Fyrir fáeinum dögum sendi ég öllum þingmönnum einfalda spurningu um hvort þeir vildu að farið yrði að ályktun þingsins frá 2012 um þriggja manna rannsóknarnefnd til að skoða einkavæðingu bankanna 1998-2003.
Ég hef nú fengið svör frá frá 39 þingmönnum af 63. Öllum þingmönnum stjórnarandstöðunnar, öllum þingmönnum Bjartrar framtíðar, öllum þingmönnum Viðreisnar fyrir utan Þorstein Víglundsson.
Allir sem hafa svarað af stjórnarandstöðunni, BF og Viðreisn segja já. Pawel Bartoszek lætur að vísu duga að vera hlynntur rannsókn á einkavæðingu Landsbankans en ég tek mér það bessaleyfi að flokka það sem óblandað já, úr því þetta er óformleg könnun en ekki atkvæðagreiðsla á Alþingi.
Ég hef fengið svör frá sex þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem ekki er hægt að segja að séu mjög afgerandi, en enginn af átta þingmönnum Framsóknarflokksins hefur séð ástæðu til að svara þeim ábyrga og áhyggjufulla borgara sem bar fram fyrirspurnina. Hef ég þó ítrekað hana við þingmenn flokksins.
Ég hef þó heyrt að minnsta kosti einn þingmann flokksins lýsa því skýrt yfir á þingi að viðkomandi þingmaður vildi rannsókn.
Altént þykir mér nú ástæða til að vekja athygli á því að nú eru komin 33 já, sem þýðir að meirihluti er á Alþingi fyrir þeirri rannsóknarnefnd sem ályktunin frá 2012 kveður á um. 32 atkvæði þarf til meirihluta.
Jafnvel þótt svo ólíklega færi að allir þeir sem eru óákveðnir eða hafa ekki svarað myndu segja nei dygði það ekki til að stöðva málið.
Til fróðleiks og skemmtunar endurbirti ég hér bréfið og hér að neðan eru svo þau svör sem mér hafa borist. Ég þakka kærlega öllum sem svarað hafa og mun að sjálfsögðu bæta við svörum þeirra þingmanna sem eiga eftir að svara.
Ágæti þingmaður.
Í nóvember 2012 samþykkti Alþingi ályktun um að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd til að fara í saumana á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbankans og Búnaðarbankans 1998-2003.
Ekkert hefur verið gert í málinu.
Nú hafa komið fram upplýsingar um einn og afmarkaðan þátt þessarar einkavæðingar sem leiða í ljós vísvitandi blekkingar. Einnig eru til ummæli manna sem komu að þessari einkavæðingu á sínum tíma sem gáfu til kynna mikla hneykslun yfir hvernig staðið var að málum.
Nú vil ég sem ábyrgur borgari og kjósandi spyrja þig hvort þú sért ekki örugglega sammála því að nú sé tímabært að framfylgja loks ályktun Alþingis frá 2012?
Sem sé, viltu að hin þriggja manna rannsóknarnefnd verði nú loks skipuð, eða ekki? Mér þætti gott að fá einfalt svar, en ef svarið er neitandi væri gott að fá svolitla skýringu á því.
Ég tek fram að á bloggsíðu sem ég held úti á vefsvæði Stundarinnar mun ég birta upplýsingar um þau svör sem ég fæ við þessari fyrirspurn, eða fæ ekki.
Fyrirspurnin er send öllum Alþingismönnum.
Með vinsemd og virðingu,
Illugi Jökulsson
Þetta eru svo öll svörin sem ég fengið fram að þessu. Berist mér fleiri svör, þá mun ég að sjálfsögðu bæta þeim hér við.
Andrés Ingi Jónsson, VG:
Jú, það er aldeilis ástæða til að rannsaka þessi mál í kjölinn, kæri borgari!
Jón Þór Ólafsson, Pírötum:
Já það er löngu tímabært að framfylgja loks ályktun Alþingis frá 2012, þó fyrr hafi verið.
