Titillinn sá arna er afbökun mín á grísku orði sem við þekkjum þó flest úr ensku. Orðið hefur með afsökun að gera. En í þeirri mynd sem ég sé það og með því að spyrða blessaða apana við orðmynd mína er ég að kalla fram mynd af aðferð sem stundum hefur verið kölluð aulaafsökun. Hið merkilega er, að í samfélagi sem í raun ætti að vera reist á lýðræðisvitund, fágaðri ígrundun og gagnrýninni hugsun er viðurkennd sú leið sem er alveg einstaklega ósmekkleg, fullkomlega á skjön við velsæmi og bókstaflega hættuleg andlegri heilsu manna. Þetta er sú leið sem hér kallast apalógía og kemur oft í kjölfar svikinna loforða og lappadráttar misvitra stjórnmálamanna. Auðvitað stendur ótalmargt uppúr þegar litið er yfir axaskaftasafn íslenskra pólitíkusa. En eitt er það sem alltaf gerir mig graman og er þess eðlis að apalógían er ýmist spurning um að verðmeta mannslíf í krónum og aurum, smjörklípa um staðsetningu sjúkrahúss, svart-hvít skekkja um val á milli umönnunar við flóttafólk og umönnunar á bráðamóttöku eða önnur rökvilla sem fellur á eigin bragði án teljandi áreynslu.
Ég er hér að tala um kostnað þann sem fylgir því að verða veikur. Og svo er ég ekki síst að tala um þá afsökunarleið sem samfélagið skýlir sér að baki þegar kemur að umræðum um heilbrigðismál.
Mig langar hér að svara því – í afar stuttu máli – hvort það sé siðferðilega réttlætanlegt að láta fársjúkan mann borga fyrir læknisaðstoð. En einnig vil ég hér rýna í það sem við getum kallað réttindi og skyldur þeirra sem þurfa á aðstoð heilbrigðiskerfisins að halda.
„Hinn fársjúki einstaklingur þarf að greiða fyrir þann bata sem samfélagið telur sig eiga heimtingu á.“
Um daginn heyrði ég viðtal við konu sem hefur verið fársjúk síðustu misserin. Hún hefur þurft að greiða vel á aðra milljón fyrir aðgerðir, lyf og annað. Hún hefur sjálf þurft að fara á milli stofnana með pappíra til að fá endurgreiðslur og allt er á eina bókina lært. Þessi kona getur ekki unnið vegna þess að hún er veik. En samtímis fær hún þau skýru skilaboð frá samfélaginu, að ef hún hefur hug á að ná bata þá kosti það helling af peningum. Hún fær ekki laun en þarf á sama tíma að auka útgjöld sín. Varasjóðurinn er farinn í lyf og lækniskostnað vegna sjúkdóms sem hún greindist með á því stigi að flest bendir til þess að hún muni ná bata. En þá verður hún líka að borga samfélaginu nánast allt sem hún á.
Stöldrum hér við og skoðum þær skyldur sem við leggjum á þann einstakling sem greinist með sjúkdóm sem mun draga einstaklinginn til dauða á örfáum vikum ef ekkert er að gert. Fyrsta skyldan er sú að viðkomandi verður að hætta að vinna, vegna þess að máttvana líkami gerir okkur að ónytjungum á vinnustað. Og svo er það skylda númer tvö, krafa samfélagsins um að einstaklingurinn nái bata sem allra fyrst, svo unnt sé að stilla strengi og láta hljóminn af klinkinu óma í ríkiskassanum. Og svo er þriðja skyldan náttúrlega sú, að einstaklingurinn þarf að greiða fyrir batann. Hinn fársjúki einstaklingur þarf að greiða fyrir þann bata sem samfélagið telur sig eiga heimtingu á.
