Íslenskan er hreinasta tungan á Norðurlöndunum, íslenskt lambakjöt er það besta sem fyrirfinnst, íslenska vatnið er ótakmarkað og hreint, Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu, jafnrétti kynjanna er hvergi betra en einmitt á Íslandi og Ísland er mikil mannréttindaþjóð... Eða hvað?
Það hefur varla farið framhjá neinum að kosningar til embættis forseta Íslands eru í aðsigi. Sem lýðveldi kjósa Íslendingar forseta á fjögurra ára fresti en til þess að þeir kynnist forsetaframbjóðendum betur og fá tækifæri til að vanda valið er að sjálfsögðu haldin kosningabarátta þar sem frambjóðendur reyna að vinna hug og hjörtu Íslendinga með orðum og gjörðum, m.a. með því að halda kappræður sín á milli. Hér spila fjölmiðlar veigamikið hlutverk þar sem þeir eru gjarna nýttir sem tengiliðar milli forsetaframbjóðenda og þjóðarinnar. Fjölmiðlar birta greinar, gera spjallþætti, búa til auglýsingar og miðla upplýsingum í gegnum útvarp, sjónvarp og síðast en ekki síst Netið. En það er hins vegar á ábyrgð ríkisins að framkvæma kosningarnar, og til þess að niðurstöðurnar séu sanngjarnar og réttar eru kosningalög sem ríkistjórnin fer eftir. En hver er þessi umrædda þjóð? Er íslenska lýðræðið fyrir alla?
Í Íslenskri orðabók handa skólum og almenningi í ritstjórn Árna Böðvarssonar má finna hvorki meira né minna en fimm skilgreiningar á hugtakinu þjóð. Má þar helst nefna tvær fyrstu skilgreiningarnar sem eru annarsvegar að þjóð er hópur fólks sem hefur sameiginlega tungu, sögu og menningu og finnur til samkenndar, og hinsvegar merkir þjóð þegna ríkis. Þessar skilgreiningar samrýmast þýsku og frönsku kenningunum um þjóð. Fyrri skilgreiningin á vel við þýsku kenninguna sem rekja má allt til upphafs 19. aldar, en orðabókin er þó að gera mikla einföldun á flókinni pólitískri kenningu sem margir fræðimenn hafa rætt og ritað um í gegnum tíðina. Seinni skilgreiningin á við um frönsku kenninguna sem segir að þjóð er hópur fólks með sama ríkisborgararétt, gerist einhver ríkisborgari samþykkir hann að vera hluti af þjóðinni. Þetta eru tvær andstæðar kenningar, enda má þess geta að Frakkar og Þjóðverjar voru lengi vel miklir andstæðingar. Kenning Frakka felur í sér lýðræði, fólk þarf t.a.m. að hafa íslenskan ríkisborgararétt till að mega kjósa hérlendis, eins og rætt verður um síðar í greininni. Það er þó bein vísun í þýsku kenninguna þegar fólk segir að allir Íslendingar tali íslensku, sem er ekki raunin ef nánar er farið út í það með tilliti til frönsku kenningarinnar. Hér á eftir verður sjónum beint að „fötluðu“ Íslendingunum, og hvort lýðræði Íslands nær einnig til þessa stóra jaðarhóps.
Áður en lengra er haldið er réttast að rýna aðeins í orðið lýðræði. Samkvæmt íslensku stjórnarskránni er Ísland lýðveldi. Almenn þýðing á lýðveldi er að lýðurinn kýs sinn eigin þjóðarhöfðingja og telja Íslendingar sig búa við lýðræði. Margar skilgreiningar eru á dýpri merkingu lýðræðis, en á yfirborðinu merkir hugtakið að lýðurinn ræður. Í riti sínu, Democratic and Undemocratic States, skilgreinir Richard Rose lýðræði sem ríki þar sem eru kosningar með frjálsri og sanngjarnri kosningabaráttu og þar sem ríkja lög og reglur. Því meiri kröfur sem fólk gerir til lýðræðis, því meira verður það, en mörkin milli lýðræðis og einræðis eru þó örmjó og er stundum talað um bananalýðræði þ.e. lýðræðisríki þar sem ríkir mikil spilling. Hér á eftir verður stuðst við skilgreiningu Rose þegar fjallað er um lýðræði Íslendinga.
Samkvæmt íslensku stjórnarskránni eru allir sem eru 18 ára og eldri og með íslenskan ríkisborgararétt kjörgengir. Þá er stjórnarskráin að meina alla Íslendinga sem hafa náð 18 ára aldri, hvort sem þetta eru konur eða karlar, verkamenn, milljónanæringar, ellilífeyrisþegar eða öryrkjar. Ennfremur stendur í 33. gr. laga um kosningar til Alþingis að kosningarétt hefur hver sá sem hefur náð 18 ára aldri, er íslenskur ríkisborgari og á lögheimili á Íslandi. Í 34. gr. sömu laga segir að kjörgengur sé hver sá sem hefur kosningarétt og óflekkað mannorð, að hæstaréttardómurum undanskildum, og gilda þessi lög einnig um forsetakosningar. En til þess að fólk geti kosið þarf það að vita hverjir eru í framboði og hafa aðgang að upplýsingum, kjörstað og jafnvel kjörseðli. Nú fer málið að vandast, því staðreyndin er sú að oft gleymist að gera ráð fyrir fötluðu fólki. Sem dæmi má nefna kappræður milli fjögurra forsetaframbjóðenda á opinni dagskrá Stöðvar 2 þann 26. maí síðastliðinn, en þær voru hvorki textaðar né táknmálstúlkaðar og eru þetta ekki einu kappræðurnar í ár þar sem aðgengið er mjög takmarkað. Þess má geta að í íslenskum lögum sem samþykkt voru á Alþingi þann 11. maí 2011, er kveðið á um að íslenskt táknmál (ÍTM) sé móðurmál heyrnarlausra og sé jafnrétthátt íslenskunni. Rúmlega 200 Íslendingar hafa ÍTM að móðurmáli en samt var ekkert hugsað út í það í þessum kappræðum.
