Á hundraðasta afmælisári kosningaréttar kvenna er blásið í lúðra og talað hátíðlega um þennan mikilvæga rétt sem konur hlutu árið 1915. Hér skal þó tekið fram að þær urðu að vera orðnar fertugar, en körlum dugði að vera 25 ára. Með öðrum orðum hefði ég ekki mátt kjósa fyrir hundrað árum og lítið hefur farið fyrir því hvenær raunverulegu kosningajafnrétti var náð, sem væri þó ekki síðra fagnaðarefni. Burtséð frá því er mikið um dýrðir árið 2015 og hátíðahöld, útgáfur og ráðstefnur prýða dagatalið út árið. Í þessum gleðiglaumi á fíllinn í stofunni til að gleymast, en staðreyndin er sú að pólitísk kosningaþátttaka ungs fólks fer síminnkandi. Auðvelt væri að afgreiða þá þróun með kenningum um áhugaleysi „sjálfhverfu kynslóðarinnar“ á þjóðfélagsmálum, samhliða sívaxandi framboði af afþreyingarefni sem breytir kyndilberunum í sófakartöflur.
Þessi kenning er hins vegar fjarri sanni.
Hugtakið „að kjósa“ er að mörgu leyti orðið samofið pólitískum kosningum, en þegar öllu er á botninn hvolft snýst það einfaldlega um að hafa val, að hafa ákvörðunarrétt. Nákvæmlega sami kjarnaboðskapur endurspeglast í þeim merku stafrænu byltingum sem ungar konur hafa staðið fyrir og riðið hafa yfir landið á þessu öndvegisári: Að konur eigi að hafa val og óskoraðan sjálfsákvörðunarrétt. Skýlausan kosningarétt yfir eigin lífi og limum.
„Að konur eigi að hafa val og óskoraðan sjálfsákvörðunarrétt. Skýlausan kosningarétt yfir eigin lífi og limum.“
Rétt eins og konur sem skáru upp herör gegn óbærilegu misrétti og byltu samfélaginu fyrir 100 árum síðan eru konur landsins í dag einnig í miðri byltingu gegn ólíðandi ástandi. Sú bylting snýst um að endurheimta yfirráðaréttinn yfir eigin líkama. Baráttuaðferðirnar hafa gengið út á að skora hlutgervingu á hólm í anda #freethenipple herferðarinnar, aflétta skömm yfir blæðingum kvenna með #túrvæðingunni eða rjúfa þögnina um kynferðisofbeldi, líkt og sjá má í byltingunni sem kennd er við fésbókarhópinn Beauty tips. Íslenskir þátttakendur í þessum stafrænu byltingum skipta þúsundum. Sögunni lýkur ekki þar, því bylgjan er að breiðast út til annarra landa samkvæmt fréttaflutningi vefmiðla víða um heim.
Ég játa að ég óttaðist að þessari stórmerku grasrót yrði ekki gerð skil í hátíðarhöldum vegna kosningaréttar kvenna. Þess vegna gladdist ég eins og barn á jólunum þegar ungir femínistar ruddu sér til rúms í dagskrá Ráðhússins þann 19. júní með samantekt um stafrænu byltingarnar og innsýn í það sem brennur þeim í brjósti. Frjálsu, óhlutgerðu brjósti, að sjálfsögðu. Uppfull af feminískum innblæstri flýtti ég mér að hringja í framkvæmdateymi 100 ára kosningaafmælisins til að spyrja hvort sama væri ekki uppi á teningnum á hátíðarráðstefnu sem haldin verður í Hörpu í haust. Ekkert slíkt atriði var þá komið á dagskrá, sem gerði mig óðamála af innlifun. „Íslenskar konur eru bylta hugarfari þjóðarinnar í krafti samfélagsmiðla,“ bunaði ég út úr mér. „Þótt það endurspeglist ekki í kjörsókn eru ungar konur í dag að kjósa á hverjum degi. Þær kjósa að bera á sér brjóstin til að gengisfella hrelliklám. Þær kjósa að brjótast út úr þögninni um ofbeldi sem þær hafa verið beittar. Þær kjósa að aflétta skömm í fjöldasamstöðu á internetinu, þar sem hvert atkvæði telur í formi tísts eða fésbókarfærslu með vel völdu myllumerki. Þær vita að baráttunni er ekki lokið og þær krefjast þess að á þær sé hlustað. Það þarf ekki að veita þessum valkyrjum rödd, þær eiga hana svo sannarlega til í nægum mæli. Hins vegar þarf að tryggja þeim vettvang í hátíðarhöldum vegna réttinda sem snerta líf okkar allra jafn mikið og raun ber vitni,“ sagði ég á innsoginu „og það væri synd að nýta ekki tækifærið til að hampa því sem víðast. Þar á meðal á sviðinu í Hörpu í haust.“
„Þótt það endurspeglist ekki í kjörsókn eru ungar konur í dag að kjósa á hverjum degi.“
„Ekki spurning,“ sagði röddin á hinum enda línunnar. „Og hvað verður atriðið þitt langt?“
Þannig atvikaðist það að undirrituð er á leið upp á svið í Hörpu á opinberri afmælishátíðarráðstefnu í október næstkomandi með það að markmiði að fanga anda stafrænu byltinganna. Engin pressa. Ungu femínistunum úr Ráðhúsinu er sjálfkrafa boðið (hæ stelpur!). Það sama gildir um systur sem vilja rjúfa þögnina, frelsa brjóstin, tísta um 6dagsleikann, mótmæla klámvæðingu, vera druslur eða fara á bullandi túr uppi á sviði með mér. Þetta er okkar afmælispartí, stelpur. Sýnum nú hvað #konurkjosa með margvíslegum hætti að breyta heiminum.
Athugasemdir