Forréttindi eru eitthvað sem við búum öll við, en svo eru líka sum okkar sem búa við misrétti og það getur alveg farið saman. Ég er til dæmis bæði hvít og gagnkynhneigð og ég er ekki fátæk. Ég er með meiri aðstoð en margt fatlað fólk, og hef fengið tækifæri til að vinna og mennta mig, og það eru mín forréttindi.
En það breytir því ekki að á hverjum degi upplifi ég fordóma og verð mjög oft fyrir misrétti og hef skert tækifæri miðað við margar ófatlaðar konur. Ég get verið með forréttindi, og jaðarsett á sama tíma.
Það að segja að einhver búi við forréttindi er ekki meiðyrði eða móðgun, heldur bara staðreynd. Stundum erum við í hópi sem er valdameiri og það er allt í lagi – það er ekki slæmt nema þegar við viðurkennum það ekki, því þá eru meiri líkur á því að við göngum á rétt annarra.
Að sýna fólki virðingu
Við þurfum alltaf að pæla í umferðarreglum. Við getum ekki allt í einu hætt að vera meðvituð um þær og valsað út á götu eins og ekkert sé því við erum hrædd við að einhver muni keyra yfir okkur. Þetta er eðlilegur hluti af okkar daglega lífi og lífsnauðsynlegt því annars stefnum við okkur í hættu.
Ég veit ekki af hverju það ætti að vera eitthvað erfiðara að taka tillit til þess hvernig við högum samskiptum okkar við annað fólk. Mér finnst það rosalega magnað að á ráðstefnunni Truflandi tilvist, sem var uppspretta þessa máls og fréttaflutnings Stöðvar 2, voru í fyrsta skipti margir ólíkir jaðarsettir hópar að vinna saman að því að skoða hvað við eigum sameiginlegt og hvað er einstakt við hvern hóp.
Það var ótrúlega magnað hvernig við komum öll inn í þetta rými með það markmið að búa til eitthvað fallegt saman, og styrkja hvert annað. Við þurftum að leggja okkur fram, opna öll skilningarvitin, og fylgjast með af mjög mikilli athygli.
Við vönduðum okkur þannig að öllum gæti liðið sem best, og með tímanum varð það ekki erfitt; jú, maður gerði stundum mistök og notaði til dæmis vitlaus persónufornöfn, það var vandræðalegt fyrir okkur sjálf og örugglega frústrerandi fyrir fólkið sem var ávarpað með röngu persónufornafni, en það sem skipti máli var að við lærðum af mistökum okkar. Aðalmálið er að sýna fólki og tilvist þess virðingu.
Mér finnst að það sé gott veganesti innan og utan þessarar ráðstefnu; þetta er kannski flókið fyrst en síðan lærum við bara og skiljum þannig betur mismunandi stöður okkar. Við kynnumst og brjótum niður múra. Það er ekki neikvætt, heldur skapar miklu fleiri tækifæri, skapar miklu betra samstarf, miklu meiri sátt, og meiri frið. Það er allt í lagi að við þurfum að leggja eitthvað á okkur til þess.
Skref áfram og afturábak
Síðstu tvö eða þrjú árin hef ég fundið fyrir því að það er að verða til meiri meðvitund um ableisma, sem snýst um mismunun á grundvelli getu eða færni. Þetta kemur fram til dæmis með því að fólki finnst ekki í lagi að nota hugtök um fötlun til að niðra aðra. Fólk er að átta sig á því að fatlað fólk er jaðarsettur hópur, en ekki bara sjúklingar á stofnun. Við eigum samt mjög langt í land og misrétti á grundvelli fötlunar er mikið á Íslandi.
En á sama tíma verð ég að viðurkenna að ég er hissa: Ég hélt að ég byggi í samfélagi sem áttaði sig á því hvað forréttindi þýddu. Ég hélt að ég byggi í samfélagi sem skildi að þótt aðrir upplifðu ekki þá fordóma sem ákveðinn hópur lýsir, þá þýddi það ekki að þeir væru ekki til. Ég hélt að fólk hefði skilning á margbreytileika og flækjustigi misréttis.
Ef þú upplifir ekki fordóma, þá ertu augljóslega í valdameiri stöðu og ert ekki að reka þig á hindranir, dónaskap, eða misrétti. Þó svo að við sjáum ekki eitthvað þýðir ekki að það sé ekki til.
Ég hef til dæmis ekki verið neydd í ófrjósemisaðgerð, á meðan að fullt af fötluðum konum hafa lent í því. Þó að ég hafi aðra stöðu þá hef ég ekki rétt til að rengja þeirra upplifun eða reynslu á því. Það er ekki þeirra ímyndun að þær hafi einhvern tíman verið sendar í ófrjósemisaðgerð – þær voru það, það er raunveruleiki þeirra, og það er til dæmis ástæðan fyrir því að þær geta ekki eignast börn þótt þær vilji það.
Þó að ég haldi ennþá minni frjósemi, þá þarf ég ekkert að gera lítið úr þeirra upplifun eða reynslu; þvert á móti get ég notað mín forréttindi til að styðja þær.
Fjandsamleg orðræða
Ég hef tekið eftir því í kjölfar allrar þessarar umræðu að fólk er mjög mikið að gera grín að því hvað þetta hefur orðið stórt mál, og fólk fer að tala um hvað jaðarsettir hópar séu móðgunargjarnir.
Í fyrsta lagi veit ég ekki hvort það sé hægt að tala um móðgun þegar um er að ræða niðrun á heilum samfélagshópum, og það er eðlilegt að þeir bregðist sameiginlega illa við þegar einhver í valdastöðu fer að draga þeirra upplifanir og reynslu í efa.
Fyrir utan það myndi ég hafa áhyggjur ef enginn myndi reiðast við svona kringumstæður. Mér finnst að þegar það er ráðist svona að sjálfsmynd manns, og reynsluheimi og félagslegri stöðu, þá finnst mér það vera mjög eðlileg viðbrögð að taka því illa, því þetta er ekki bara umræða um vinnuna eða eitthvað samfélagsmál eins og Evrópusambandið; þetta er lífið þitt, reynsla, sjálfsmynd og mennska.
Ég er svo fegin þegar ég sé að fólk verður reitt, þegar fólk tekur hluti alvarlega, því þá veit ég að jaðarsett fólk áttar sig líklega á því að það á betra skilið.
Þessi pistill var unninn úr viðtali Gabríels Benjamins við Freyju Haraldsdóttur.
Athugasemdir