Þú sem lest þetta þekkir einhvern sem hefur átt erfitt með að finna vinnu á einhverjum tímapunkti. Eftir hrun blasti við okkur Íslendingum talsvert atvinnuleysi og um tíma var þróunin ógnvænleg. Svo kom gos og síðan fólk. Fólk í útivistarfatnaði með forvitinn svip sem fyllir núna götur, veitingastaði og búðir með veskin sín á lofti. Ég leyfi mér að fullyrða að slatti af þessum fyrirtækjum hefði farið lóðrétt á hausinn á síðustu árum ef ekki hefði verið fyrir þessa utanaðkomandi eyðsluglöðu aukaneytendur. Þannig er eflaust ein hönnunarbúð eða vegan-kaffihús sem lifir af fyrir hverja lundabúð sem við þurfum að strunsa fram hjá til að komast þangað.
Sjálf bý ég í Þingholtunum þar sem rútur (núna litlar sem betur fer) og goretexklæddir mannapar reika um eins og býflugur að vori. Það pirrar mig ekki neitt vegna þess að ég hef tekið ákvörðun um að láta það ekki pirra mig. Fólk er jú bara fólk, hvaðan sem það kemur. Þvert á móti legg ég mig fram við að heilsa og brosa til þessara krúttlegu býflugna og bjóða aðstoð mína ef þær virðast vera villtar af leið. Ég hef verið túristi í mörgum löndum og aldrei upplifað mig sem óvelkomna eða sérstaka byrði á því samfélagi sem ég hef heimsótt hverju sinni. Í ljósi þeirra hagrænu áhrifa sem þessi stóra breyting hefur finnst mér í raun jafn fráleitt að bölva ferðamönnum og að bölva síldinni á síldarárunum. Þetta eru einfaldlega mikil uppgrip sem eru að bjarga heilmörgum hér á landi frá atvinnuleysi sem orsakaði á sínum tíma talsverðan landflótta. Eitt það huggulegasta við að vera Íslendingur er einmitt sú staðreynd að hlutfallslega velja mjög mörg okkar, sem eru svo heppin að hafa átt kost á að búa erlendis, að koma hingað aftur. Þessi myrka veðravítiseyja er staðurinn okkar og eins og laxar leitum við ótalmörg aftur á uppeldisstöðvarnar þrátt fyrir að aðstæður séu að mörgu leyti hagstæðari annars staðar.
En ...!
Já, það er alltaf „en“. Þrátt fyrir að ferðamannasprengjan sé að stærstum hluta jákvæð eru ákveðnir þættir sem við þurfum sem samfélag að fást við og laga til að slá á þá gremju sem fylgir vaxtarverkjum stórra breytinga. Þannig er óþolandi að fólk geti hvorki leigt né keypt húsnæði lengur í miðborginni þar sem hún er undirlögð fyrir gistirými ferðamanna. Hvernig má það vera að á sama tíma og neytendum fjölgar margfalt vegna ferðamannanna, þá hækki matarverð? Mér finnst ég hafa heyrt því fleygt af hálfu frjálshyggjufólks að það sé betra að hafa stórar einingar því þá verði allt svo hagkvæmt. Á það ekki við um heildsölu á mat? Ég skil líka pirring sem kunningjar mínir lýstu um daginn yfir því að fara fínt út að borða örfáum sinnum á ári í sínu fínasta pússi og upplifa þá svekkelsi yfir því að þurfa að klofa yfir bakpoka og ísaxir til að komast í sætið. Líða eins og maður sé í vitlausu partíi.
„Getum við ekki hent í þjóðfund? Hvort ætti að markaðssetja Ísland sem Galapagos norðursins eða Norður-Benedorm?“
Við þurfum að koma á uppbyggilegu samtali um þessi mál á milli sem flestra og fjölbreyttastra aðila. Getum við ekki hent í þjóðfund? Hvort ætti að markaðssetja Ísland sem Galapagos norðursins eða Norður-Benedorm?
Sjálfri finnst mér til dæmis að þau fyrirtæki sem hafa hagnast hvað mest á ferðamannastraumnum ættu að sjá sóma sinn í því að standa fyrir uppbyggingu í þessum geira ekki síður en hið opinbera. Að sjálfsögðu ættum við að skattleggja ferðaþjónustuaðila og ferðamenn sem hingað koma betur og leggja ofuráherslu á að nýta það fjármagn sem þannig fæst til þess að vernda náttúruna. Öll þessi fyrirtæki, leiguhúsnæði, verslanir, rútufélög koma og fara. Náttúran er hins vegar einstök og hingað eru langflestir ferðamenn komnir til að skoða hana. Við verðum að hætta að líta svo á að við eigum landið og reyna að skilja að það er náttúran sem á okkur. Ef við göngum of hart að henni, hvort sem er á Íslandi eða í hnattrænu samhengi, þá töpum við og missum lífsviðurværi okkar og jafnvel skilyrði til lífs. Ef hærri skattur á ferðamenn og ferðaþjónustufyrirtæki þýðir það að ferðamönnum hingað fækkar þá er það bara hið besta mál. Við getum þá öll vandað okkur við að gera betur við þá sem hingað koma og hætt að bölva því að helvítis síldin sé syndandi þetta inn í okkar landhelgi að okkur forspurðum.
Ps. Að lokum legg ég til að við stígum inn í framtíðina og lýsum því yfir að Ísland verði fyrsta olíulausa hagkerfi heimsins fyrir árið 2022.
Athugasemdir