Ég glími við verulega aldurstengda óáttun. Er ég 27 ára ábyrgur þjóðfélagsþegn? Eða er ég ennþá 13 ára, föst fyrir framan gömlu borðtölvuna að leika mér í The Sims og alveg óendanlega sama um heiminn sem snýst á ógnarhraða í kringum mig? Þeirri spurningu verður líklega best svarað með þeirri óþægilegu staðreynd að þegar móðir mín græjaði skattframtalið fyrir mig um daginn, faldi ég mig bakvið sófa og hélt fyrir eyrun. Hin þunga árlega áminning um að ég sé fjárhagslegur óviti. Alveg sama hvað móðir mín tyggur ofan í mig þessa einföldu aðgerð að telja fram til skatts. Það fer eins og gegnumtrekkur um holrúmið milli eyrnanna á mér.
Ég gæti ekki lesið launaseðil mér til gagns frekar en sjáfshjálparbækur á rússnesku. Niðurlægjandi með eindæmum. Er það blessun almættisins að mamma starfar sem bókhaldari og getur bent mér á ef ég verð óvart gjaldþrota? Hversu vandræðalegt er það að hún hefur unnið við bókhald alla mína hunds og kattartíð og það eina sem ég veit er að hún leikur sér með tölur? Það er í raun kraftaverk að það sé ekki einhvers staðar Nígeríusvindlari, skellihlæjandi að gúffa í sig snittur og freyðivín með aleigu mína sem lífsviðurværi.
Meðan það eina sem fjallað er um í samfélaginu eru skattaskjól, aflandsfélög, gjaldeyrishöft og lífeyrissjóðir, þá get ég ekki horft á fréttir. Heyri ekkert nema lyftutónlist. Þetta er eins og að hlusta á lélegan brandara með engu punchline-i. Ekkert situr eftir. Á ég að skammast mín fyrir að vita ekki neitt um leiðinlega hluti? Eða á ég að halda áfram að vera sátt við að vita bara skemmtilega hluti?
Með þessu áframhaldi verð ég líklega aldrei efnuð manneskja. Sem er allt í lagi. Ég myndi eflaust sturlast ef ég ætti peninga. Skattframtalið myndi flækjast svo svakalega. Ég þarf þó ekki að hafa áhyggjur af börnunum mínum. Jón Jónson reddar þeim. Getur hann kennt fullorðnum líka?
Athugasemdir