Maðurinn sem reyndi að kveikja í sér fyrir utan húsnæði Rauða krossins á Efstaleiti í síðasta mánuði er nú í sálrænni aðhlynningu. Ástand hans, líkt og margra sem sækja hér um hæli, er mjög bágborið. Hálfs árs bið eftir fyrsta svari yfirvalda hefur nagað sál hans, sem er veik fyrir. „Ég þori ekki að vona,“ sagði hann mér um daginn. „Óskir, vonir, framtíð, líf er allt merkingarlaust fyrir mér.“
Þegar fréttir bárust af örvæntingarfullu ákalli hans um hjálp, tilraun hans til að sleppa úr þessu hælisferli og þessu lífi, tilkynnti Útlendingastofnun að hann væri kominn með hæli annars staðar, „í öðru Evrópuríki“. Viðleitnin virtist vera að afsaka sig gagnvart almenningi, að útskýra hvers vegna maðurinn ætti ekki að fá að vera hér, heldur yrði að fara annað.
Útlendingastofnun lét vera að segja hvert ætti að senda hann: Ítalíu, þar sem aðstæður fyrir flóttamenn eru miklu bágbornari en hér. Þetta valkvæða rof á þagnarskyldu virðist ekki hafa verið í þágu skjólstæðingsins, heldur stofnunarinnar, sem vill geta svipt manninn örygginu sem hann þarf og komist upp með það gagnvart almenningi.
„Það sem íslenskt hælisferli býður uppá er hins vegar sálræn þjáning, lokaðar deildir, botnlaust vonleysi og flaska af grillvökva.“
Sálræn meðferð mun ekki hjálpa þessum manni, ekki frekar en öðrum í hans stöðu, fyrr en hann fær öruggan dvalarstað. Maður smyr ekki brunasár á meðan eldurinn leikur um mann. Yfirvöld virðast ætla að bíða eftir að hann sé í rétt nógu bærilegu ástandi til að geta fleygt honum úr landi. En það er niðurlægjandi og sálarskemmandi. Það mun skilja hann eftir í verri stöðu en hann var í þegar hann bað hér um vernd.
Flóttamenn hrista ekki af sér fortíðina með því að taka pillu og yppa öxlum. Til þess þarf velvild, umhyggju og mikla vinnu. Það sem íslenskt hælisferli býður uppá er hins vegar sálræn þjáning, lokaðar deildir, botnlaust vonleysi og flaska af grillvökva.
Athugasemdir