Og það er hrópað:
Land þar sem friður ríkir því þar er réttlæti.
Land heiðarleikans því þar er gagnsæi.
Land hins ósnortna því þar er virðing.
Land frelsis því þar er ábyrgð.
Nýja Ísland!
Og einhver segir:
Land alsnægta því þar ríkir hófsemi.
Land hjálpsemi því þar er skilningur.
Land gæsku því þar er samhyggð.
Land þar sem mönnum er fyrirgefið því þeir iðrast.
Nýja Ísland!
Ertu þarna?
Ertu þarna út við sjónarrönd?
Ertu sokkið?
Eða ertu að rísa?
Og við stöndum í bátnum.
Stígum ölduna.
Innan um börn okkar og búfénað.
Landmámsmenn og konur
í rauðum björgunarvestum.
Holdvot í brælunni.
Rýnum út í sortan.
Er landið að rísa?
Eða er það sokkið?
Og við stöndum í bátnum.
Gamla landið á sálinni sem biturt mar.
Undir okkur heggur aldan kjölinn taktfast
eins og slegið sé í járngrindverk.
Og einver spyr: Sér einhver til lands?
Og við stöndum í bátnum.
Rennandi blaut með börn okkar í fanginu.
Horfum yfir ólgusjóinn.
Lík af svarthærðum manni flýtur hjá.
Hann var ekki í okkar bát.
Er landið að rísa?
Er eitthvað að frétta?
Nýja Ísland?
Hvenær kemur þú?
Dag einn munum við ná landi.
Dag einn munum við ná landi.
Gúmíbátinn tekur niður
og við stökkvum ofaní mölina
rennandi blaut
og rífum okkur úr vestunum.
Einhver hrópar:
Hér er verk að vinna! Þetta er ónumið land!
Við dysjum hina látnu
og höldum af stað
hönd í hönd.
Og skáldið á meðal vor tekur fram gítarinn og fer að syngja:
„Bara ekki kjósa Framsókn
eða Sjálfstæðisflokkinn
því ef þú gerir það
þá fer allt til helvítis …“
Beðist er velvirðingar á því að fyrir mistök birtist aðeins fyrri hluti ljóðsins í prentútgáfu Stundarinnar.
Athugasemdir