En afhverju þjóðin vildi það, eftir allt sem á undan var gengið, er rannsóknarefni, því í staðinn fyrir ís fékk hún bara Wintrís.
Peningar eru fíkn. Völd eru fíkn. Saman er þetta feiknarleg fíkn. Og þjóðin virðist alltaf jafn meðvirk. Það er líka einhverskonar fíkn. Fólk elskar að kjósa ríka fólkið til valda, fólkið sem ekki deilir kjörum með Íslendingum heldur Aflendingum. Hér blasir við stórfelldur vandi, þjóðarmein, krabbamein á þjóðarlíkamanum. Gríðarlegar fúlgur eru sogaðar út úr hagkerfinu af 600 innlendum blóðsugum, og þeim gubbað oní svartar skúffurnar í skattholinu. Við eigum bara eftir að sjá þennan vanda vaxa, þegar enn fleiri nöfn verða birt. Þegar við sjáum inn í sálarbókhaldið hjá kvóta- og afskriftarkóngum Íslands.
Hér hefur verið framið arðrán, eitt grautfúlt og gamaldags arðrán.
Stór hluti af íslenskum efnahag liggur aðgerðarlaus á suðurhafseyju, peningar í endalausu fríi, íslenskir aðalspeningar undanþegnir skatti, peningar sem gætu annars og ættu að vera í vinnu hér heima, en eru hinsvegar peningar sem aldrei hafa unnið, né heldur var unnið fyrir þeim, því allt er þetta meira og minna auðfengið eða illa fengið fé, og leitar þess vegna í leyndina, kann best við sig í leyndinni. Aflendingarnir sem eiga Panama-peningana unnu nefnilega aldrei fyrir þeim, þeir fengu þá annaðhvort gefins, í formi arfs, eða “bankaláns”, “fyrirgreiðslu”, “eingreiðslu”, “kúluláns” eða “kvótagróða”. Allir sem eiga fé í skattaskjóli fóru með það þangað vegna þess að það þoldi ekki dagsins ljós.
Löglegt segja sumir, en þá bara vegna þess að afbrotin eru framin á ljóshraða internetsins en lögin eru samin á hraða Alþingis.
Og þess vegna getum við talað um tvær þjóðir í einu landi. Íslendinga og Aflendinga. Ó mæ god, hugsa nú ýmsir lögfræðingar landsins, á nú að fara að brennimerkja okkur, þetta Kastljós var náttúrlega bara Hitler. Eða á kannski nú að láta þá sem eiga peninga á Tortólu ganga með gula stjörnu á erminni. Nei, nei, alls ekki, en við erum hinsvegar búin að kaupa 600 Panama-hatta til að setja á kollinn á ykkur.
En þið Aflendingar eigið alltaf möguleikann á heimferð, þið getið alltaf orðið aftur Íslendingar. Með því einfaldlega að sýna auðmýkt og einlægni, koma hreint til dyranna og koma heim með ránsfenginn, skila honum aftur til samfélagsins sem bjó hann til, taka niður Panama-hattinn. Við vitum að þó að 600 manns hafi skipt við Mossack Fonseca eru til enn fleiri svona lögfræðiskrifstofur. Svo við segjum við ykkur kæru Aflendingar: Gerist nú aftur Íslendingar og smalið fénu heim!
Við höfum alltaf not fyrir það. En það sem mestu skiptir: Hér yrði heilbrigðara samfélag. Betra samfélag. Án Tortólu-holunnar væri Ísland ekki bara auðugra og sterkara heldur líka heiðarlegra. Og án Tortólu-flokkanna væri hægt að efla hér siðferðis- og réttlætiskennd, hreinsa til og lofta út, lyfta Íslandi á annað plan!
Breyta stjórnarskránni, endurreisa heilbrigðiskerfið, kjósa nýjan forseta, og já… ná í fullt af peningum.
En til þess að þetta megi gerast þarf nýja ríkisstjórn. Ef við ætlum að útrýma aflandssukkinu þýðir auðvitað ekki að vera með ríkisstjórn sem ekki aðeins er skipuð tveimur Aflendingum heldur er leidd af manni sem hefur ekkert út á aflenskuna að setja.
En ef… honum hinsvegar dytti í hug að rjúfa þing og boða til kosninga þyrfti hann að bera það undir mann sem kvæntur er Tortólareikningi.
Kæru vinir.
Hér þarf hreinsun. Við þurfum að uppfæra Ísland. Þetta hús þarna er Alþingi Íslendinga, ekki Alþingi Aflendinga. Og við þurfum ríkisstjórn sem er ríkisstjórn Íslands en ekki Aflands!
Burt með Bjarna Ben og Sigmund Inga!
Kosningar strax!
Athugasemdir