Fermingarvertíðin er í fullum gangi og að ýmsu þarf að huga. Ég vissi ekki að í dag er almennt talað um fermingarfarðanir fyrir stelpur.
Hægt er að nálgast sýnikennslu í fermingarförðun hér og þar á miðlunum og mikilvægt er að velja réttu meikin, kremin og kinnalitina og læra að skyggja andlitið. Það rann upp fyrir mér þá og þegar að ég hef líklega ekki verið mjög töff unglingur. Það er enginn vafi á því í rauninni. Mynd af mér úr 11 ára afmælisveislunni minni ber vott um það. Þar var ég með silfurlitaðan augnskugga upp á mitt enni, í svörtum kjól og þykkbotna sandölum. Og með hið margrómaða melluband um hálsinn, sem mér skilst að sé að koma aftur í tísku. Ég mjakast ósjálfrátt í fósturstellingu við að hugsa um þessa tíma.
Fermingar, já. Ég gekk á sínum tíma gegn straumnum um hvít fermingarklæði og sakleysislegt meyjarútlit. Ég fermdist í svörtum, teinóttum rúskinnsjakka og svörtu ökklasíðu pilsi með klauf öðrum megin. Móður minni tókst allavega að fá mig í hvítan bol innan undir og setja hvít blóm í hárið svo ég liti ekki út eins og Mansonisti á leið á nornabrennu. Förðun var ekki til umræðu á mínum fermingardegi. Ég setti á mig maskara í mesta sakleysi og upplitið á móður minni var þess eðlis að ég hefði allt eins getað málað hakarkross á ennið á mér.
Hún saup kveljur og löðrungaði mig nánast aftur inn á bað til að þrífa þennan óþverra framan úr mér. Ég var alltof ung fyrir svona pjatt.
Nokkru seinna mætti ég á Samfésball íklædd stuttermabol með mynd af Bob Marley og síðu bóndakonupilsi úr Spútnikk, eins og þvottabjörn í framan. Orðið snípsítt þekktist ekki þá og tískusigrarnir voru öðruvísi. Það eru aðrar áskoranir fyrir fermandi mæður í dag en í kringum aldamótin. Ofan á allt saman bætast nokkrir þúsundkallar í förðunarvörur til að barnið geti dregið fram andlitsfegurð sína sem allra best á stóra deginum. Staðfesting skírnar getur ekki farið fram með bauga og skyrhvíta húð. Ókontórað barnsandlit er ekki Guði þóknanlegt.
Athugasemdir