Við erum að þrýsta á það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Gunnar Hrafn Jónsson, Pírötum:
Það er miklu meira en tímabært. Það er algjör skandall að það hafi dregist svona lengi, niðurstöðurnar sem voru kynntar í gær ættu að taka af allan vafa um nauðsyn þess að fara í saumana á öllum þessum málum.
Björn Leví Gunnarsson, Pírötum:
Að sjálfsögðu er ég fylgjandi því, nákvæmlega ekkert í rannsóknarskýrslum Alþingis bendir til þess að þessum málum sé lokið og frekari rannsóknir leiði ekki til frekari upplýsinga sem eru nauðsynlegar til þess að geta leitt til lykta þetta tímabil sem leiddi til hrunsins.
Logi Einarsson, Samfylkingu:
Sæll Illugi, jú sammála því og tel það raunar bráð nauðsynlegt.
Svandís Svavarsdóttir, VG:
[Já] – ég spurði forseta um þetta í upphafi þingfundar í gær.
Oddný Harðardóttir, Samfylkingu:
Svar mitt er já og þó fyrr hefði verið. Tillagan var lögð fram á sínum tíma undir forystu Samfylkignarþingmannsins Skúla Helgasonar. Við í Samfylkingunni höfum kallað eftir því að farið verði að samþykkt Alþingis hvað þetta varðar.
Ari Trausti Guðmundsson, VG:
[Já.] Það segir sína sögu að Svandís Svavarsdóttir fyrir hönd okkar VG spurði forseta Alþingis í gær undir liðnum Um fundarstjórn forseta hvort ekki væri kominn tími til að fara eftir þessari samþykkt frá 2012.
Smári McCarthy, Pírötum:
Já, ég vil að rannsóknarnefndin verði skipuð. Ég skil ekki fyrir mitt litla líf hvers vegna þessi rannsóknarnefnd var ekki skipuð árið 2012 skv. ályktun þingsins þá (2/141). Þetta er einn eitt dæmið um að ekki er alltaf farið eftir því sem Alþingi segir.
Guðjón S. Brjánsson, Samfylkingu:
Ég hef upplifað af samtölum mínum við fólk að það er miður sín, ekki endilega reitt heldur jafnvel sorgmætt hvernig allar verstu grunsemdir og tortryggni eru að opinberast í staðreyndum. Auðvitað á ekki að vera nokkurt hik á okkur að tæma út úr pokanum og grafast fyrir um alla þessa þætti og framfylgja ályktun þingsins frá 2012 enda málið okkur skylt. Með því sýnum við ofurlítinn siðferðilegan styrk en talsverð eftirspurn er eftir því þessa dagana. Ég segi auðvitað já.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, VG:
Já. Ég er fylgjandi því að slík rannsóknarnefnd verði skipuð. Almennt tel ég að framfylgja eigi ályktunum Alþingis.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Pírötum:
Jú … ég er sammála þér.
Birgir Ármannsson, Sjálfstæðisflokki:
Í fyrravor var samþykkt eftirfarandi þingsályktunartillaga og er þar í síðustu tveimur málsgreinunum vikið að því máli sem þú spyrð um. Ég styð það ferli sem þar er gert ráð fyrir. [Hér vísar Birgir til þeirrar ályktunar þar sem kveðið var á um rannsókn á aðkomu Hauck & Anhäuser, sem nú er lokið, og síðan geri stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tillögu um hvort þörf sé á frekari rannsókn á einkavæðingu bankanna.]
Steingrímur J. Sigfússon, VG:
Svar já. Hef þegar talað fyrir því í fjölmiðlum.
Birgitta Jónsdóttir, Pírötum:
[Já.]
Einar Brynjólfsson, Pírötum:
Já, og þó fyrr hefði verið.
Björt Ólafsdóttir, Bjartri framtíð:
Svarið er já. Ég er að sjálfsögðu fylgjandi því að samþykktum ályktunum frá þinginu sé framfylgt.
