Mikið hef ég heyrt talað um nýyrði sem nefnist forréttindafeminismi og er þá yfirleitt talað um að jafnréttisbarátta kvenna sé komin á ranga braut þar sem konur krefjist forréttinda frekar en jafnréttis. Í því sambandi eru oft nefnd lögin sem ætlað er að jafna kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja. Þau séu einfaldlega forréttindafeminismi og að velja eigi hæfasta fólkið án tillits til kyns í stjórnir. En er rétt að hafa kynjakvóta til stjórnarsetu?
Sjálfur er ég þeirrar skoðunar og hef verið í langan tíma, að ávallt skuli velja hæfasta fólkið óháð kyni og er það góð regla. Þessi hugsunarháttur hefur og valdið því að í því fyrirtæki þar sem ég gegni stöðu framkvæmdastjóra hefur hlutur kvenna aukist jafnt og þétt í stjórnunarstöðum undanfarin 10 ár, meðvitað og ómeðvitað, þar til jöfnuður náðist í öllum stjórnunarstöðum og í framkvæmdastjórn. En stjórn fyrirtækisins var samt sem áður skipuð þremur karlmönnum og þótti okkur strákunum það ekki skipta neinu máli lengi vel þar sem við vorum jafnréttissinnaðir karlmenn. En karlmenn og konur eru bara ekki eins og sjá hlutina ekki frá sama sjónarhorni.
Mikilvæga spurningin hér er hvað skiptir máli þegar hæfni til stjórnarsetu er metin? Auðvitað skiptir menntun og fagleg þekking miklu máli. En rétt eins og í mismunandi störfum fyrirtækja gildir hér að fjölbreyttir eiginleikar og kostir nýtast best; í sumum tilfellum er skipulagsgáfa málið, í öðrum sölumannshæfileikar og hugmyndaauðgi og við þetta þarf svo að bætast þekking, góð mannleg samskipti, stjórnunarkunnátta, og svo framvegis.
Sumt er hægt að kenna en sumt síður. Margt lærist með reynslu og oft koma óvæntir kostir í ljós þegar viðkomandi fær nýja áskorun en sumt verður fólk að hafa í sér. Viljastyrkur og ábyrgðartilfinning er grunnur sem erfitt er að kenna enda er misjafnt hvernig fólki eru þessir eiginleikar í blóð bornir. Oft hefur verð sögð sagan af þeim sem var duglegastur að moka og því gerður að verkstjóra. Viðkomandi kunni bara að moka en ekki að stjórna og varð því lélegur verkstjóri sem ekki mokaði. Hugsa þarf því mikið um hvað sé hæfni og hvað ekki, ásamt því hver á að meta hæfni.
„Þess vegna er hæfasta manneskjan til að setjast í stjórn þar sem vantar konur, hæfasta konan. Því kyn er hluti af hæfni.“
Rétt er að ávallt skal velja hæfasta fólkið en hver á að meta hæfnina, eru það karlmenn sem fyrir sitja í stjórnum? Undirritaður hefur staðið í rekstri í hátt í 30 ár og telur sig hafa lært margt á þeim tíma. Eitt það mikilvægasta sem ég hef lært er að sjónarmið karla og kvenna eru ekki eins, og þá einnig að einsleitt stjórnunarteymi með karlmönnum sér aðeins helminginn af myndinni, þá með gleraugum 50 prósent fólksins. Um leið og hin 50 prósentin fullkomna myndina verður hún bæði stærri og skýrari. Þó að ég sé mikill jafnréttissinni þá er ég samt karlmaður og sé þar af leiðandi alla hluti með karlmannsgleraugum. Það er því ekki nóg að hafa hæfa jafnréttissinnaða karlmenn í stjórn til að myndin sé skýr, það þarf að jafna kynjahlutföllin til að svo sé. Þess vegna er kynið augljóslega hluti af hæfni þeirra sem metnir eru til setu í stjórnum því við þurfum meira en aðeins 50 prósent af myndinni. Þess vegna er hæfasta manneskjan til að setjast í stjórn þar sem vantar konur, hæfasta konan. Því kyn er hluti af hæfni.
Í okkar rekstri teljum við okkur hafa náð betri árangri og komið í veg fyrir mistök eingöngu vegna þess að kynjajafnvægi hefur verið gott við ákvarðanatöku. Við höfum líka reynslu af hinu gagnstæða og höfum lært af henni.
Ég þakka því á hverjum degi fyrir lögin um kynjajafnvægi, þó það hafi oft verið einfaldara þegar við vorum bara þrír strákar að taka ákvarðanirnar. Þær voru bara ekki eins góðar.
Spurning okkar til framtíðar er; hvernig jöfnum við kynjahlutföllin á Alþingi og ætti til dæmis forseti að vera til skiptis karl og kona?
Athugasemdir