Í þessum pistli ætla ég að hrósa afgreiðslufólki í matvörubúðum. Eftir að ég varð móðir þurfti ég, eðli málsins samkvæmt, að hanga meira heima hjá mér en áður og takast á við öðruvísi áskoranir. Með því að hanga heima að sinna afkvæmi sínu kynnist maður heimilinu á nýjan hátt. Oft liðu heilu dagarnir án þess að nokkuð kæmist í verk annað en að plokka klístrað cheerios upp úr gólfteppinu og hanga á Facebook. Þemalagið í lífi manns er hávaðinn úr þvottavélinni. Oftar en ekki er ógjörningur að eiga gæðastund fyrir sjálfan sig, til dæmis að borða, sturta sig eða hægja sér, því iðulega á þeim tímapunkti hrynur veröld barnsins þar sem áður var ró og spekt. Það er svangt og vill ekki skyrið sem þú varst enda við að gefa því. Það þarf að pissa, kúka eða bæði. Það finnur ekki uppáhaldsleikfangið sitt, leikfang sem fram að þessu hafði aldrei verið gefinn gaumur. Því klæjar einhvers staðar og verður að fá plástur. Það hafði skvett mjólkurdropa á buxnaskálmina. Spjaldtölvan er batteríslaus. Allt getur þetta gerst á svipstundu ef móðir læsir að sér einhvers staðar. Allt verður ómögulegt og óásættanlegt.
Það er deginum ljósara að mæður fara ekki í matvörubúðir til að kaupa nauðsynjar, heldur til að gera sér dagamun. Ferð í Bónus getur jafnast á við tvær vikur á Tene. Það er svo friðsælt að ráfa milli rekka í reiðileysi og láta hugann reika. Afgreiðslufólk matvöruverslana eru hvunndagshetjur samfélagsins. Það vinnur óeigingjarnt starf allan daginn við að afgreiða fólk sem tekur því sem sjálfsögðum hlut. Leiðinlegri vinnu get ég varla ímyndað mér, nema kannski þingmennsku, þar sem þú vinnur við að rífast allan daginn og allir hata þig, sama hvað þú gerir. Þegar afgreiðslufólk brosir og þakkar mér fyrir viðskiptin og biður mig að eiga góðan dag, rís sólin í hjarta mínu og heima set ég í næstu vél skælbrosandi. Það þarf ekki meira. Elsku kassakrútt, þið gerið heiminn að betri stað. Takk fyrir.
Athugasemdir