Fyrir nokkrum vikum bárust fréttir úr Grafarvogi af dularfullum og hættulegum manni sem bauð börnum súkkulaði. Áhyggjufull móðir skrifaði á feisbúkk og varaði aðra foreldra við þessum grunsamlega manni. Fjölmargir „lækuðu“ færsluna og hvöttu konuna til að halda vöku sinni. Lögreglan var sökuð um að hafa ekki nægilega gát á lævísum pervertum sem læddust um gróin íbúðahverfi með súkkulaðimola. Smám saman kom þó í ljós að þetta var einn stór misskilningur. Maðurinn var þekktur konfektgerðarmaður sem hafði boðið ungri frænku sinni og einhverjum vinum hennar mola. Hann hafði sagt einhverju barninu að segja engum frá sem var talið renna stoðum undir illan ásetning mannsins. Þessi ómerkilegi atburður kom af stað ofsafengnum viðbrögðum á samfélagsmiðlunum í smátíma áður en allt féll um sjálft sig.
Auðvitað er gott að foreldrar fylgist með börnum sínum en stundum getur umhyggjan gengið út yfir allan þjófabálk og snúist upp í andhverfu sína. Ég velti því stundum fyrir mér hvernig manni tókst að lifa af eigin barnæsku og unglingsár.
Ég svaf í rúmi sem var málað með krabbameinsvaldandi blýmálningu. Engin örugg lyfjaglös með barnalæsingu voru í umferð. Enginn var nokkru sinni með hjálm á hjólinu. Við drukkum vatn úr garðslöngum. Engin öryggisbelti voru í bílunum hvað þá heldur barnastólar. Við átum brauð og drukkum gos þegar það var fáanlegt en urðum aldrei feit enda vorum við alltaf úti að leika okkur. Við byggðum kassabíla og brunuðum á þeim bremsulausum niður brekkurnar. Við fórum snemma á fætur og seint að sofa. Enginn gat náð sambandi við okkur allan daginn enda voru engir farsímar. Við áttum ekki Playstation, Nintendó eða tölvuleiki eða sjónvarp með 100 stöðvum. Enginn hafði heyrt talað um tölvupóst eða spjallrásir. Við áttum vini sem við fundum sjálf. Við fórum í feluleik í í húsgrunnum og nýbyggingum. Við duttum og meiddum okkur, brutum kannski bein, og vorum saumuð saman en það þótti ósköp eðlilegt. Pabbi reykti 2-3 pakka af sígarettum á dag inni í íbúðinni svo að ég fékk minn skerf af óbeinum reykingum. Maður gekk hvert sem var og var aldrei skutlað. Ég var kominn í launaða vinnu 10 ára gamall. Mamma og pabbi komu aldrei nálægt íþróttakappleik sem ég var hluti af. Barnakennarinn minn var löngu síðar afhjúpaður sem barnaperri. Hvassaleitisdóninn og aðrir gluggagægjar með sýniþörf voru hluti af veruleikanum en ekki man ég eftir því að fólk óttaðist dónann.
Nútímaforeldrar keppast við að skapa hina fullkomnu æsku fyrir börnin sín. Þeir reyna sitt ýtrasta til að koma í veg fyrir að barnið lendi í erfiðleikum eða vandræðum. Barnið á alltaf að finna fyrir öryggi í lífinu. Það er erfitt að finna einhvern gullinn meðalveg þar sem foreldrið tryggir lífshamingu barnsins án þess að ofvernda það. Langflestir vefja börnin sín inn í bómull og verja þau með kjafti og klóm fyrir óréttlæti lífsins. Foreldrar taka þátt í íþróttakappleikjum barna sinna af lífi og sál, æpa ókvæðisorð að dómaranum og andstæðingunum. Barnið þarf ekki lengur að berjast fyrir sæti sínu í liðinu. Pabbi og mamma sjá um það með því að tala við þjálfarann. Góðir foreldrar eiga að vernda börnin sín fyrir umferðinni, einelti, vondum kennurum, barnaníðingum og vondum félagsskap. Þau sjá til þess að barnið sé alltaf bundið í öryggisbelti og sé með hjálm. Barnið fær smám saman þá tilfinningu að lífið eigi að vera vandamála- og áhyggjulaust. Þetta leiðir venjulega til þess að barnið er ófært um að takast á við vandamál sem koma upp fyrr eða síðar. Maður veltir því fyrir sér hvort þetta skapi ósjálfstæða einstaklinga sem kunni alls ekki að bregðast við vandamálum daglegs lífs.
Á hverjum degi leita á bráðamóttökur geðdeilda ungmenni um tvítugt í ástarsorg.
Á hverjum degi leita á bráðamóttökur geðdeilda ungmenni um tvítugt í ástarsorg. Þau geta ekki sætt sig við það að hinn aðilinn hafi slitið sambandinu. Oft segjast þau ætla að fyrirfara sér vegna þessa. Læknar og hjúkrunarfræðingar taka þessum döpru ungmennum vel, gefa þeim lyf og tala við þau og leggja þau stundum inn. Slíkar heimsóknir á bráðamóttökur hefðu verið óhugsandi fyrir 30-40 árum. Menn hefðu litið á slík vandamál sem eðilegan fylgifisk lífsins. En öryggiskynslóðin er á engan hátt búin undir mótlæti enda var henni talin trú um að lífið yrði alltaf fyrirsjáanlegt. Íslenskt samfélag hefur aldrei verið jafn öruggt og nú og aldrei hefur óttinn við að eitthvað komi fyrir börn verið stærri. Börn verða að læra að axla ábyrgð á eigin vanlíðan og læra að heimurinn er stundum miskunnarlaus í öllum sínum yndisleika. Fyrr eða síðar þurfa þau að standa á eigin fótum án þess að mamma og pabbi standi á hliðarlínunni og skammi alla sem ekki gera eins og barnið vill.
Athugasemdir