Laugardaginn 13. mars, þá nýkomin úr miðbænum, skrifaði ég pistil á Facebook-síðuna mína um „ævintýri“ dagsins og birti mynd með. Undirtektirnar komu á óvart, svo miklar voru þær. Þegar þetta er skrifað eru komin 857 læk, 193 deilingar og 69 athugasemdir. Segja má að undirtektir við pistilinn séu birtingarmynd þess hve margir hafa áhyggjur af miðborginni og hvað verið er að gera henni - á kostnað bæði íbúanna og allra landsmanna. Því borgina eigum við öll.
Pistillinn hljóðaði svona:
„Áðan gekk ég „þurrum“ fótum niður í Kolaport (enginn klaki!). Ég fílaði mig eins og Andri lögreglustjóri á leiðinni fram og til baka - með órennda úlpu og húfulaus innan um alla kappklæddu túristana.
Í bakaleiðinni staldraði ég við niðurrifið á Tryggvagötunni þar sem fyrirhugað er að byggja fjögurra hæða, 110 herbergja hótel sem teygir sig allt frá Vesturgötu 18, niður níðþröngan Norðurstíginn og austur Tryggvagötuna í einhvers konar L-i. Fyrir hrun var áætlað að byggja íbúðarhús þarna - en nú skal alls staðar troða inn hótelum. Allt í kringum þennan reit eru gömul hús með hlöðnum grunnum en samt er fyrirhugað að sprengja hluta klapparinnar fyrir nokkur bílastæði. Það gæti orðið gömlu húsunum æði dýrkeypt.
Búið er að rífa Vesturportshúsin og gömlu Fiskhöllina (upphaflega sláturhús) og byrjað að rífa græna timburhúsið. Meðfram því lá einu sinni stígur milli Vesturgötu og Tryggvagötu þar sem hægt var að fylgjast með stígnum í útskoti á húsinu.
Í húsakönnunarskýrslu Árbæjarsafns frá 2001 segir m.a. um húsin þrjú á Tryggvagötu nr. 10, 12 og 14: „...þau njóta verndar samkvæmt lögum um húsafriðun 104/2001. Tilveruréttur þeirra er ótvíræður og skoða þarf vandlega hvað koma á í stað þeirra komi til þess að þau þurfi að víkja.“ Það verður semsagt fjögurra hæða hótel.
Sem ég stóð þarna fyrir framan og tók myndir gáfu sig á tal við mig bandarísk hjón og spurðu hvaða framkvæmdir væru fyrirhugaðar þarna. Ég svaraði því til að um alla miðborgina og nágrenni væri verið að rífa gömul hús til að byggja hótel og flæma íbúa í burtu til að reka airbnb gistingu.
Það kom undrunarsvipur á hjónin sem sögðu það hræðilegt því það væru einmitt gömlu húsin sem væri svo gaman að skoða! Þau væru aðdráttaraflið. Svo sagði konan að þetta svaraði þá spurningu sem þau höfðu spurt sig: Af hverju þau sæju bara aðra túrista á ferli í miðborginni.
Það er nú svo og svo er nú það.
Svona framkvæmdir þrengja verulega að íbúum hverfisins, sem er nú þegar eitt þéttbýlasta hverfi gamla borgarhlutans. Í deiliskipulagi frá árinu 2003 segir m.a. um svæðið:
„Áberandi skortur er á útiaðstöðu, bílastæðum og frágangi nær allra útisvæða og lóða. Sum húsin á reitnum eru nær lóðarlaus. Óhætt er að fullyrða að um 20% íbúa reitsins hafa enga útiaðstöðu á lóðum sínum, svalir né garðholu þar sem sólar nýtur.“
Samt samþykkja borgaryfirvöld risastórt hótel til viðbótar við öll hin hótelin, gistiheimilin og airbnb íbúðirnar í hverfinu. Þetta er galið.“
Sem svar við athugasemd skrifaði ég þetta:
„Ég kom inn á þetta vandamál í pistli í Stundinni um daginn og segi þar:
„Sagt er... að það bráðvanti húsnæði í borginni, einkum fyrir ungt fólk. Í hentugri stærð og á viðráðanlegu verði. Helst miðsvæðis. En af hverju er þá verið að byggja risahótel á hverjum lófastórum bletti í miðborginni? Eða breyta húsum sem fyrir eru í hótel. Sum kennd við lúxus eins og fyrir hrun.
