Þetta er titill á lagi sem tók þátt í undankeppni Eurovision í fyrra. Dýrkaði það og geri enn. Sama hvað #12stiga-tröllin á Twitter segja. Viðurkenni það án skammar.
Skammarlegt er þó hvað ég hef eytt miklum tíma undanfarið á kommentakerfunum að lesa umræðu um málefni flóttamanna. Ég skellihlæ og hristi hausinn á víxl og aulahrollurinn skekur mig eins og verstu fæðingahríðir. Þarna er endaþarmur íslenskrar samfélagsumræðu þar sem „góða fólkið“ og þjóðremburnar kasta illa stafsettum, skriflegum hægðum sín á milli. Það bregst ekki að þegar neikvæðar fréttir af málefnum flóttamanna dúkka upp, segir einhver: „Þetta vill góða fólkið!“. „Góða fólkið“ virðist vera samnefnari yfir föðurlandssvikara sem hata kirkjur, vilja ættleiða flóttamenn og er skítsama um öryrkja og eldri borgara.
Þjóðremburnar virðast hata múslima. Þær hafa kannski slæma reynslu, eru illa upplýstar eða hafa legið dögunum saman inni á hræðsluáróðurssíðum og eru því lafhræddar við hugmyndina um fjölmenningu því það þýðir að íslensk þjóðmenning mun líða fyrir stanslaus hryðjuverk, nauðganir og almenna ómennsku. Það er líka áberandi óánægja með að flóttamenn fái aðstoð úr ríkiskassanum til að koma undir sig fótunum í nýju umhverfi meðan bágstaddir Íslendingar líða óréttlæti og eru „látnir éta það sem úti frýs“.
Ég trúi ekki á neitt sérstakt. Ég vil ekki láta útrýma múslimum. Ég hef aldrei hitt múslima og get því ekki myndað mér skoðun á þeim. Þá flokkast ég sennilega undir góða fólkið. Það þýðir þó ekki að ég vilji vera sprengd í loft upp eða nauðgað í dimmu húsasundi eins og þjóðremburnar vilja oft meina. Ég vil ekki þjónusta flóttamenn fram yfir öryrkja, aldraða og aðra minnihlutahópa. Mér finnst óþolandi að sjá hvernig komið er fyrir Íslendingum sem þurfa að líða fyrir fjársvelti í heilbrigðiskerfinu.
En það er millivegur.
Mín skoðun er mjög einföld. Ég vil sjá jafnrétti fyrir allar manneskjur. Ekki einn hóp fram yfir hinn. Af hverju getum við ekki veitt öllum sömu fríðindin? Hvort sem þeir eru Íslendingar, útlendingar, öryrkjar, aldraðir, fátækir, flóttamenn, múslimar eða kristnir. Helst myndi ég vilja útrýma orðinu „minnihlutahópur“ því þetta eru fyrst og fremst manneskjur. Það væri hægt að þjónusta allar manneskjur ef stjórnvöld færu eðlilega með fjárveitingavaldið. Ég vil bara jafnrétti fyrir alla. Svo ég vitni nú í áðurnefnt Eurovisionlag: „Allir eru jú einhvers virði, það er enginn of mikil byrði.“
Athugasemdir