Þetta var óskaplega venjulegt fimmtudagskvöld. Vinkona mín hefur samband og segir að hún og vinir hennar séu að fá sér nokkra kalda og býður mér að slást í för, sem og ég geri. Eftir þrjá bjóra er okkur sagt að það sé verið að loka staðnum, og allir gestirnir fara að koma sér út.
Það er á því andartaki sem tveir yngri menn, sem eru líklega á miðjum þrítugsaldri, rekast í kunningja minn og sulla öllum bjórnum hans niður. Fyrst eiga róleg orðaskipti sér stað, en þau súrna fljótt þegar mennirnir eru inntir eftir afsökunarbeiðni eða öðrum bjór fyrir félaga minn.
Innan skamms erum við komin út og þessir menn spyrja ásakandi tóni hvaðan félagi minn sé þar sem hann talar ekki íslensku. Ég kem mér á milli þeirra og reyni að róa strákana niður, en innan skamms smita þeir mig af eldmóði sínum. Stór hópur safnast í kringum okkur og fylgist ákaft með eldfimu atburðarásinni.
Síðan fæ ég högg á mig og þá tekur eðlisávísunin við. Ég tækla árásarmann minn niður á gangstéttina og nýti tíu ára reynslu mína frá Mjölni til þess eins að halda honum þar. Þegar spörk og högg hans ná ekki marki sínu spyr hann hástöfum hvort ég ætli ekki að berjast við sig áður en hann biður vini sína að sparka í hausinn á mér.
En ekkert gerist. Ég held honum pikkföstum, anda rólega, og bíð þangað til hann hættir vonleysislega að sprikla. Aðstandendur stía okkur í sundur þegar það er ljóst að viðureignin er búin.
Þegar ég stend upp er mér fagnað eins og hetju; bandarískir túristar fullvissa mig um að ég fari ekki einn heim í kvöld, nokkrar stelpur lýsa yfir undrun og aðdáun sinni á því að ég hafi varið félaga minn.
„Mér líður ekkert eins og hetju. Mér líður eins og ég sé ennþá í hættu.“
En mér líður ekkert eins og hetju. Mér líður eins og ég sé ennþá í hættu. Ég segi vinum mínum að það sé í lagi með mig, að ég þurfi bara að fá mér vatnssopa heima.
Þegar ég kem heim á ég erfitt með að slaka á. Þegar ég sofna loksins dreymir mig um hvernig aðstæðurnar hefðu geta farið öðruvísi, hvernig ég hefði getað orðið fyrir alvarlegu líkamlegu tjóni, eða meitt þennan strák til óbóta.
Þegar ég fer á fætur eru meiðsli mín augljós. Ég er með skurð á eyra, krambúleraður í andliti og með glóðarauga. Komandi vikur þarf ég að útskýra fyrir hverjum sem ég mæti að ég hafi lent í árás, en það eru innri meiðslin sem reynast mér torveldari. Ég forðast félagslegar aðstæður, er varkárari um mig, og vil síður vera lengi úti í bænum.
Ég endurupplifi þessa árás oft á dag. Ég spyr mig af hverju ég kom mér ekki í varnarstöðu fyrr. Ég spyr mig af hverju ég lét engin högg dynja á andstæðing minn eða notaði glímubrögð til að yfirbuga hann. Ég spyr mig hvort það hafi verið nóg að niðurlægja hann.
Síðan fer ég að spyrja af hverju í ósköpunum það kom til handalögmála. Af hverju þurfti ég að standa upp í hárinu á þessum strákum í stað þess að leyfa þeim bara að labba í burtu? Þeir báðust ekki afsökunar og voru bæði dónalegir og fjandsamlegir, en ég tók þátt í atburðarásinni, og leyfði stolti mínu að ráða ferðinni.
Mánuði seinna hafa áverkar mínir horfið og það hefur færst ró yfir mig. En ég skammast mín samt. Ég var barinn, og slapp vel, en ég var barinn út af banvænum karlmennskuhugmyndum mínum. Ég mun ávallt reyna að koma öðrum til hjálpar, en næst leita ég kannski að öðrum leiðum til þess.
Athugasemdir