Fyrir um 22 árum bjó ég, þá 10 ára gamall, með fjölskyldu minni í Steinahlíð, húsi við rætur fjallsins Helgafells í Mosfellssveit. Í nokkur ár höfðu mýs leitað mjög í hitann og fría fæðið sem þetta timbhús hafði innan sinna veggja, og frá hekturunum af móa sem umhringdu húsið kom mikill fjöldi hungraðra og kaldra músa til þess að draga fram lífið með fjölskyldunni í Steinahlíð. Ásamt mér bjuggu þar móðir mín og fóstri, auk tveggja eldri systra á táningsaldri, og tveggja yngri systkina sem þá voru kornabörn. Systur mínar og mamma voru í minningunni stöðugt öskrandi stökkvandi upp á borð og stóla þegar mýs hlupu ekki minna óttaslegnar um gólf og meðfram veggjum í flótta undan ýmiskonar músagildrum eða kústsköftum.
Að lokum var tekin sú ákvörðun að eina varanlega leiðin til þess að losa heimilið úr greipum músa-óttans væri sú að fá inn á heimilið kött. Það er þá sem Mjási kom inn í líf mitt. Þrátt fyrir að fyrstu vikurnar hafi hann verið kæruleysislegur lítill svarthvítur krútthnoðri tók hann strax vel til matar síns, hvort sem sá matur var kvikur eða úr dós. Fljótlega var kettlingurinn orðinn eins nálægt því að vera ljón og hefðbundinn heimiliskattar-bastarður getur orðið. Hann hafði líka þann vanann á, frá fyrsta degi alveg fram á þann síðasta, að ef hann vildi komast einhverstaðar inn eða út, stóð hann við það op á húsinu, hvort sem um var að ræða glugga eða hurð, og mjálmaði svo ofboðslega hátt að það fór ekki framhjá neinum í næsta nágrenni, þaðan kom enda nafnið á hann.
Ekki aðeins varð hann feitur, pattaralegur og hávær, heldur sinnti hann starfinu sem hann hafði verið ráðinn í af svo miklu kappi og elju að það skóp ný vandamál inn á heimilinu. Hræ af músum lágu, þegar hann var upp á sitt besta, hér og þar um húsið. Stundum slátraði hann svo miklu að komst ekki yfir að borða það allt í einu, en yfirleitt var ekkert eftir af bráðinni annað en bein, loppur og höfuðkúpur á strjáli. Vinur minn einn upplifir enn martraðir af því þegar hann kom í heimsókn til mín, fann fyrir einhverju undir sokknum sínum, lítur undir ilina á sér og finnur þar höfuðkúpu af mús.
Þegar úrvalið af fersku músakjöti innan veggja heimilisins dugði ekki til að svala veiðieðlinu leitaði Mjási út, og færði mennskum félögum sínum og jafningjum, okkar skerf af veiðinni. Fjaðrasprengjur fóru að birtast um húsið, þar sem fuglskroppar höfðu verið hreinsaðir af öllum óþarfa og svo étnir af þessu svarthvíta ljóni sem bjó með okkur. Nú bættust vængir og goggar við upptalningu þeirra líkamsleifa sem maður gat búist við að finna hér og þar. Einn veturinn þegar rjúpnaverð var sérstaklega hátt gerðist hann svo stórtækur við veiðar að hann kom heim með heila rjúpu handa okkur, svo duglegur var hann að skaffa.
Sögurnar af óseðjandi veiðieðli Mjása eru fleiri, en ég hef hann líka grunaðan um að hafa verið iðinn við að koma sér í mjúkinn hjá læðunum. Nú er það orðið þekkt að óðal katta geta náð yfir stóran radíus, en þegar ég rakst á hann í nærliggjandi hverfum, mörgum kílómetrum frá heimilum okkar, fór ég að gera með grein fyrir því að mjúki, morðóði kötturinn minn ætti sér annað og fjölbreyttara líf sem var mér að mestu hulið.
Nokkrum sinnum gerðist það að hann hvarf í nokkra daga, en birtist svo alltaf aftur, í eitt skiptið með gríðarstórt bitsár á hálsinum, svo bólginn í framan að annað augað var alveg lokað og stóran hluta af feldinum vantaði á hann. Enda báðu nágrannakonur okkar, sem reka hótel fyrir smáhunda, okkur um að hafa hemil á kettinum, því hann ætti það til að koma yfir til þeirra og hrella hundana.
Á unglingsárunum átti ég oft erfitt. Ég var settur á lyf vegna þess hversu illa farin húð mín var af unglingabólum. Lyf þessi eru mikið eitur, og geta meðal annars valdið gríðarlegu þunglyndi sé ekki fylgst mjög náið með inntöku þeirra. Á þessum tíma flutti ég inn í litla íbúð sem er í kjallaranum á Steinahlíð. Ég var bólugrafinn, klínískt þunglyndur og svo bættist ofaní það brotin sjálfsmynd og dass af ástarsorg. Á löngum tímum var ég mjög einmana, og lá einn uppi í rúmi niðrí kjallara og horfði á sömu þættina og myndirnar á DVD aftur og aftur. Á þessum tíma fór Mjási að venja komur sína til mín, og gista uppí hjá mér.
Hann hoppaði upp á gluggasylluna og mjálmaði, eða öskraði í rauninni, þangað til ég opnaði fyrir honum gluggann. Svo koma hann upp í til mín með allan þann sand eða drullu eða blóð sem í feldinum var, hringaði sig í sængina mína og tók til við að hnoða með loppunum í dýnuna eða á mig. Hann malaði líka alla tíð gríðarlega hátt, svo hátt að við kölluðum hann stundum utanborðsmótorinn, því maður gat heyrt í honum valsa um húsið á malinu. Í fyrstu fannst mér töluvert ónæði af þessum óboðna gest, en ég held að hann hafi líka skynjað mitt ástand á þessum tíma. Smám saman gerðist það nefnilega að ég átti í honum vin og lengi vel var hann þarna í kjallaranum minn eini félagi.
