Margir fyllast eftirvæntingar þegar sér fyrir endann á vinnuvikunni og helgin nálgast. Ég sé oft í hyllingum að taka góða afslöppun á laugardegi, hlamma mér í sófann með teppi og dýrindis kaffibolla. Taka í prjónana og horfa á Útsvarið frá því kvöldinu áður. Aftur. Jafnvel halla sér aftur, loka augunum og tæma hugann. Losa um streitu frá liðinni viku og gleyma stað og stund.
Nei. Þetta eru aðeins órar sem aldrei rætast. Áður en þreyttar rasskinnar mínar falla í sófafaðminn, áður en fyrsti kaffisopinn rennur niður, í þann mund sem spennan er að líða úr öxlunum, herpast þær á ný og kýlast upp í hnakka. Kaffið verður kalt. Þykkt ský dregur fyrir sólu. Maðurinn minn kom nefnilega inn. „Heyrðu það er leikur sko.“ Og vel skapað andlit Sigmars Guðmundssonar er afmáð af skjánum með það sama. Hann náði ekki einu sinni að bjóða gott kvöld.
Það er óþægilegt að hugsa til þess hversu oft frístundir mínar hafa þurft að víkja vegna þess að fullorðnir karlmenn eru að leika sér með bolta á Englandi. Nú hef ég ekkert á móti fótbolta eða öðrum íþróttum. Þær eru ímynd eldmóðs og heilbrigðis. En þarf að spila fótbolta allan helvítis sólarhringinn? 90 mínútur af spretthörðum karlmönnum að hlaupa fram og til baka. Frá morgni til kvölds. Allar helgar. Stöku sinnum hittir einhver í markið. Að ætlast til að einum leik sé sleppt er guðlast og ég ligg undir ámæli. Ég sæi fyrir mér ef Grey’s Anatomy væri sýnt í beinni allar helgar og ég hefði rétt til að vísa kallinum úr sófanum. Hann þyrfti reyndar ekkert að hverfa frá. Það er margt líkt með Grey’s og fótboltaleik. Mikið um stælta, reiða karlmenn að segja hver öðrum til syndanna. Beinbrot, slitin liðbönd, brostnar vonir. Svik og persónulegir ósigrar. Handalögmál og blóð. Yfirleitt er einhver grenjandi og annar í geðshræringu. Oft skellur hurð nærri hælum. Æsispennandi. En yfirdrifið nóg að þjást yfir þessu einu sinni í viku. Fyrir mína parta.
Athugasemdir