Koffín er útbreiddasta hugbreytandi fíkniefnið í heiminum. Það er löglegt og samfélagslega viðurkennt enda nokkuð skaðlaust þeim sem nota það hóflega.
Þegar ég var óharðnað ungmenni vann ég í veitingageiranum og fól það í sér að ég þurfti að læra að hella upp á kaffi. Að umgangast hina hversdagslegu uppáhelltu kaffikönnu var ekki kennt sérstaklega í nýliðafræðslunni og ég lærði það á sársaukafulla mátann að ef maður pumpar úr könnunni beint í hendina á sér til að athuga hvort kaffið sé heitt, gerir maður það bara einu sinni. Brennt barn og allt það. Mér var lengi fyrirmunað að skilja af hverju þetta fullorðna pakk gat ekki lifað án kaffis. Ekki er það gott á bragðið. Fyrsti sopinn bragðast eins og heitur, beiskur dauði í bolla.
Fljótlega féll ég sjálf í gryfjuna. Eitthvað breyttist, djúpt í undirmeðvitundinni. Bragðið lagðist undir og áhrifin komu ofan á. Í dag er ég ein af þeim sem ég fordæmdi hvað mest. Beygð, brotin og líflaus. Þangað til ég hef skolað niður nokkrum bollum. Líf mitt snýst í dag meira og minna um kaffi. Ég vakna og dagurinn byrjar á kvíðakasti yfir því hvenær ég fái fyrsta kaffibollann. Fram að því yrði ég ekki á nokkurn mann. Ég geri ekki handtak. Kaffikannan mín er í fullri vinnu við að svala mínu óseðjandi koffínblæti. Kaffið sem ég laga er á þykkt við tjöru og gæti hæglega valdið hjartsláttaróreglu hjá hraustustu mönnum. Ég gef mér það að í kringum hádegi séu innyfli mín orðin gegndrepa, svört og súrnuð undan stöðugu kaffistreymi. Lyktin út úr mér gæti kæst skötu. Tennurnar mínar hafa ekki séð dagsbirtu síðan 2009. Líf mitt er svart og sykurlaust. Brennt og malað. Set stundum mjólk, bara til að hræða ekki móður mína.
Ef einhver býður mér lapþunnan uppáhelling sem bragðast eins og mitt eigið hland, tek ég því sem persónulegri árás. Alls staðar þar sem ég kem, þar sem ekki er kaffi í boði, tel ég brotið á réttindum mínum. Dagur án kaffis er dagur snauður lífsgæðum. Hausverkurinn, kvíðinn og þreytan sem þeim fylgir er slíkur að ég hringi margsinnis í vælubílinn. En núna skil ég. Núna er ég fullorðið pakk sem eltir á sér rassgatið eins og hundur í geðshræringu þangað til þörf minni er mætt. Það er bannað að dæma. Við erum alls staðar, fíklarnir. Ég er ekki að gera lítið úr þeim sem berjast við alvörufíkn eins og vímuefnafíkn. En næst þegar ég er um það bil að fara að hneykslast á einhverjum sem hafa fallið í miskunnarlausan heim vímuefna, ætla ég að líta mér nær. Líta niður réttara sagt. Ofan í bollann sem ég held í, þéttingsfast.
Athugasemdir