Skoðum þetta ögn nánar. Leggjumst yfir þetta þríeyki skyldna og veltum því fyrir okkur hvort hér séu hugsanlega brotalamir á ferð. Er hægt að upphefja eina rökvillu með því að níðast á þeirri næstu? Er apalógía smáborgaralegrar stjórnkænsku það haldreipi sem við viljum hengja samfélagið í? Og erum við til í að horfast í augu við þá hégómlegu smán sem við látum bjóða okkur með því að stöðugt er nöldrað um hægri og vinstri, klifað á klisjum um skatta, dregnar fram falsanir í þágu hlunninda þeirra sem hafa úr mestu að moða og því hreinlega haldið fram að það sé dýrt að vera veikur? Já, ég spyr einsog fávís karlmaður: Viljum við trúa þeirri apalógíu sem virðist sjálfsprottin í aldingarði fáviskunnar? Eða viljum við vernda hag samborgaranna? Viljum við hjálpa þeim sem hjálparþurfi eru?
Vilt þú hafa þann háttinn á – kæri lesandi – að ef þú skyldir verða veikur, þá hefur samfélagið rétt til að láta þig hætta að vinna, láta þig greiða fyrir allan hugsanlegan bata og gerir þá kröfu að þú endurheimtir góða heilsu? Þú vilt þá að við tökum af þér rétt til annars en strípaðrar lágmarksframfærslu, við heimtum að þú borgir fyrir lyf og læknisaðstoð og ef okkur mistekst að koma þér aftur til starfa sem nýtum skattgreiðanda þá er það að sjálfsögðu ekki okkur að kenna.
Það er engan veginn réttlætanlegt að fársjúkt fólk þurfi að greiða fyrir lyf, lækningu, sjúkrahúsvist eða nokkuð annað það sem hægt er að veita því í von um bata. Það er ekki réttlætanlegt, fyrst og fremst vegna þess að það er ekki hægt að dæma mann til samfélagslegrar þjáningar þótt hann sé svo óheppinn að verða veikur. Við eigum því að gera þá kröfu til okkar sem samfélags að hér sé heilbrigðiskerfið með þeim hætti að kostnaður vegna sjúkdóma leggist á samfélagið allt, að sjúklingur eigi ekki að þurfa að vaka og sofa yfir áhyggjum af fjármálum þegar hann ætti að nota alla sína krafta til að reyna að ná bata.
Þetta get ég sagt vegna þess að við teljum okkur tilheyra siðmenningu. Við skreytum okkur með fjöðrum velmegunar og vitum að við getum vel við unað ef við skoðum skiptingu auðæfa heimsins á milli ríkra og fátækra þjóða. En samkvæmt nýjustu tölum frá Hagstofunni hafa tekjur okkar aukist um 200 milljarða frá árinu 2013. Að vísu hafa um 20% þjóðarinnar fengið 70% af kökunni. En það eitt ætti að vera nægjanleg ástæða fyrir meirihluta þjóðarinnar til að gera kröfu. Og krafan er: Við viljum ekki að okkar fólk þurfi að bera kostnað af sjúkdómum eða veikindum sínum. Sameiginleg ábyrgð okkar á að dekka þann kostnað sem fellur í dag á þá sem veikir eru.
Konan sem ég nefndi hér að framan ætti að geta gert þá kröfu til samfélagsins að hún fái lausn undan peningaáhyggjum á meðan hún reynir að losna úr klóm skelfilegs sjúkdóms. Og hið skelfilegasta af öllu skelfilegu er ef samfélagið þarf nauðsynlega að græða á því að græða sár fólks sem enga björg fær sér veitt.
Og nú er staðan sú að stjórnarherrar okkar ágæta lands hafa beina og óbeina aðild að einkarekinni sjúkrastofnun, sem hefur það fyrst og fremst að markmiði að skila arði, m.a. til þeirra sem fá reglulega úthlutað kvóta.
Já, lífið er yndislegt.
Nú miklu stappi stendur í
hinn stóri þjófaflokkur,
menn geta kannski grætt á því
að græða sár hjá okkur.
Athugasemdir