Ég er nýbúin að kaupa mér íbúð. Ég hefði mögulega þurft á einhvers konar handleiðslu að halda í ferlinu, en er þó ein af þeim heppnu, enda þakka ég forsjóninni reglulega fyrir að þurfa ekki að híma á ömurlegum leigumarkaði með stöðugar áhyggjur af því að missa húsnæðið fyrirvaralaust. En þó að það sé ömurlegt að leigja þá finnst mér að við sem samfélag getum alveg viðurkennt þann vanda án þess að gera á sama tíma lítið úr því hvað það er ömurlegt að kaupa sér íbúð.
Í fyrsta lagi þarf náttúrlega að finna ásættanlega íbúð til sölu, en innlendar fasteignasíður hljóta að vera búnar til úr einhvers konar rafrænu kókaíni. Maður rétt byrjar að fikta en er fyrr en varir farinn að keyra leitina og haka í „nýtt í dag“ að minnsta kosti fimm sinnum á klukkustund og standa sjálfan sig að innantómum loforðum um að þetta sé í síðasta skiptið í dag. Það svíkur maður síðan aftur og aftur, á meðan maður bölvar því að það sé ekki búið að byggja í helvítis Vatnsmýrinni.
Ef álitleg eign, sem kostar ekki hvítuna úr augunum, birtist, þarf umsvifalaust að fara að skoða hana, banka í burðarveggi, þefa eftir saggalykt í kringum sturtubotninn og síðast en ekki síst: kíkja í rafmagnstöfluna og þykjast hafa vit á því sem þar blasir við. Svo þarf að fara á Já.is og nota mælistikuna á kortafídusnum til að mæla hvað það er langt að labba í leikskóla, grunnskóla, matvörubúð og næsta bar. Síðan þarf að ákveða hvað þykir ásættanlegt verð til að bjóða. Eftir það þarf að gera tilboð með öllum mögulegum fyrirvörum um fjármögnun og krossa putta að það komi ekki eitthvað fjárfestingarfélag sem leigir íbúðir út til ferðamanna og yfirbjóði í beinhörðum peningum. Ef svo ólíklega vill til að tilboðið sé samþykkt þá þarft þú að leggja aleiguna (og í mörgun tilfellum góða summu af eignum foreldra þinna líka, því hver í helvítinu getur þetta án hjálpar?) í hendurnar á fasteignasala sem þú þekkir ekki neitt. Það eina sem þú getur gert er að vona að hann hafi venju fremur lágan fúskstuðul, sé að minnsta kosti á leiðinni á þetta fasteignasalanámskeið og muni ekki semja af þér og setja þig á hausinn. Ef það gengur eftir þá tekur við annarskonar ömurleiki: Flutningar.
„Það eina sem þú getur gert er að vona að hann hafi venju fremur lágan fúskstuðul, sé að minnsta kosti á leiðinni á þetta fasteignasalanámskeið og muni ekki semja af þér og setja þig á hausinn.“
Ef það er eitthvað í veröldinni sem neyðir fólk til horfast blákalt í augu við eigin takmarkanir þá eru það flutningar. Grímulaust yfirlæti afgreiðslumannsins í málningavörudeildinni í Byko þegar þú játar að þú sjáir ekki muninn á málarahvítu og hvítu, hugmyndir annarra um það hversu mikill aumingi þú sért sem verða svo áþreifanlega ljósar þegar enginn ætlast til þess að þú berir einn einasta kassa þó það sért þú sjálf sem ert að flytja, eigin hugmyndir um úthald og þolgæði sem eru fljótar að fara fyrir lítið þegar klukkan er farin að ganga ellefu, bjórinn er búinn og þá átt enn eftir að mála heila umferð og skera í hornin.
Núna eru um það bil þrjár vikur síðan við fluttum. Ég er farin að horfast í augu við þá staðreynd að við munum líklega aldrei finna þrekið sem þarf til að athuga hvað er í kössunum sem við hentum innst í geymsluna, rétt til að „geyma“ þar á meðan við röðuðum því nauðsynlegasta.
En ég er ekki búin að melta almennilega fréttina sem ég las og varð til þess að það rann upp fyrir mér að það var eitt sem ég gleymdi alveg að skoða áður en ég keypti þessa íbúð. Ég er ekki enn búin að athuga hvað húsið stendur hátt yfir sjávarmáli (mælistikan á Já.is mælir bara lárétt) og reikna út hversu langt er þangað til það fer á kaf, ef nýjustu spár um hækkað sjávarmál vegna loftslagsbreytinga ganga eftir. Sú spá er miklu svakalegri en spár milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem þó ættu að fá fólk til að súpa hveljur.
En það er allavega eitt sem við getum huggað okkur við í því samhengi:
Það er ekki enn búið að byggja í helvítis Vatnsmýrinni.
Athugasemdir