„Það má því segja að það sé alls ekki í samræmi við áðurnefnd ákvæði þegar kosningabarátta er hvorki textuð né táknmálstúlkuð.“
Einnig má geta að í 9. gr. Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks stendur m.a. að aðildaríki skulu tryggja aðgang fatlaðs fólks að upplýsingum, s.s. með viðeigandi tækjabúnaði og táknmálstúlkun. Ísland er eina Norðurlandið og eitt af þeim 23 ríkjum í Sameinuðu þjóðunum sem hefur ekki enn fullgilt þennan sáttmála og miðað við hvernig staðan er í dag þarf að gera miklar breytingar hér á landi áður en Ísland getur fullgilt hann, en það er efni fyrir aðra og mun lengri grein. En það er þó viðurkennt á alþjóðavettvangi að það að fá táknmálstúlkun eru almenn mannréttindi en ekki forréttindi. Það má því segja að það sé alls ekki í samræmi við áðurnefnd ákvæði þegar kosningabarátta er hvorki textuð né táknmálstúlkuð.
Annað dæmi um mismunun við fatlað fólk eru lög um aðstoð við að kjósa. Í 63 og 86 gr. laga um kosningar til Alþingis, sem einnig gilda í lögum um forsetakosningar, segir m.a. að kjörstjóri skuli aðstoða ef kjósandi getur ekki kosið sjálfur sökum sjónleysis eða vegna þess að hann getur ekki notað hendurnar. En vilji kjósandi ráða hver aðstoði hann skal kjörstjóri gera hlé á atkvæðagreiðslunni og leyfa þeim sem eru á staðnum að klára að kjósa. Svo skulu allir nema kjörfundurinn og kjósandinn sem þarf aðstoð, yfirgefa staðinn. Kjósandinn á að útskýra mál sitt einn og óstuddur á skýran hátt. Ef hann getur ekki tjáð sig, þarf hann að framvísa vottorði frá réttargæslumanni fatlaðra. Aðstoðarmaðurinn má ekki vera viðstaddur þegar kjósandinn skýrir mál sitt, sem hentar heyrnarlausum kjósendum afar illa og enn verr ef kjósandinn bæði sér og heyrir illa. Kjósandinn getur kannski vel tjáð sig, en hann hvorki heyrir né sér viðbrögðin og verður þar af leiðandi óöruggur þegar hann hefur engan til að túlka fyrir sig og greina frá þvi sem er að gerast í kringum hann. Auk þess má sama manneskjan ekki aðstoða tvívegis í sömu kosningum, sem er ekki að henta litla Íslandi, þar sem tveir aðilar geta deilt sama aðstoðarmanni alveg án þess að vita af því. Við erum nefnilega að tala um starfsgrein þar sem aðstoðarfólk fær laun og er bundið trúnaði. Í 3. gr. Sáttmála S.Þ. um réttindi fatlaðs fólks stendur m.a. að fatlað fólk á rétt á að taka eigin ákvarðanir og að aðildaríki skulu tryggja að það geti tekið þátt í samfélaginu til jafns við aðra. Einnig er lagt blátt bann við mismunun, og áhersla lögð á að virðing sé borin fyrir fjölbreytileikanum. Svo má ekki gleyma 29. gr. sáttmálans en þar er fjallað um þátttöku til stjórmála og kosninga. Þar stendur að aðildarríki skulu tryggja aðgang fatlaðs fólks að kosningum og stjórnmálum til jafns við aðra og án þvingana. Í 2 mgr. þessarar greinar stendur að aðildaríki skulu tryggja að:
,,fatlað fólk geti tjáð frjálst vilja sinn sem kjósendur og að heimilað sé í þessu skyni, þar sem nauðsyn krefur og að ósk þess, að það njóti aðstoðar einstaklinga að eigin vali við að greiða atkvæði.“ (þýðing Ágústu Þorbergsdóttur, 2013)
En ef fatlaður kjósandi má ekki ráða sjálfur hver aðstoðar hann við að kjósa og þarf að hafa mikið fyrir því að komast í kjörklefann með aðstoðarmann sinn, þá er varla hægt að tala um frjálsar og sanngjarnar kosningar, hvað þá jafnrétti.
Þegar allt kemur til alls þá er þessi þjóð sem minnst var á í upphafi greinarinnar líklega sá hluti þjóðarinnar sem hefur fulla heyrn, sjón og hreyfigetu. Dæmi eru til um að fatlað fólk sleppi því að kjósa af því að það fær ekki viðeigandi aðstoð eða er ekki sátt með hvernig fyrirkomulagið virkar. Það er skiljanlegt ef ríkið vill tryggja að kosningarnar séu réttar, en það er e.t.v. ekki á réttri leið ef það er að setja flókin lög um aðstoð í kosningum, sem eiga að vera sjálfsögð mannréttindi. Þá er varla hægt að tala um lýðræði ef ekki allir Íslendingar fá tækifæri til að fylgjast með forsetakosningarbaráttunni og hafa greiðan aðgang að kjörklefanum. Kannski er kominn tími til að endurskoða kosningalögin, gera viðeigandi breytingar til að tryggja aðgang allra að upplýsingum um kosningarnar og síðast en ekki síst að fullgilda Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Athugasemdir