Fyrr á þessu ári var annar hver Íslendingur Charlie Hebdo, ef marka mátti samfélagsmiðla. Mannskæða árásin á höfuðstöðvar franska skopmyndablaðsins kveikti alheimsumræðu um mikilvægi tjáningarfrelsis. Iðkun þess er þjóðarsport okkar Íslendinga. Hvort sem það er að hneykslast á ritstjórnargreinum Moggans, skrolla yfir frjálsar geirvörtur á Twitter, vefja okkur inn í regnbogafána á Hinsegin Dögum eða rökræða kvótakerfið í kaffikróknum í vinnunni, þá er það stjórnarskrárvarinn réttur okkar. Sá réttur liggur til grundvallar sjálfu lýðræðinu, sem getur einungis þrifist þar sem skoðanaskipti eru frjáls.
Grimmdarlega aftakan á frönsku skopmyndateiknurunum var þörf áminning um hið fornkveðna: Þér þarf ekki að líka það sem náungi þinn segir, þú þarft ekki að trúa á sama guð og hann, kjósa sama stjórnmálaflokk eða stunda samskonar kynlíf, en þér ber að virða rétt hans til skoðana sinna. Ofbeldi í skjóli skoðanakúgunar er upphafið að endalokum tjáningarfrelsisins. Slíkt á aldrei að líðast og sú afstaða endurspeglaðist í samstöðufundum í Parísarborg eftir árásina á Charlie Hebdo, þar sem mikill fjöldi þjóðarleiðtoga sýndi samhug í verki.
En ekki við Íslendingar. Við áttum ekki þjóðarleiðtoga á þessum fundi og fyrir það hlaut ríkisstjórn Sigmundar Davíðs bágt fyrir. Í kjölfar hvassrar umræðu um fjarveru Íslendinga sá hann sig knúinn til að hreinsa andrúmsloftið í útvarpsviðtali á Bylgjunni, þar sem hann sagðist hafa áttað sig á því að tjáningarfrelsið eigi mjög undir högg að sækja á Vesturlöndum. Aðspurður um hvort hann teldi þetta eiga við á Íslandi svaraði hann: „Það er margt í okkar samfélagi sem minnir á þessa gagnrýni og þessa mikla umræðu sem nú er uppi um stöðu frjálslyndis á Vesturlöndum. Það er að segja, það er eins og það sé alltaf að þrengjast ramminn um hvað megi ræða, og rökræða sé meira að segja bönnuð um ákveðna hluti.“
Skömmu áður en Sigmundur Davíð lét þessi orð falla höfðu samtökin Reporters Without Borders birt árlegan lista yfir stöðu blaða- og fréttamanna á heimsvísu, en engin stétt á meira undir prent- og tjáningarfrelsi. Ísland átti sögulegt stjörnuhrap á listanum og féll úr því að verma toppsætin ásamt hinum Norðurlöndunum niður í 21. sæti, á eftir Namibíu, Eistlandi og Jamaíku, svo dæmi séu nefnd. Samtökin tiltóku „versnandi samskipti stjórnmálamanna og fjölmiðla“ sem ástæðu fyrir þessari hróplegu afturför Íslendinga, en þar ber ríkisstjórn Sigmundar Davíðs mikla ábyrgð. Sérstök dæmi voru tekin um framgöngu utanríkisráðherrans Gunnars Braga Sveinssonar, sem neitaði á tímabili að veita RÚV viðtal nema hann fengi að samþykkja það til birtingar sjálfur, hótanir Vigdísar Hauksdóttur fjárlaganefndarformanns í garð RÚV og Kvennablaðsins, mikinn niðurskurð núverandi ríkisstjórnar til ríkisfjölmiðilsins ásamt þeirri aðdróttun að hann gætti ekki nægilegs hlutleysis.
Þann 15. apríl síðastliðinn ákváðu nokkrir Íslendingar að minna þingheim á að þá voru 888 dagar liðnir frá því að samþykkt var þingsályktun um að hefja rannsókn á einkavæðingu bankanna, sem enn er ekki hafin. Þeir byrjuðu að kríta tölustafina 888 á stéttina fyrir utan Alþingi, en náðu ekki að klára verkið því þingverðir vopnaðir vatnsslöngu brugðust við með því að spúla stéttina jafnóðum.
„Gangstéttin við Alþingi er eign okkar allra og fólkið sem starfar í þinghúsinu er þar í umboði okkar.“
Höfum nokkra hluti á hreinu. Hefðu börn verið að verki og krítað blóm á stéttina við Alþingi er hæpið að þingverðir hefðu hrakið þau á brott. Hér var því verið að aftra tjáningu á tilteknum viðhorfum. Ljóst er að krít veldur engum varanlegum skemmdum á gangstéttum. Gangstéttin við Alþingi er eign okkar allra og fólkið sem starfar í þinghúsinu er þar í umboði okkar. Við eigum stjórnarskrárvarinn rétt til að hafa skoðanir á störfum þeirra, svo fremi sem við komum þeim á framfæri með friðsamlegum hætti. Ekki einungis er það réttur okkar, heldur er beinlínis nauðsynlegt að almenningur veiti yfirvöldum aðhald í lýðræðisríki. Sérstaklega þegar búið er að draga lappirnar í 888 daga með að rannsaka mál sem hafði meiri áhrif á íslensku þjóðina en flest allt annað sem hefur á daga okkar drifið.
Sumum kann að þykja skopmyndir barnalegar eða smekklausar en þær eru samt varðar af hornsteini lýðræðisins, sjálfu tjáningarfrelsinu. Að sama skapi kann einhverjum að þykja krít á stéttum Alþingis barnaleg eða smekklaus leið til að koma skilaboðum á framfæri, en við eigum ekki að þurfa blóðsúthellingar til að vakna til vitundar um þennan grundvallarrétt okkar og verja hann. Árásin á Charlie Hebdo var huglaust fólskuverk. Samskonar hugleysi endurspeglast hjá yfirvöldum sem hvítþvo stéttar sínar af tjáningu þegnanna og torvelda fjölmiðlum að rækja lýðræðishlutverk sitt. Því segi ég: Ef þú varst ekki Charlie Hebdo nú þegar – þá er tími til kominn að verða hann.
Athugasemdir