Ég sá Hamlet eftir William Shakespeare fyrst á sviði á unglingsárunum. Gunnar Eyjólfsson lék að sjálfsögðu titilpersónuna eins og öll önnur aðalhlutverk leikhússins á þessum tíma. Þetta var glæsileg sýning þar sem leikhúsið skartaði sínu fegursta og öll tæknibrögð stóra sviðsins voru notuð til hins ýtrasta. Vofa föðurins gekk taktföstum skrefum meðan senan snerist í nokkra hringi svo að hún var alls staðar á hreyfingu. Aumingja Hamlet vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið enda var þessi tækni langt fyrir utan bæði hans skilning hans og minn. Ég hreifst af þessu verki og uppfærslunni og þjáðist með Hamlet í dramatískustu atriðunum.
Eintal prinsins með hauskúpuna í hendinni er sennilega eitt frægasta atriði heimsbókmenntana. „Að vera eða ekki vera,“ tuldraði Hamlet og reyndi að átta sig á innstu rökum erfiðustu spurningar mannkynsins. Er lífið þess virði að lifa því? Leikritið leysist upp í dauðasvall þar sem allar helstu persónurnar liggja í valnum. Einhverjir falla fyrir eigin hendi en flestir deyja slysalega vegna misskilnings eða mistaka.
Í leikritum meistarans eru mörg sjálfsvíg af öllum mögulegum gerðum. Shakespeare er á engan hátt talsmaður sjálfsvíga heldur fyrst og fremst áhorfandi og túlkandi lífsins. Hann áttar sig vel á lækningamætti samtalsins eða eintalsins. Orð eru til alls fyrst og þau opna augu fólks fyrir fánýti sjálfmiðaðra athafna. En Shakespeare segir líka að í raun viti menn ákaflega lítið. Hvað hefur allt samanlagt mannvit mannkynsins að geyma? Orð, orð, orð. Einungis falsspámenn segjast hafa svör við öllu og löng umræða mikilla gáfumanna um orsakir sjálfsvíga er innihaldslaus. Shakespeare er gagntekinn af fjölbreytileika sjálfsvíganna og hversu ólík þau eru.
Hann teflir fram hetjum fornaldar sem falla fyrir eigin hendi á leikrænan hátt til að fullnægja kröfum samtíðar sinnar og sögunnar, mönnum eins og Brútusi, Cassíusi, Antoniusi og sjálfri Kleópötru.
Hann málar upp mynd af óhamingjusömum elskendum eins og Rómeo og Júlíu og valdasjúkum kóngum eins og Machbeth, sem örlögin veita ráðningu. Óþelló drepur sig fullur af sektarkennd og skömm. Ófelía drekkir sér eða drukknar af slysförum þegar hún skynjar geðveilu Hamlets. Öll eru þau leiksoppar örlaganna, sem utanaðkomandi aðstæður reka fram af bjargbrúninni.
Hann bendir á þá staðreynd að þeir sem tala mest um sjálfsvíg eru ólíklegri en aðrir til að gera alvöru úr hótunum sínum. Enginn talar meira en einmitt Hamlet og ekki drepur hann sig. Aðrir farga sér án þess að tala um það eða gefa í skyn hvað þeir ætlist fyrir. Lúkretia talar reyndar mikið um sjálfsvígið og kemst að þeirri niðurstöðu að þessar hugleiðingar hennar geti mögulega komið í veg fyrir verknaðinn. Þegar mikið er talað minnkar viljinn til framkvæmda. Þetta vita allir geðlæknar. Tal um sjálfsvígið gerir það ekki eins leyndardómsfullt og dregur fram hversu tilgangslaust það er. Ófelía skilur alla eftir með spurn í augunum sem gefur umræðu um mögulegt slys byr undir báða vængi.
Þegar grannt er skoðað má segja að hún hafi, eins og Rómeó og Júlía, drepið sig vegna misskilnings og kannski er raunin sú að öll sjálfsvíg stafi af rangtúlkun á aðstæðum og misskilningi.
Hetjusjálfsmorð fornaldar eins og þeirra félaga Brútusar og Cassiusar, stjórnast af blekkingu og blindu og einkennilegri örlagahyggju sem þaggar niðrí dómgreind og skynsemi. Shakespeare dregur heiðurshugtakið mjög í efa og spyr hvers virði það sé. Heiður er bara orð sem sjaldnast er þess virði að deyja fyrir. Eina réttlætanlega ástæðan fyrir sjálfsvígi er að þekkja framtíðina og vita hvað bíður manns. Mestu skiptir að geta lesið eigin örlagabók en það getur enginn.
Dauðahjal Hamlets, misskilningur Rómeós og Júlíu, rangtúlkanir Óþellós og öll sjálfsmorð gamalla herkónga vegna eigin mistaka og rangtúlkana leiða okkur að þeirri spurningu Shakespeares hvort sjálfsvígið hafi yfirleitt einhverja þýðingu.
Fjölbreytileiki sjálfsvíganna í verkum hans hefur heillað mig. Engin tvö eru eins og ástæður þeirra og aðdragandi eru eins mismunandi og þau eru mörg. Þannig er lífið sjálft. Oft er það tilviljun sem ræður hver drepur sig og hver ekki. Þeir sem hafa mesta ástæðu til að fyrirfara sér gera það ekki en hinir sem virðast hafa allan heiminn í hendi sér drepa sig. Shakespeare hefur kannski verið einn mesti mannþekkjari allra tíma og honum tekst listilega að draga fram alla veikleika og styrkleika persóna sinna bæði gagnvart lífinu og dauðanum. Hann minnir mann á þá staðreynd að ekkert er nýtt undir sólinni og nútímahugsuðir og vísindamenn með allan sinn ótakmarkaða aðgang að öllum fáanlegum upplýsingum komast ekkert nær innstu rökum tilverunnar en listamenn eins og Shakespeare eða höfundur Njálu.
Óttar Guðmundsson er starfandi geðlæknir, en hann nam einnig sögu og þýsku í Þýskalandi. Hann hefur starfað sem heilsugæslulæknir í Keflavík, yfirlæknir á Vogi og sérfræðingur á Vífilsstöðum, Teigi og Kleppsspítala. Á meðal bóka eftir hann eru Íslenska kynlífsbókin, sem tilnefnd var til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Tíminn og tárið, Það sem máli skiptir, Kvennamaður deyr, Listin að lifa, listin að deyja og nú síðast Þarf ég að deyja ef ég vil ekki lifa?
Athugasemdir