Hvenær er styrkur styrkur og hvenær er styrkur ekki styrkur? Ég hef miklar áhyggjur af yfirvofandi breytingum sem Sjálfstæðisflokkurinn vill gera á námslánakerfinu. Ég tel það muni leiða til meiri félagslegs ójöfnuðar heldur en núverandi kerfi. Þótt það sé boðið upp á 65 þús styrk á mánuði, m.v. fullt nám, þá eru aðrir þættir sem ég hef miklar áhyggjur af.
1. Ég hef áhyggjur af því að stúdentar utan af landi muni frekar þurfa að taka lán til þess að stunda háskólanám heldur en stúdentar sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir stúdenta sem eiga rætur á höfuðborgarsvæðinu, og það er vissulega stór hluti stúdenta, þá eru meiri líkur að viðkomandi geti búið í foreldrahúsum lengur en þeir stúdentar sem þurfa að flytja landshorna á milli til þess að stunda nám. Þurfum við virkilega að búa til stærra fjárhagslegt gap milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins? Ef stúdent getur búið á hótel mömmu fram til 25 ára aldur, klárað master og haft það tjill, komið úr námi með 0 krónur í skuld, þá er það frábært. En það eru ekki allir sem hafa það tækifæri, sérstaklega ekki fólk sem kemur frá efnaminni fjölskyldum og fólk sem þarf að fara um langan veg til þess að sækja um nám sitt.
2. Ég hef áhyggjur á að styrkurinn upp 65k á mánuði fyrir fullt nám í allt að 45 mánuði muni síst nýtast konum. Styrkurinn er veittur í 45 mánuði og er mismikill eftir fjölda eininga sem viðkomandi stúdent er skráður í, og ef stúdentinn klárar ekki jafnmargar einingar og hann lagði upp með þá þarf að greiða styrkinn til baka. Konur eru líklegri til þess að annaðhvort geta ekki tekið fullt nám eða þurfa að fækka kúrsum vegna þess að þær gangi með barn undir belti eða þurfi sinna börnum sínum. Ég hef áhyggjur að færri konur muni í heildina litið geta notið fulls styrks miðað við karla, og mér finnst það ekki hafa verið kannað nógu vel í frumvarpinu. Ég væri til í að sjá úttekt frá sérfræðingum á vettvangi kynjaðrar hagfræði varðandi þetta - og þó þetta sé bara grunur og áhyggjur hjá mér eins og stendur þá tel ég mikilvægt að skoða þetta.
3. Fjölskyldufólk mun koma út með hærri skuldir, hærri vaxtabyrði (upp á 3%, +/- verðbólga), lengri vaxtatímabil (vextir byrja strax að safnast við útborgun) og strangari greiðslubyrði eftir að námi lýkur. Fjölskyldufólk, sér í lagi einstæðir foreldrar, eru þeir sem eru með há námslán, þar sem foreldrar fá lán fyrir framfærslu barna sinna. Finnst okkur það virkilega siðferðislega rétt að lána fólki fyrir framfærslu barna sinna á meðan það er í námi? Væri ekki réttlátara að hafa þetta sem styrk? Á öðrum Norðurlöndum þá er styrkur til barna námsmanna - mér þykir það miklu eðlilegri leið til þess að styrkja námsmenn og hvetja foreldra til þess að ljúka námi heldur en fyrirkomulagið sem er lagt upp með í frumvarpi menntamálaráðherra.
Ég hef fleiri áhyggjur sem ég gæti reifað - en í heildina litið þá tel ég vera að færa LÍN frá því hlutverki að vera félagslegur jöfnunarsjóður með það hlutverk að gera öllum kleift að sækja sér nám á jafnréttisgrundvelli - í það að vera annars vegar ókeypis peningur fyrir þá sem hafa það gott, en lán fyrir þá sem hafa það skítt. Það er enginn félagslegur jöfnuður fólginn í því, heldur mun búa til frekari stéttaskiptingu á Íslandi - eitthvað sem við þurfum ekki á að halda.
Athugasemdir