Hvernig í ósköpunum stendur á því að erlendir ferðamenn eru látnir ganga fyrir húsnæðislausum íbúum borgarinnar? Og hvað á það að þýða að þrengja svo að þeim íbúum sem fyrir eru, angra þá með rútuumferð, bílastæðaskorti, ónæði allan sólarhringinn og auknum skorti á nærþjónustu sem öll stílar orðið á ferðamennina?
Í miðborginni er þéttasta byggðin, þrengstu göturnar, minnstu útivistarsvæðin (ef einhver), fæstu og dýrustu bílastæðin. En samt standa borgaryfirvöld fyrir því að þétta byggðina enn meira, ýta undir umferð sem hverfin þola alls ekki og hrekja þá íbúa sem eftir eru í burtu... fyrir erlenda ferðamenn. Fyrir kosningar er svo talað um og lofað íbúðum sem venjulegt fólk hafi efni á. Mikið geta orðin nú verið ódýr og pólitíkin ómerkileg.“
Svo mörg voru þau orð í þeim pistlinum.
Íbúar í eldri hverfum Reykjavíkur eru löngu farnir að upplifa sig sem fórnarlömb túrismans og hótela- gistiheimila- og airbnb geggjunarinnar. Framkvæmdirnar eru svo frekar, svo yfirgengilegar, það er vaðið yfir allt sem fyrir er með dollaramerki í augum, íbúar ekki hafðir með í ráðum og fá jafnvel ekkert að vita fyrr enn seint og um síðir - og þá er þeim sagt að of seint sé að breyta nokkrum hlut.
Fyrir nokkrum dögum skrifaði Kári Gylfason, fréttamaður RÚV, fréttaskýringu um „Sprengingar, framkvæmdir og ónæði í miðbænum“. Hann hélt sig aðallega austan lækjar, en fólkið sem býr vestan hans er að upplifa þetta sama. Þetta er engu að síður mjög góð og upplýsandi fréttaskýring.
Sumir segja: „Þetta fylgir því að búa í borg.“ Ég segi nei, alls ekki. Fólk sem býr í borgum á ekkert frekar en fólk í sveit eða þorpum að þurfa að umbera gráðuga verktaka sem vaða yfir umhverfið á skítugum skónum og gera bara það sem þeim hentar. Skerða lífsgæði íbúanna til að græða peninga sem fara beint í þeirra prívatvasa.
Sumir segja: „Það er komið líf í miðborgina.“ Já, vissulega er alltaf fullt af fólki í bænum. Túristar að taka myndir, versla í lundabúðum og borða á veitingastöðum sem Íslendingar hafa ekki efni á. Hvað erum við að bjóða þessum gestum upp á? Að horfa á hótel og aðra túrista? Finnst þeim það spennandi og koma þeir aftur til að skoða fleiri hótel og enn fleiri túrista? Og nú segir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar að gengi krónunnar sé orðið of sterkt. Sem er gott fyrir íslenskan almenning - en vont fyrir túrismann.
Að lokum er hér ítarefni sem ég birti á Facebook-síðunni minni í fjögurra innleggja skipulagssyrpu hinn 7. mars. Innleggjunum fylgdi of mikill texti til að afrita hér:
Fyrsta innleggið í syrpunni var um lítið hús að Grettisgötu 4, byggt 1918, sem á að rífa og byggja þriggja hæða fjölbýlishús með sjö íbúðum.
Annað innleggið var um málflutning Hjálmars Sveinssonar í Krossgötuþáttum hans hérna um árið. Þá fjallaði Hjálmar m.a. um hagsmuni og rétt íbúa gömlu borgarinnar og Höfðatorgið. Hjálmar er nú formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar.
Þriðja innleggið snerist um sálræn áhrif hins manngerða umhverfis sem við búum í. Þar klippti ég saman þrjú viðtöl við Pál Jakob Líndal, doktor í umhverfissálfræði. Mjög fróðlegt efni.
Fjórða og síðasta innleggið í syrpunni var síðan Kiljuviðtal við Guðjón Friðriksson, sagnfræðing, þar sem hann gekk um gömlu höfnina með Agli og sagði m.a.: „Þetta [gamla höfnin] er eiginlega fjöregg Reykjavíkur líka að mörgu leyti og kannski gera Reykvíkingar sér ekki grein fyrir því nú til dags hvað höfnin er mjög mikilvæg. Þetta er má segja sannkölluð bæði lífæð og fjöregg borgarinnar.“
En á þessu fjöreggi og lífæð borgarinnar stendur til að hlaða niður blokkum. Viljum við það?
Athugasemdir