Ekki er ástæða til að vanþakka vilja Mosfellinga til að lina þjáningar auðugra útlendinga. Líklegt er að bláeygð bæjarstjórn þeirra hafi verið blinduð af því glópagulli sem erlend fjárfesting hefur jafnan verið húðuð og talið að hún væri í leiðinni að efla íslenskt efnahagslíf. En ætli hinum erlendu fjárfestum hafi með staðarvalinu gengið það helst til að líkna þjáðum og efla íslenskan hag?
Efnahagsleg áhrif af atvinnustarfsemi ráðast af þeim virðisauka sem hún skapar og hvert hann fer, ekki síst hvort hann verður eftir í landinu eða fer í vasa erlendra aðila. Virðisaukinn eru allar tekjur af starfseminni, laun, fjármagnstekjur svo sem vextir og og hagnaður og eftir atvikum renta. Skattar af þessum tekjum eru sá þáttur virðisaukans sem rennur til samfélagsins. Í tilviki því sem um ræðir er þessi mynd fremur einföld. Innlend aðföng, önnur en vinnnuafl að hluta, eru óveruleg og rekstrarkostnaður að mestu laun og fjármagnskostnaður vegna húsnæðis og tæjabúnaðar. En hvert renna tekjurnar.
Fjármagnstekjur. Sjúkrahúsið á að byggja fyrir erlent lánsfé og hefur fjárfestum verið lofað góðri ávöxtun. Fjárfestarnir munu vera hollenskir og enginn skattur er lagður á vaxtagreiðslur þangað. Hvorki vaxtatekjur né skattur af þeim verða eftir í landinu.
Hagnaður. Verði hagnaður af starfseminni hér á landi ætti að leggja á hann með 20% skatt, sem er einn lægsti skattur á fyrirtæki, sem fyrirfinnst á Vesturlöndum. Líklegt er þó að skattalegum hagnaði verði eytt á pappírunum með yfirskuldsetningu gagnvart tengdum aðilum en af örlæti leyfum við slíkt fárra þjóða og er m.a. notað ótæpilega af álverum, sem fengu tryggingu fyrir því með samningunum um Reyðarál 2005. Óvarlegt er að reikna með að nokkur tekjuskattur af rekstri heilsuspítalans verði eftir í landinu.
Arður. Þrátt fyrir skattalegt tap á pappírunum kunna forsendur vera til að greiða hluthöfum arð. Arðurinn rennur til hinna erlendu hluthafa og ekki verður tekinn skattur af honum vegna ákvæða í tvísköttunarsamningi við Holland. Hvorki arður né skattur af honum verður eftir í landinu.
Laun innlends starfsfólks. Gera má ráð fyrir að nokkur hluti starfsfólks einkum í lægra launuðum þjónustustörfum og að einhverju leyti í hjúkrunarstörfum verði fólk með fasta búsetu hér á landi. Laun og tekjuskattur af fyrrnefnda hópnum skilar sér að vísu í vasa íslenskra aðila en vafasamt er hvort þar sé um að ræða viðbót við landsframleiðslu. Við hátt atvinnustig eins og nú er og verið hefur lengst af hér á landi hefur ný starfsemi ruðningsáhrif, þ.e. tekur fólk úr öðrum störfum og er þá um óverulega aukningu heildartekna að ræða.
Laun erlends starfsfólks. Líklegt er að læknar og aðrir sérfræðingar og hluti starfsfólks í séhæfðum verkefnum verði erlendir borgarar sem koma til styttri dvalar hér á landi. Hluti þeirra mun líklega dvelja hér minna en 183 daga á ári, hafa takmörkuð efnahagsleg umsvif og ekki greiða skatt hér á landi. Fyrir hinn hlutann myndi frumvarp sem fjármálaráðherra lagði fram á vorþingi 2016 koma að gagni og leiða til þess að að útsvar þeirra og tekjuskattur yrði 30 til 35% lægri en ella. Hætt er við að lítið yrði eftir af tekjum þessum í landinu auk þess ójafnræðis þessai reglu felur í sér.
Jákvæð efnahagsleg áhrif af rekstri heilsuspítala með þeim hætti sem lagt er upp með í Mossfellssveit yrðu óveruleg fyrir Ísland. Að vísu myndi sveitarfélagið fá í sinn hluta fasteignagjöld og ríkið fengi tryggingargjald en hafa þarf í huga að fyrirtækið og starfsmenn þess ættu rétt á opinberri þjónustu í sama mæli og aðrir sem hér búa og að komið hefur fram að gert sé ráð fyrir enn frekari ívilnunum sem skerða myndi þær tekjur. Tekjur opinberra aðila yrðu því litlar.
Kann það að vera að auðmannagæskan hafi ekki ein ráðið staðarvalinu heldur hafi Ísland haft betur í samkeppni við Tortóla?
Greinin birtist áður á vef Indriða Þorlákssonar.
Athugasemdir