Við elskum öll janúar-rútínuna er það ekki? Ég fer yfirleitt í heljarinnar heilsuátak í janúar, það fyrsta af nokkrum á árinu. Nú skal öllum háleitu og óraunhæfu markmiðunum náð. Minn tími er kominn. Ég get, ætla og skal. Alveg eins og þegar við ætlum að vinna Eurovision ár hvert, áður en forkeppnin byrjar. Svona rúlla ég. Skýt langt yfir markið. Í ár setti ég mér svipuð markmið í átakinu og aðrir Íslendingar, að líta út eins og kynbótahross eftir 6 vikur. Þetta hófst allt þegar ég leit í spegil 1.janúar og leit út eins og Tony Soprano. Ég fór rakleiðis og keypti kort hjá fámennri líkamsræktarstöð þar sem meðalaldur er um 60 ár og er lítið um öskrandi æðaber kraftmenni að taka út bælda reiði og hormónaójafnvægi á saklausum lóðum.
En Róm var ekki byggð á kaffinu einu saman. Ég fór í fæðubótarverslun þar sem indæll, axlabreiður maður með brúnkukrem seldi mér dunk af „preworkouti“ sem ég er nokkuð viss um að innihaldi amfetamín og hestastera. Svo hreinsaði ég úr ísskápnum. Henti öllu sem er mér kærast og keypti spínat, hummus, hrískökur, hnetur og möndlumjólk. Matvæli sem ég veit innst inni að munu rotna afskiptalaus í ísskápnum. Meira að segja skyr. Þurrt kolvetnalaust skyr sem ég veit að ég hata. Keypti það samt. Ásamt öðru glútenlausu, sykurlausu, sálarlausu illétandi drasli.
Mætti svo gallvösk á fyrstu æfinguna, í koffínbræði með þrengd sjáöldur og tilbúin í refsingar. Eftir 10 armbeygjur og sirka 500 metra skokk hrundi ég eins og Berlínarmúrinn og lá sem lömuð í teygjuherberginu í 40 mínútur áður en ég staulaðist heim, þambandi próteindrykk sem bragðaðist eins og soðið prump.
Í rúmar tvær vikur lá ég svo heima eins og hrúgald og skældi undan harðsperrum. Og laumaði í mig pizzum og einstaka líter af kóki í verðlaunaskyni. Til öryggis ef það kæmi yfir mig hin alræmda kökugredda, útbjó ég hráfæðisköku úr döðlum, hnetusmjöri, möndlum og kókosolíu. Gúrmei án samviskubits eins og þær segja! Þrátt fyrir að hver munnbiti innihaldi 800 kaloríur. Svona er mín rútína og hún virkar því miður ekki. Á næstu æfingu ætla ég að leita ráða hjá sjötuga manninum á næsta hlaupabretti, eftir að hann klárar 10 kílómetrana sína.
Athugasemdir