Tveir þungavigtarar í hagfræði gáfu nýverið út merkileg rit með nokkurra vikna millibili. Ekki er síður merkilegt hversu mikill samhljómur er á milli greinasafns Nóbelsverðlaunaða hagfræðingsins Joseph Stiglitz um samfélagsleg áhrif ójöfnuðar annars vegar og skýrslu Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar OECD undir fyrirsögninni „Hvers vegna allir græða á minni ójöfnuði“ hins vegar. Bilið milli ríkra og fátækra vex sífellt og í mörgum löndum OECD hefur ójöfnuður aldrei verið meiri frá því að mælingar hófust, með alvarlegum afleiðingum fyrir hagvöxt þessara ríkja. Nú þéna ríkustu tíu prósent íbúanna 9,6 sinnum meira en fátækustu tíu prósentin, en til samanburðar var þetta hlutfall 7:1 á níunda áratugnum.
„Þeir sem tróna á toppnum eru orðnir ónæmir fyrir vandamálum þeirra sem neðar sitja,“ segir Stiglitz í greinasafni sínu. „Líkt og kóngar fyrri alda eru þeir farnir að líta á forréttindi sín sem sjálfsagðan rétt. En sanna mælistikan á efnahag þjóðar er ekki hversu vel prinsum hennar tekst að ávaxta fé sitt í skattaskjólum heldur hversu vel meðaljóninum vegnar.“
Ríkasta eitt prósent íslenskra skattgreiðenda á næstum fjórðung alls auðsins í landinu, eða 23%. Til þess að fá inngöngu í ríkasta eina prósentið þarf viðkomandi að eiga 122 milljónir í hreinni eign, samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Ef við stækkum þennan hóp til svo hann innifeli ríkustu tíu prósent skattgreiðenda, þá áttu þeir 71% alls auðs Íslendinga árið 2013. Til samanburðar á helmingur landsmanna, eða áðurnefndur meðaljón, 750 þúsund krónur eða minna. Þrjátíu prósent eiga minna en ekki neitt.
„Ríkasta eitt prósent íslenskra skattgreiðenda á næstum fjórðung alls auðsins í landinu, eða 23%.“
Mesta launaskriðið á Íslandi í dag er að finna í fjármálageiranum og á heimsvísu hefur mesta tekjuaukning síðari ára átt sér stað meðal stjórnenda á þeim vettvangi. Fólkið sem vann í bönkunum er riðuðu til falls með geigvænlegum afleiðingum fyrir íslensku þjóðina þáði himinháa bónusa fyrir störf sín, en slíkar greiðslur auka verulega á ójöfnuð milli vinnandi stétta. Nú stendur til að 20-30 einstaklingar fái 3,4 milljarða króna í formi bónusa úr sjóðum uppgjafabankans Straums Burðaráss. Það eru rúmlega hundrað milljónir á mann að meðaltali.
„Stór hluti ástæðunnar fyrir því að ójöfnuðurinn er jafn mikill og raun ber vitni er sú að ríkasta eina prósentið vill hafa hlutina þannig,“ heldur Stiglitz fram. Þessi þróun sé í raun sjálfbær því peningar veita aðgang að völdum, sem ala af sér meiri peninga. Hann bendir á að yfirgnæfandi meirihluti bandarískra þingmanna tilheyri ríkasta eina prósentinu og því ætti engan að undra að þeir taki ákvarðanir sem umbuna sérhagsmunahópum og fyrirtækjum. Í því sambandi má nefna að forkólfar núverandi ríkisstjórnar Íslands tilheyra ríkasta eina prósenti landsmanna eða fæddust inn í þann hóp.
Að sama skapi er núverandi ríkisstjórn okkar höll undir sérhagsmuni. Margir af ríkustu aðilum landsins eiga auð sinn að rekja til kvótakerfisins og nú er vilji ríkisstjórnarinnar að úthluta þeim enn meira af auðlindum landsmanna með makrílfrumvarpinu. Þannig mun einn einstaklingur fá úthlutað 10 milljarða króna virði af makrílkvóta á einu bretti. Þessi sama ríkisstjórn lét undan kröfum LÍÚ að afnema sérstaka veiðigjaldið sem ánafnaði ríkissjóði hluta af hagnaði sjávarútvegsins og hefði getað nýst í samfélagsleg verkefni eins og uppbyggingu mennta- og heilbrigðiskerfisins. Skattkerfið má einnig nota til að draga úr ójöfnuði með því að dreifa auðnum sem safnast á fárra hendur í sameiginlega sjóði, eins og Stiglitz og sérfræðingar OECD benda á. En núverandi ríkisstjórn Íslands ákvað fremur að afnema auðlegðarskattinn sem lagður var á ríkasta eina prósentið, taka upp matvælaskatt sem bitnar verst á þeim fátækustu og nú stendur til að fækka skattþrepum, sem sumir óttast að muni auka enn á ójöfnuð.
„Þeim mun meira sem auðnum er misskipt, þeim mun meira veigra hinir auðugu sér við að setja peninga í sameiginlega sjóði,“ segir Stiglitz. Þeir þurfa nefnilega ekki að reiða sig á hið opinbera til að njóta góðrar menntunar, heilsugæslu eða öryggis, þeir geta keypt sér þetta allt saman sjálfir. Samhliða þessu fjarlægjast þeir meðaljóninn æ meir og missa þá samlíðan sem þeir kunnu einhverntíma að hafa haft með náunganum.
„Þeim mun meira sem auðnum er misskipt, þeim mun meira veigra hinir auðugu sér við að setja peninga í sameiginlega sjóði.“
Kjarni málsins er sá sami að mati sérfræðinga OECD og Stiglitz: Við eigum ekki að þurfa að velja milli hagvaxtar og jöfnuðar, með réttum aðferðum er hægt að draga úr ójöfnuði og fjölga tækifærum allra samhliða því að stuðla að hagvexti. „Ójöfnuður er val,“ segir Stiglitz og blæs á gagnrýnisraddir sem saka hann um að byggja málflutning sinn á afbrýðissemi út í auðkýfinga. Við því á hann einfalt svar: „Stjórnmálaákvarðanir okkar byggja ekki á öfund þótt við hættum að byggja þær á græðgi.“
Athugasemdir