Mér er minnisstætt þegar ég stóð í komusal Leifsstöðvar skömmu eftir aldamót og var að sækja ferðamenn. Þar rakst ég á gamlan kunningja sem ég hafði ekki hitt árum saman. Hann var líka að sækja fólk og við tókum tal saman.
Talið barst að rekstri hans í ferðaþjónustu og hann sagðist vera að hugsa um að flytja fyrirtækið til Lúxemborgar. Ég hváði... Ætlarðu að flytja þangað? Nei, bara skrá fyrirtækið þar. Það eru svo lágir skattar í Lúxemborg. Ég botnaði ekkert í þessu, hafði aldrei heyrt um skattaskjól eða aflandsfélög. Hvað þá að hægt væri að skrá fyrirtæki sem starfaði á Íslandi í öðru landi til að sleppa við að borga skatta í landinu sem tekjurnar mynduðust, hvers innviðir voru notaðir við starfsemina og náttúra nýtt. Ég hef ekki hitt þennan kunningja minn aftur og veit ekkert hvað hann gerði, en ég veit mun meira um aflandsfélög og skattaskjól nú en þá.
Hér varð hrun, munið þið? Efnahagslegt, samfélagslegt og siðferðilegt. Samfélagssáttmálinn brast. Reiðin blossaði daglega upp í fólki og það sveiflaðist milli vonar og vonleysis oft á dag. Við munum líklega öll hvernig okkur leið. Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið og vorum óttaslegin.
Við vissum ekki þá, en vitum núna, að hrunið var fyrirséð og hafði verið um nokkurt skeið. Allt mögulegt eignafólk sem tengdist bönkunum, auðmönnum og stjórnmálaelítunni var látið vita, því gefinn kostur á að selja hlutabréfin og forða fé sínu úr landi. Trúlega hafa margir gert það.
Í hruninu og eftir það var mikið rætt og ritað um aflandsfélög, skattaskjól og alla tugmilljarðana sem smám saman varð ljóst að höfðu flætt út úr landinu á vegum banka, fyrirtækja og einstaklinga. Upphæðirnar voru stjarnfræðilegar og við skildum þær ekki fyrst í stað. Hvaða peningar voru þetta? Fjármunir sem hafði verið stolið úr bönkunum - eða sviknir út úr þeim? Við erum nokkru nær um það eftir þessi tæpu átta ár og nokkra dóma yfir bankamönnunum. Íslenska hagkerfið var holað að innan og grunnstoðir samfélagsins veiktar.
En hvert var farið með féð? Hvar er „peningahimnaríkið“ sem Björgólfur Thor talaði um? Á Tortóla, Kýpur, Cayman eða Guernsey? Í Lúxemborg, Hollandi, Panama, Delaware eða öðrum aflandssvæðum? Já, einmitt. Ég veit ekki til þess að einni einustu krónu hafi verið skilað inn í íslenskt hagkerfi nema ef til vill í formi fjárfestinga með 20% afslætti Seðlabankans á meðan hann var í boði. Auðmenn hafa verið að kaupa Ísland í nafni órekjanlegra aflandsfélaga sem mikil leynd hvílir yfir.
„Ég veit ekki til þess að einni einustu krónu hafi verið skilað inn í íslenskt hagkerfi nema ef til vill í formi fjárfestinga með 20% afslætti Seðlabankans á meðan hann var í boði.“
Í rúma viku hefur íslenskt samfélag logað vegna aflandseigna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og konu hans. Framsóknarflokkurinn er bókstaflega á hliðinni og háværir meðlimir hans búnir að fleygja reisn og trúverðugleika á haugana. Kalla einstaklinga og fjölmiðla sem hafa fjallað um málið öllum illum nöfnum. Saka þá um vænisýki, afbrýðisemi og fleira slíkt. Þeir átta sig greinilega engan veginn á alvarleika málsins og verja sinn mann af norðurkóreskum ákafa.
En um hvað snýst málið? Fólk og fyrirtæki mega eiga peninga í aflandsfélögum sem skráð eru í skattaskjólum - ef þeir eru taldir fram í skattskýrslunni. Forsætisráðherrahjónin segjast hafa gert það og fyrir kurteisissakir skulum við trúa því.
Forsætisráðherra og spunameistarar hans beittu eiginkonunni fyrir sig. Trix sem fjármálaráðherra notaði eigi alls fyrir löngu. Það var hún sem sagði frá aflandsfélaginu að fyrra bragði. En svo veina framsóknarmenn yfir því að henni sé blandað í málið þótt hún sé upphafsmaður þess. Síðan er útskýrari á launum hjá skattborgurum notaður til að svara fyrir bæði hjónin.
SDG og frú voru bæði skráð fyrir félaginu. Það voru ekki mistök. Bankar gera ekki slík mistök. Arfur eiginkonunnar var fluttur úr landi þegar hrunið var yfirvofandi. Tímasetningin passar. Þegar eiginmaðurinn er orðinn þingmaður fattar hann að kannski sé ekki sniðugt að vera skráður fyrir aflandsfélagi og gefur eiginkonunni sinn helming.
Fjármunir þeirra hjóna eru teknir út úr íslensku hagkerfi, rétt eins og þýfi útrásarbófanna, krónan hrynur og þau græða einhver ósköp. Borguðu þau skatt af gengishagnaðinum? Síðan voru sett á gjaldeyrishöft. Almenningur og íslensk fyrirtæki hafa þurft að búa við gjaldeyrishöft, ekki forsætisráðherra. Samt mærir hann íslensku krónuna, segir verðtryggða krónu sterkasta gjaldmiðil í heimi en deilir ekki kjörum með þjóðinni sem er í höftum. Heldur aflandssjóðnum leyndum. Vill alls ekki skipta um gjaldmiðil en ekki heldur nota krónuna sjálfur.
Wintris Inc., félag þeirra hjóna, átti kröfur í slitabú föllnu bankanna upp á rúmlega hálfan milljarð. Sagt er að upphæðin í skattaskjólinu sé rúmur milljarður, svo krafan í búin er hlutfallslega risastór. Framsóknarmenn hafa mært foringjann fyrir hvað hann var „harður við kröfuhafana“. En var hann það? Stöðugleikasamningurinn var harðlega gagnrýndur og Kjarninn hefur reiknað út að aflandsfélag forsætisráðherra hafi stórgrætt á því að ekki var lagður á stöðugleikaskattur. Enda var samningurinn samþykktur með yfir 99% atkvæða kröfuhafa, svo ánægðir voru þeir.
Fjármunir sem teknir eru út úr hagkerfi þjóða og/eða ekki greiddur skattur af nýtast ekki til að reka samfélagið. Ef ekki eru greiddir skattar þá er ekkert samfélag. Innviðir grotna niður vegna fjárskorts, almenningur kiknar undan álögum á meðan fjármagnseigendur leika sér með milljarðana sína í skattaskjólum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er einn þeirra.
Það er þessi leikur sem forsætisráðherra íslensku þjóðarinnar hefur leikið og hann snýst ekki um lagatækni. Trúnaðarbresturinn er algjör, gjáin djúp og það litla traust sem hann hafði er gufað upp. Sá sem ekki skilur svona einfaldar staðreyndir og alvarleika þeirra þyrfti að rifja upp hvað siðferði, heilindi, heiðarleiki og traust þýðir.
Athugasemdir