Ég sit núna í sumarbústað rétt hjá Akureyri og reyni að vinna í BA ritgerðinni minni á meðan fjölskyldan fer á skíði. Dagurinn ætti í raun að vera svo gott sem fullkominn; það er gott veður úti, páskafrí og ég er með fjölskyldunni minni. En ég á samt erfitt með að einbeita mér að verkinu því fréttir morgunsins hringsólast stanslaust í kollinum á mér. Brussel varð fyrir hryðjuverkaárás. Margir dóu, margir særðust og ekki er enn vitað hverjir stóðu að baki.
Ákveðin eigingirni á það til að grípa mann við svona aðstæður því maður fer ósjálfrátt að hugsa um sitt eigið fólk, „er allt í lagi með vini mína?“ í staðinn fyrir að hugsa bara almennt um fólkið sem þarf að glíma beint við þessar hörmungar. Það er sem betur fer að verða þannig að fólk lætur strax vita af sér á samfélagsmiðlum og sem betur fer er allt í lagi með alla vini mína. Einn er þó ekki búinn að setja neitt inn, sem nagar illa í ímyndunaraflið.
Það gerist eitthvað furðulegt þegar svona árás á sér stað og skrítnar hugsanir koma upp á yfirborðið. Ég fór í gegnum Zaventem flugvöll á svipuðum tíma og Ebola sjúklingur fór þangað í gegn. Ég er búinn að sjá myndir eftir sprengingarnar og ég slepp ekki við hugsanirnar: „Ég hef verið á þessum flugvelli“ og „ég hef alltaf farið út á Maelbeek á leiðinni á Evrópuþingið“. Þetta er álíka súrealískt og að hugsa til þess hvernig það væri ef einhver hefði sprengt upp Lækjatorg eða Keflavíkurflugvöll.
En maður verður líka óstjórnlega reiður þegar svona atburðir eiga sér stað. Þetta hefði auðveldlega getað verið ég eða vinir mínir og ég vil af sjálfsögðu kenna einhverjum um. Það er hins vegar of auðvelt að velta sökinni yfir á múslima eða segja að Vesturlönd eigi þetta einhvernveginn skilið. Það gerir mig reiðari en nokkuð annað. Það var ekki búið að koma öllum fórnarlömbunum á sjúkrahús áður en tveir fasistar (einn karl og ein kona) á Pírataspjallinu fóru í sinn gír og kölluðu fólk þar inni fasista fyrir að viðurkenna ekki að þetta væri allt múslimum að kenna. Ég ákvað að leyfa mér svona einu sinni að gefa skít í að vera málefnalegur og sagði þeim á eins fínan hátt og ég gat að fokka sér. Og viti menn, færslurnar þeirra hurfu skyndilega. Ég leyfi mér að efast um að það hafi verið mér að þakka, en ég gat þó ekki staðist smá bros yfir þessu.
Það hefur oft hvarflað að mér að eyða þessum fasistum bara út af Pírataspjallinu og hef alveg verið á mörkunum að gera það oftar en einu sinni. En í dag fékk ég góða áminningu á því af hverju ég ætti ekki að gera það; ég vil ekki missa af svona tækifærum til að segja fasistum að fokka sér því þeir munu hvort sem er spúa sínum hatri annars staðar. Fasistar og hryðjuverkamenn eiga nefnilega ákveðið sameiginlegt - markmiðið hjá báðum er að ala á ótta í fólki.
Athugasemdir