Þegar Íslendingar gerðu samning við Bandaríkjamenn um hervernd árið 1941 fengu landsmenn reyndar litlu um þann samning ráðið. Herverndin var að frumkvæði Breta og Bandaríkjamenn og Íslendingar urðu í reynd að sitja og standa eins og stórveldunum þóknaðist.
Ríkisstjórn Íslands, undir forystu Hermanns Jónassonar, tókst þó að geirnegla eitt atriði í samningaviðræðum við Bandaríkjastjórn.
Sem sé að hingað til lands kæmu ekki svartir hermenn á hennar vegum.
Þetta töldu Íslendingar mjög mikivægt.
Tæpum aldarfjórðungi síðar var bandaríski herinn enn á Íslandi og enn voru þau ákvæði í gildi að hér skyldu ekki vera svartir hermenn til að trufla ekki heimamenn í þjóðernishyggju þeirra.
En var ýmsum farið að finnast sem Bandaríkjamenn væru farnir að halda samkomulagið illa.
Ofangreind frétt birtist í Mánudagsblaðinu 10. maí 1965. Í framhaldi fréttarinnar þykist blaðamaðurinn skilja svo vel réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum en hún eigi bara ekki við hér! Og hann varar greinilega við „óraunhæfri vorkunnsemi“ í garð svartra!
Nú var Mánudagsblaðið vissulega eins konar „jaðarblað“ en í þessu tilviki er því miður hætt við að þær skoðanir sem í fréttinni birtust hafi átt miklu fylgi að fagna á Íslandi, og það í öllum þjóðfélagshópum og hjá stuðningsmönnum allra flokka.
Umburðarlyndi í garð annars fólks var greinilega minni á Íslandi fyrir 50 árum en við viljum trúa. Hefur það breyst?
Í heild er fréttin svo:
„Það eru mikil mistök hjá bandaríska varnarliðinu að brjóta samninga lútandi að því, að ekki yrðu negrar fluttir hingað á vegum hersins. Íslendingar hafa ekki haft af kynþáttavandamálum að segja og ætla sér ekki að fá þessa innflutningsvöru að vestan, þótt margt gott komi þaðan. Undanfarið hefur borið mikið á blökkumönnum syðra [í Keflavík] og hafa þeir, á sinn hátt, þegar valdið misklíð. Fjöldi manna hér á landi, sem er að öllu leyti hlyntur þátttöku í NATO telur mjög vafasamt, að vörnum sé haldið áfram, undir núverandi fyrirkomuIagi, ef flytja á hingað, til 180 þúsund manna þjóðar, hóp af blökkumönnum.
Svo virðingarverð, sem baráttu þeirra [Lyndons] Johnsons [forseta] og [mannréttindafrömuðarins Martin Luthers] Kings er, þá er þetta þeirra vandamál, en alls ekki útflutningsvara til þjóðar, sem alls ekki er undir þeirra valdi, heldur aðeins í varnarsambandi við Bandarikin. Heryfirvöldin og þetta svokallaða utanríkisráðuneyti okkar, ættu að athuga þessa þróun, áður en hún gengur of langt. Sú tíð kann að koma á Islandi — eins og þegar er komið fram í hinum frjálsu skandinavísku löndum — sem héldu að kynþáttavandamál væru leyst með óraunhæfri vorkunnsemi og „skilningi" — að Íslendingar eigi eftir að sjá eftir of skjótri þróun í þessum efnum. Við erum fordómalaus þjóð, en það þýðir ekki að við kyngjum öllu þegjandi.“
Athugasemdir