Hann heimsótti mig þegar ég grét í ástarsorg, og kúrði hjá mér þegar ég grét út af lyfjunum, hann hnoðaði mig þegar ég grét í sjálfshatri, og malaði í hálsakoti hjá mér þegar ég vaknaði í vanlíðan. Á þessum árum þar sem við klóruðum og klöppuðum hvor öðrum í kjallaranum breyttist afstaða mín til katta. Fram að þessu hafði ég ekkert mikið velt þeim fyrir mér, þeir bara voru þarna. En án þess að hafa ætlast mér það fór ég að finna fyrir kærleik í garð hans. Við áttum hvorn annan, tveir piparsveinar í kjallara við fjallshlíð.
Eftir að ég flutti úr kjallaranum og að heiman gætti ég þess alltaf að heilsa mínum gamla vini, ég passaði mig að eyða með honum tíma þegar hann borðaði matinn sinn, eins og honum fannst svo gott, ég passaði að hann væri með vatn og eitthvað í skálinni sinni, og þegar enginn sá til stalst ég til að gefa honum smá mjólk. Eftir að ég flutti út og litli bróðir varð eldri fór hann í sitt herbergi í kjallaranum, og flutti Mjási þá til hans. Mér fannst alltaf gott að sjá þá tvo saman, kúrandi hjá hvor öðrum, því ég vissi að það væri gott fyrir þá báða. Kærleikur er það eina sem minnkar ekki þó við gefum hann, hann bara eykst og eykst, og ég trúi því að það eigi við hvort sem um er að ræða dýr eða menn.
Nú síðustu ár hefur aðeins dregið úr mætti ljónsins. Þó hann hafi enn þá mjálmað svo hátt að það heyrðist langar leiðir, þá dróst vömbin saman, og feldurinn missti gljáan, og hann hætti að geta stokkið upp á borðið inní þvottahúsi þar sem maturinn hans var, og hann hætti að geta haldið í sér nógu lengi til þess að við gætum hleypt honum út, og hann hætti að geta veitt sér til matar, og hann svaf meira og lengur.
Ástandið á leigumarkaðnum er nú orðið svo að ég flutti í vetur tímabundið aftur heim í gömlu litlu íbúðina sem við Mjási áttum saman, en núna með konu og barn. Ég sá fljótlega að þessi gamli góði vinur minn ætti ekki mikið eftir, en ég sá líka á umhverfinu í hringum húsið að ógnarstjórn hans var á enda. Ég fylgdist með honum læðast um gömlu veiðilendurnar sínar í rjóðrinu fyrir ofan húsið, drápseðlið enn við sama styrk, en snerpan algjörlega farin. Í mörg ár hvorki heyrði ég né sá fugla nálægt húsinu, en nú síðustu mánuði hef ég verið að vakna við fuglasöng, auk þess sem nokkrir mávar eru farnir að gera sér hreiður í klettunum fyrir ofan fellið, nokkuð sem hefði verið algjörlega óhugsandi á gullöld Mjása. Náttúran er fullkomin. Nú þegar kötturinn með óseðjandi veiðieðlið endar sína jarðvist fá aðrar lífverur plássið hans að láni, í þetta sinn fuglarnir sem í svo mörg ár áttu enga von í ríki ljónsins. Mér finnst eitthvað fallegt við það að dæmið hafi snúist við, og nú sé kattarins dauði fuglsins brauð.
Þegar ég kom heim úr vinnunni áðan sagði kærastan mér að Mjási væri farinn. Ég fann strax að það var ákveðið högg, en við vorum að undirbúa eins árs dóttur okkar fyrir svefninn, og það var komið að mér að svæfa, svo ég ákvað að geyma það að pabbi færi að gráta þangað til því væri lokið. Ég hef sungið fyrir dóttur okkar frá því hún fæddist, og síðustu vikur hefur hún tekið upp á því að panta ákveðin lög. Fyrst pantaði hún alltaf lagið um litla græna froskinn, svo ryksugan á fullu, en síðustu tvo daga hefur hún viljað lagið Kannast þú við köttinn minn. Það er svona:
Kannast þú við köttinn minn, köttinn minn, köttinn, minn,
kolasvart og hvítt með skinn,
svart og hvítt með skinn.
Mja-á, mja-á,
segir litli kötturinn.
Mja-á, mja-á,
segir kötturinn.
Eftir að hafa klætt hana í náttföt og tannburstað fórum við upp í rúm og sungum nokkur lög úr söngvabókinni. Svo slökkti ég ljósið og sagði „pabbi ætlar að syngja eitt lag fyrir þig.“ Venjulega syng ég Sofðu unga ástin mín eða Dvel ég í draumahöll en í þetta sinn söng ég lagið um köttinn minn, og grét, rétt eins og ég hef grátið meira og minna allan tímann á meðan ég skrifaði þessa minningargrein. Ég grét og ég hugsaði um litla svarthvíta ljónið sem ég fékk að kalla vin í 22 ár.
Takk fyrir að vera vinur minn Mjási, einmitt þegar ég þurfti á þér að halda. Takk fyrir allt hnoðið og mjálmið og kúrið. Takk fyrir að vera óvart til staðar. Ég vona að ég fái að hitta þig aftur í annarri endurholgun, og þar vil ég fá að vera til staðar fyrir þig eins og þú varst fyrir mig.
Athugasemdir