Cliff Young, 61 árs gamall kartöflubóndi, gerði sér lítið fyrir og sigraði kornunga atvinnuíþróttamenn í 875 kílómetra ofurmaraþoni í Ástralíu árið 1983. Þegar hann kom í mark hafði hann ekki hugmynd um að hann hefði verið fyrstur, né heldur að í verðlaun væru tíu þúsund dollarar. Hann þurfti að setja upp í sig gervitennurnar áður en hann gat tjáð sig um sigurinn, því þær hringluðu svo mikið upp í honum þegar hann hljóp.
Hugsanirnar hringluðu ekki síður í kollinum á mér þegar ég fékk þær fréttir nýverið að ég hefði verið valin „Kona ársins“ af Bandalagi Kvenna í Reykjavík, regnhlífarsamtökum kvenfélaga í höfuðborginni. Þessum ánægjulega heiðri fylgja engir vankantar, nema kannski að nú verð ég að sleppa takinu á þeirri hugmynd að geta flokkast sem „stelpa“ lengur.
Næsta hugsun sem laust niður í kollinn á mér var hvað ég þekki margar konur sem eru verðugar titilsins „Kona ársins“. Fæstar þeirra hafa hugmynd um hvað þær eru miklar hetjur, né hvað þær veita konum eins og mér mikinn innblástur.
Ég þekki konur sem vinna störf sem eru iðullega í höndum karla og þurfa jafnan að verja starfsheiður sinn og sæta óviðeigandi athugasemdum. Hér langar mig að þakka sérstaklega vinkonu minni, stjórnanda í viðskiptalífinu, fyrir söguna af því þegar hún mætti til fundar þar sem eingöngu jakkafataklæddir karlar voru fyrir.
Einn þeirra sneri sér að henni og spurði: „Hvar er kaffið?“ Hún var ekki lengi að svara: „Ég veit það ekki en þegar þú finnur það, þá tek ég mjólk í mitt.“
Ég þekki líka konur sem eru svo grátlega fyndnar að þær fá mig til að hlæja að öllu mögulegu í kvenlegri tilvist. Hér vil ég sérstaklega þakka konunni sem deildi með mér söguna af því þegar hún fór eitt sinn í sund á blæðingum. Í sturtuklefanum benti lítil hnáta forviða á bláa spottann sem dinglaði milli fóta hennar og spurði móður sína: „Mamma, af hverju er konan með hurðasprengju í rassinum?“
Kvenlíkaminn, í öllum sínum magnþrungna leyndardómi, er þó ekki skilyrði fyrir því að vera kona. Ég þekki konur sem fæddust í karllíkama, en hafa þó kennt mér meira um hvað það er að vera kona en flestir aðrir. Það hafa þær gert með því að skora á hólm niðurnjörvaðar hugmyndir um mannkynið sem tvo aðskilda hópa, annan bleikan og hinn bláan, og skaðlegu staðalmyndirnar sem þröngvað er upp á þá báða. Mig langar sérstaklega að þakka transgender vinkonu minni sem var úthúðað af konu á kvennaklósettinu sem fannst „að þessi misheppnaði kvenkarl gæti bara drullað sér á karlaklósettið og hætt þessum þykjustuleik.“ Vinkona mín svaraði yfirveguðum rómi: „Fyrirgefðu góða mín, en ég er meiri kona en þú munt nokkurntíma verða – og meiri karl en þú munt nokkurntíma eiga skilið.“
Ég nýt þeirra forréttinda að hafa ekki þurft að upplifa fordóma eins og þá sem beinast að transgender vinkonu minni, né heldur hef ég þurft að þola rasisma, svo dæmi séu nefnd. Ég get hins vegar lært af sögum þeirra sem slík mismunun beinist gegn og tekið afstöðu með þeim. Misréttinu fylgir nefnilega ábyrgð: Að rjúfa þögnina um það. Einungis með því að vekja athygli á því getum við greint umfang vandans og fundir leiðir til að spyrna gegn honum.
Þess vegna kemur það í hlut okkar kvenna að vekja athygli á kynbundnu misrétti. Konur fá lægri laun, njóta minni valda á sviði stjórnmála og efnahagslífs, eru líklegri til að vera beittar kynferðisofbeldi eða hraktar af heimili sínu af völdum ofbeldismanns og eru sjaldnar viðfangsefni fjölmiðla. Við eigum hvorki né þurfum að sætta okkur við þessa stöðu.
Þegar gervitennurnar voru komnar upp í maraþonsigurvegarann Cliff Young skipti hann verðlaunafénu á milli þeirra fimm hlaupara sem voru ennþá á leiðinni í mark. „Þeir lögðu síst minna á sig en ég,“ útskýrði hann. Á sama hátt vil ég fá að deila titlinum „Kona ársins“ með konunum sem eru að hlaupa með mér í áttina að marklínunni; þeim sem rjúfa þögnina, þeim sem neita að láta skipa sér að sækja kaffi kynferðis síns vegna, þeim sem skora staðalmyndir á hólm, þeim sem lifa af ofbeldi án þess að bugast, þeim sem krefjast jafnari heims fyrir dætur okkar og syni. Við ykkur vil ég segja: „Þið lögðuð síst minna á ykkur en ég.“ Rústum nú þessu maraþoni, stelpur.
Athugasemdir