Við erum uppi á einstökum tímum í veraldarsögunni. Hingað til hefur gangur náttúrunnar verið sá að ungur nemur það sem gamall temur. Fullorðnir refir kenna yrðlingum sínum að veiða og verja sig; apamömmur kenna ungunum hvar öruggustu svefnstaðirnir eru í trjákrónum frumskóganna. Allt er þetta gert til að undirbúa næstu kynslóð fyrir að taka við kyndlinum í lífskeðjunni.
Viðsnúin hlutverk
Internetið er orðið hluti af daglegri tilvist Íslendinga. Samkvæmt rannsókn frá 2013 notuðu rúmlega 99% fullorðinna Íslendinga netið á hverjum degi. Hér hefur hins vegar orðið viðsnúningur í lífskeðjunni, því þeir sem eru nú á miðjum aldri ólust ekki upp við netið. Sjálf var ég sextán ára gömul þegar Internet Explorer gerði innreið sína á heimili landsins og hef ekki hugmynd um hvaða leikjasíðum er treystandi fyrir sex ára syni mínum, né hvaða skaði gæti hlotist af því að fermingarbarnið sé á ask.fm. Hvorki ég né kynslóðirnar á undan mér höfum neina sambærilega reynslu úr eigin uppvexti. Í fyrsta sinn í sögunni er uppsöfnuðu þekkinguna ekki að finna hjá okkur.
„Hvorki ég né kynslóðirnar á undan mér höfum neina sambærilega reynslu úr eigin uppvexti.“
Ungt fólk sem er nú að verða fullveðja þekkir ekki annað en nettengda tilveru. Um leið og þau drógu fyrsta andardráttinn á fæðingardeildinni var ljósmynd af þeim komin á Barnaland. Engin furða að mörg þeirra séu betur að sér í netinu en eldri kynslóðir og að þegar eitthvað klikkar í tæknimálum heimilisins sé leitað til þeirra. Í nýja heiminum eru það í mörgum tilvikum yrðlingarnir sem leiða refina áfram.
Umræðan litast af ótta
Þessi viðsnúnu hlutverk barna og foreldra eru nýjung og það er í eðli mannsins að óttast hið óþekkta. Óttinn birtist í neikvæðri og einhliða umfjöllun um netnotkun ungmenna. Fyrir nokkrum vikum sagði stærsti vefmiðill landsins frá niðurstöðum íslenskrar rannsóknar undir fyrirsögninni „Unglingar á samskiptamiðlum í yfir fjórar klukkustundir á hverjum degi“. Þegar nánar var að gáð átti þetta einungis við um 15% unglinga. Stærstur meirihluti þeirra misnotar nefnilega ekki netið, þótt stundum bendi villandi umfjöllun til annars.
„Stærstur meirihluti þeirra misnotar nefnilega ekki netið, þótt stundum bendi villandi umfjöllun til annars.“
Vissulega ber að spyrna af alefli gegn fyrirbærum á borð við neteinelti, netníði, nettælingu og ofbeldi sem er dulbúið sem klám, en rannsóknir sýna þó að flestir unglingar líta jákvæðum augum á netið og líður vel þar. Samt man ég ekki eftir neinni frétt um jákvæð áhrif netsins á ungt fólk, þótt ég geti rifjað upp margar nýlegar fréttir um slagsmálasíður unglinga, sölu fíkniefna í gegnum samfélagsmiðla og illræmdar Snapchat rásir með myndum af ólöglegu athæfi.
„Þau myndu bara fríka út“
Umræða sem einkennist af neikvæðri slagsíðu hjálpar hvorki fullorðnum né ungmennum að fóta sig í þessum nýja veruleika. Þvert á móti sáir það tortryggni og dómhörku í kynslóðabilið.
„Ef ég myndi segja mömmu og pabba að ég hefði séð eitthvað creepy á Snapchat myndu þau bara fríka út og eyða appinu út úr símanum mínum. “
Afleiðingarnar geta orðið þær að unglingar leiti síður til fullorðinna með spurningar sem lúta að netinu af ótta við að mæta vantrausti og yfirþyrmandi skilningsleysi. Í starfi mínu sem fyrirlesari hafa unglingar margoft sagt mér frá slíku. „Það er bara svo augljóst að þau skilja ekkert og dæma bara,“ sagði fjórtán ára strákur mér. „Ef ég myndi segja mömmu og pabba að ég hefði séð eitthvað creepy á Snapchat myndu þau bara fríka út og eyða appinu út úr símanum mínum.
Ef ég myndi spyrja þau út í eitthvað sem ég sá á klámsíðu myndu þau ekki svara spurningunni heldur bara yfirheyra mig um af hverju ég var á klámsíðu og slökkva svo á routernum. Fullorðið fólk kann bara svarthvítar leiðir til að díla við netið.“
Stígum inn í hugrekkið
Kannski er kominn tími til að við leyfum okkur að sjá fleiri litbrigði. Netið mun taka sífelldum breytingum sem enginn getur haft fullkomna yfirsýn yfir. Við getum hins vegar stjórnað hugarfari okkar gagnvart því.
„Á veraldarvefnum erum við öll landkönnuðir. Það þarf ekki að vera slæmt, þvert á móti gæti það leitt til magnaðra uppgötvana og gæðastunda með ástvinum.“
Á veraldarvefnum erum við öll landkönnuðir. Það þarf ekki að vera slæmt, þvert á móti gæti það leitt til magnaðra uppgötvana og gæðastunda með ástvinum. Fyrst þurfum við að nálgast viðfangsefnið án ótta.
Taggaðu ungling í þessari grein. Spurðu hann (eða hana) um öppin sem hann fílar og vefsíðurnar sem hann hangir á. Sestu í aftursætið og leyfðu honum að stjórna ferðinni um heim sem hann fæddist inn í. Sættu þig við það ef honum finnst áhugi þinn massíft lúðalegur, jafnvel. Það er líka allt í lagi. Mikilvægast er að gefa færi á sér. Kynslóðabilið er nefnilega ekki óbrúanlegt ef við höldum kyndlinum á lofti – saman.
Athugasemdir