Hanna Katrín Friðriksson, Viðreisn:
Svarið er einfalt: Já, ég vil að þessi rannsókn fari fram.
Theodóra S. Þorsteinsdóttir, Bjartri framtíð:
Mitt svar er já, ég vil frekari rannsókn á einkavæðingunni.
Njáll Trausti Friðbertsson, Sjálfstæðisflokki:
Á þessum tímapunkti get ég hvorki svarað spurningu þinni játandi né neitandi. [Hann vísar síðan til þess sama og flokksbróðir hans Birgir Ármannsson (sjá hér að ofan) að samkvæmt þingsályktun frá í fyrra eigi nú stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis að fjalla um hvort meira skuli rannsakað.]
Jóna Sólveig Elínardóttir, Viðreisn:
Jú, það þarf að rannsaka þetta mál til hlítar.
Halldóra Mogensen, Pírötum:
[Já.] Við verðum að gera upp hrunið með fullnægjandi hætti til að tryggja að við lærum af mistökunum og að þau verði ekki endurtekin.
Jón Steindór Valdimarsson, Viðreisn:
Svarið er já - það þarf að komast til botns í þessum málum.
Nichole Leigh Mosty, Bjartri framtíð:
Auðvitað á rannsóknin að fara fram.
Vilhjálmur Árnason, Sjálfstæðisflokki:
Ef það eru einhver gögn eða frekari upplýsingar til að rannsaka, þá er það sjálfsagt.
Hildur Sverrisdóttir, Sjálfstæðisflokki:
Sem nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tel ég rétt að hafa engar skoðanir að sinni.
Ásta Guðrún Helgadóttir, Pírötum:
Já, ég tel að það eigi að skipa þessa nefnd hið snarasta.
Katrín Jakobsdóttir, VG:
Auðvitað já!
Benedikt Jóhannesson, Viðreisn:
Ég fæ oft svona fyrirspurnir og ákvað að svara þeim aðeins á Alþingi. En í þessu tilviki svaraði ég einmitt afdráttarlaust [já] í dag, það er rétt.
Óli Björn Kárason, Sjálfstæðisflokki:(vísar eins og fleiri Sjálfstæðismenn til þingsályktunar síðan í fyrra um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd meti þörf á frekari rannsóknum eftir að rannsókn á þætti Hauck & Anhäuser lýkur) Það finnst mér eðlilegt og ég styð slíka málsmeðferð.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, VG:
Að sjálfsögðu vil ég að rannsókn fari fram á sölu þessara banka.
Óttarr Proppé, Bjartri framtíð:
Já, styð og hef oft talað fyrir því að fylgja ályktun Alþingis.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Viðreisn:
Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að fylgja þingsályktuninni eftir.
Steinunn Þóra Árnadóttir, VG:
Já, að sjálfsögðu á að fylgja þingsályktuninni eftir og koma nefndinni á laggirnar. Annað er bara ekki í boði.
Gunnar I. Guðmundsson, Pírötum:
Ég get heilshugar undir orð Björns Leví. Málinu er langt frá lokið í mínum huga og raunverulega rétt að byrja. Það er illa hægt að rökstyðja nýja einkavæðingu með fyrri tilraun nánast óupplýsta.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, VG:
Ég tek heilshugar undir að farið verði í rannsóknina strax og kem til með að ræða það nú við fjármálaætlunarumræðu, enda þarf að setja í þetta fjármagn og nú er tækifæri til þess.
Ásmundur Friðriksson, Sjálfstæðisflokki:
Ég hef ekki kynnt mér innihald þingsályktunarinnar.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, VG:
Auðvitað er ég á því að Alþingi eigi að fylgja þessari þingsályktun sem það samþykkti sjálft. Þó fyrr hefði verið.
Pawel Bartoszek, Viðreisn:
Líkt og kemur fram í Fréttablaðinu er ég hlynntur því að athugun fari fram á einkavæðingu Landsbankans.
Athugasemdir