Hamingjan fæst ekki fyrir gull. Það skiptir engu hve marga fiska menn eiga í sjónum og hve margir milljarðar streyma inn á einkareikninga þeirra. Hamingjan og þar með jafnvægi er ekki endilega með í pakkanum. Þetta vita þeir sem hafa lifað.
Sjálfur hef ég reynslu af því að eiga lifandi fisk í sjó. Það færði mér lítið annað en áhyggjur. Stöðugt var maður með sektarkennd gagnvart fiskvinnslufólki og öðrum þeim sem hefðu átt að eiga sama rétt en voru svo óheppin að eiga ekki bát og þar með réttinn til að eiga lifandi fisk á Halamiðum.
Því fylgdi ákveðinn léttir að losna við bát og kvóta og fara svo á hausinn í framhaldinu. Auðvitað var það sárt á meðan þessi ósköpin öll gengu yfir. Þá var stutt í harmagrátinn sem gjarnan hefur einkennt íslenska útgerðarmenn. En þegar allt var afstaðið og ekkert eftir nema skuldir kom sælutilfinning. Hreinsunin var algjör og maður gat byrjað upp á nýtt án þess að svíða arðinn af auðlindinni út úr þjóð sinni.
Brosandi öreigi
Ég hitti brosmildan öreiga í sumar. Hann ók um landið á gömlum Skoda og þakkaði Guði sínum fyrir hvern dag í örbirgðinni. Eina miðnæturstund á Ströndum sátum við saman skammt norðan við mannasiði, eins og heimamaður orðaði það. Hinn sæli öreigi sagði mér frá þeirri tíð þegar hann seldi kvótann sinn og fékk 120 milljónir króna í vasann. Þá hófst mikil þeysireið um allsnægtalandið þar sem hann keypti allt sem hugurinn girntist. En hann var dálítið eins og Guðinn Mídas. Allt sem sá snerti varð að gulli. Og það er ekkert grín þegar maður vill fá sér að borða. Hamborgari úr gulli gefur enga næringu. Kvótagróðinn reyndist ekki vera lykill að öðru en aukinni græðgi og vansælu þess sem aldrei fékk nóg. Hann lifði í ljóma gullsins.
Samhliða hagsældinni fór einkalífið úr skorðum. Eiginkonan, til áratuga, fór. Græðgin stjórnaði lífi hans árum saman. Hann fjárfesti í bönkum og Exista. Golfferðir, veiðiferðir til Rússlands og laxveiði innanlands voru fastir liðir í gullinni tilveru hans. En undir niðri leið honum eins og manni sem hefur selt ömmu sína.
En svo datt sægreifinn í lukkupottinn. Hrunið kom. Guð blessi Ísland, sagði forsætisráðherrann á þeirri ögurstundu. Og blessunin kom í því formi að hrunið og tók með sér á einu augabragði allar hans veraldlegu eigur. Bréfin í Exista og í bönkunum brunnu á bálinu. Ekkert stóð eftir nema skuldir.
Eftir að hafa tekið út þjáninguna, sem fylgdi falli frá allsnægtum til örbirgðar, rofaði til. Sægreifinn, sem orðinn var öreigi, fann að honum var létt. Sektarkenndin var horfin og lífið brosti við honum á ný. Hann fékk vinnu sem daglaunamaður, keypti gamlan Skoda og eignaðist kærustu sem deildi með honum fátæktinni. Hann var sáttur þar sem hann skrölti um landið með þann draum í farteskinu að eignast lítinn bát til að geta róið til fiskjar.
Guggan gul
Sægreifar eiga það til að svíkja fólk og byggðarlög. Það gerir krafan um arðsemi. Ekkert pláss er fyrir miskunn fyrir fólkið sem lifir af fiskinum.
„Guggan verður áfram gul og gerð út frá Ísafirði,” sagði samherjinn við gamla útgerðarmanninn og sigldi frá Ísafirði án þess að líta nokkru sinni um öxl.
Hann var eins og kvennabósinn sem flekaði sveitastúlkuna með því að lofa hjónabandi. Sumir láta fyrst og fremst stjórnast af eigin standpínu. Útgerðinni allt. Þeim er sama um þorpin og fólkið þegar þeim hefur tekist að ná kvótanum. Og innst inni eru þeir vansælir. Öreiganum á Skodanum líður líklega mun betur en öllum þeim ágætu útgerðarmönnum sem hafa gert að ævistarfi sínu að safna kvóta frá hinum og þessum byggðarlögum og færa heim í hallir sínar.
Andvökunætur
Sægreifarnir eiga sínar andvökunætur. Þeir eru væntanlega vansvefta af ótta við að ljóti karlinn komi og hirði kvótann þeirra. Stöðug krafa um veiðigjöld og að þjóðin eigi fiskinn í sjónum dynur á vesalings mönnunum. Og þeir gera sér enga grein fyrir því hversu mikilvægt er fyrir sálina að vera með hreint hjarta. Það verður ekki fyrr en þeir fara á hausinn að þeir sjá ljósið og hamingjan stráir yfir þá sólargeislum sem einungis þeir réttlátu sjá og njóta.
Athugasemdir