Mér er alltaf heitt. Mér skilst að það kallist að vera heitfengur en það er bara fansí nafn yfir „sveittur og ógeðslegur“. Ég hef verið svona frá því að ég man eftir mér, alltaf þvalur og að reyna að tína af mér spjarir meðan íslenskir uppalendur af gamla skólanum lögðu í yfirgripsmiklar aðgerðir við að dúða mig í öllum veðrum, tvöfalt lag af íslenskri ull og æðardúnsængur sem helst skyldu fylla upp í herbergið manns. „Svo það slái ekki að þér.“ „Svo þú fáir ekki kvef.“ „Svo þú fáir ekki heilahimnubólgu.“ „Svo það komi ekki geimveruskógarbjörn og slíti úr þér mænuna.“
Ég veit ekki, mér fannst þessar hótanir alltaf innihaldslausar og óskiljanlegar. Mér var bara heitt, ég vildi vera ber að ofan á skíðunum og sofa allsber úti á bílaplani. En ég hlýddi, vel upp alinn og sannfærður um að fullorðna fólkið vissi betur, fólkið sem var alið upp við að kuldinn, hungrið og sullurinn væru verstu óvinirnir, fólkið sem elskaði pottjárnsofnana í íbúðinni sinni meira en fljótandi sveitt börnin sín og stéttskipti vinum sínum eftir gæði lopapeysanna sem þau gengu í.
Svo það sé á hreinu þá var ég barn í meðalholdum og síðan horaður unglingur. Í dag er ég velmegunarfeitur og loðinn í þokkabót og gæti mögulega létt eitthvað á þessu með því að breyta því. En það er samt ekki úrslitaatriðið. Ég man eftir íþróttaæfingum sem beinagrind í skinnpoka þar sem ég sá ekki út úr auga vegna saltpækilsflóðsins sem lak viðstöðulaust niður í vitin á mér. Bílferðum í aftursætinu þar sem sólin bakaði á mér beinabert andlitið og næstum brenndi úr mér augun með hjálp þverhandarþykkra nærsýnisgleraugnanna.
„Ofan á allt er ég snjóhvítur á hörund sem breytist á augnabliksstundu í svínableikt skæni ef ég geri mikið meira en að opna ísskápinn.“
Ég man eftir því þegar ég kom fyrst í verulega heitt loftslag, þó samt varla meira en kannski 30 gráður. Ég steig úr úr flugstöðinni hinum megin við miðbaug og lenti á vegg sem ég hafði áður ekki vitað að væri til. Mér fannst þetta svo fjarstæðukennt að ég hélt í alvörunni að ég hefði lent í einhvers konar útblæstri, að það væri ósýnileg malbikunarvél þarna við gangstéttarbrúnina. En nei. Þetta var veðrið. „Góða veðrið.“ Síðar hef ég upplifað talsvert verri aðstæður en þetta og þar standa 50 gráðurnar á torginu í Santiago de Cuba sennilega upp úr. Annað eins hef ég aldrei fundið en sennilega erum við þó öll sammála um að svoleiðis veðurguðafyllerí á ekkert skylt við „gott veður“ af neinu tagi. Það þarf víst ekki að taka það fram að ég er afar lítið gefinn fyrir sólböð og vil frekar liggja inni í skugga og öruggu umhverfi. Ofan á allt er ég snjóhvítur á hörund sem breytist á augnabliksstundu í svínableikt skæni ef ég geri mikið meira en að opna ísskápinn. Sólarlandaferðir þykja mér ótrúlegt fyrirbæri, ferðir þar sem fólk fer beinlínis og sjálfviljugt til útlanda til þess að liggja í sól. Lengi. Í marga daga. Fyrir utan þetta missætti mitt og sólarinnar er mér það óskiljanlegt að eyða tíma og peningum í að liggja kyrr. Þegar ég ferðast vil ég kynnast heimafólki og lenda í ævintýrum en ekki liggja til skiptis undir allt of þykkri hótelsæng og allt of nálægri heimsendasólinni. Í umræddri Kúbu-ferð keyptum við okkur inn í einhvern flugpakka sem þýddi að við ferðuðumst með sama hópi Íslendinga báðar leiðir. Í vélinni á leiðinni heim vorum við ferðafélagarnir reynslunni ríkari, búnir að ferðast alla eyjuna um kring með misvafasömum farartækjum, eignast alls konar misvafasama vini, heimsækja aragrúa fólks sem við þekktum ekki neitt, drekka, borða og sofa eins og innfæddir og drekka í okkur hina raunverulegu menningu. Það voru skilningslaus og tóm augu kaffibrúnna miðaldra samlanda minna sem reyndu að ræða við okkur um Kúbu þarna í flugvélinni á leiðinni heim. Ég var með heimatilbúna dreddlokka sem einhver skítstónd rastafari hafði klesst í mig með kertavaxi og átti á að giska 1.000 sögur að segja. Þessi kaffibrúnu sögðu bara að það væri „frábært á Kúbu“. Það vill nefnilega svo til að rétt við flugvöllinn í Havana er ferðamannarísort þangað sem blindum almúganum er smalað og þau látin lifa í tilbúnum vellystingum. Þau fá vindil og romm og rútuferð í miðbæinn til að skoða Kúbu gegnum gler. Og svo flatmagaði þetta lið bara í sólinni og beið eftir að sekúndurnar fykju framhjá. Hefurðu komið til Kúbu? Ertu viss? Varstu kannski bara að búa þér til tylliástæðu til að geta sagt vinum þínum frá því?
En þetta með hitann já. Þetta á ekkert bara við um sólina heldur líka vatn. Ég get ekki farið í heita sturtu. Þá meiði ég mig bara. Í sundlaugunum eru oft sturtur sem ekki er hægt að hitastilla, bara svona takki sem skammtar manni hæfilega gusu. Hitastigið á þeim er yfirleitt þannig að mér líður eins og ég sé að fá yfir mig blöndu af napalmi, glerbrotum, martröðum, sorg og eftirsjá. Þegar ég svo kem út í laugina á ég þann kost að fara í barnapottinn eða sjálfa sundlaugina. Ég nenni ekki að synda og börn annarra fara almennt í taugarnar á mér svo hvorugt er góður kostur. Heitu fullorðinspottarnir svíða mig og skaða, ég svitna, blæs, kvarta og fæ ógleðistilfinningu. Fara í pottinn í bústaðnum? Fokkið ykkur!
En kuldann skal ég taka hvenær sem er. Ber að ofan í frosti og snjó eða sem hvalaskoðunargæd að kulsömu hausti í kvartbuxum meðan túristarnir skjálfa og hvá. Snemmvor í miðbænum í golu og svala, þar er ég bestur. Allt sem er 15 gráður og undir.
Jebb, ég fæddist á réttum stað.
Athugasemdir