Íslenskt efnahagskerfi færir ábyrgðina sjálfkrafa yfir á almenning. Þegar krónan lækkar lækka raunlaun okkar. Þegar verðlag hækkar vex skuld okkar við bankann.
Þannig eru bankarnir og fyrirtækin sem fara með auðlindirnar okkar tryggð með veði í okkur.
En okkur er stöðugt sagt að afskrifa ábyrgð þeirra sem skera sig úr varðandi völd og auð.
Síðustu ár hefur verið í gangi tilraun til að sannfæra þjóðina um að það hafi verið herfilegt órétti að láta ákveðna aðila undirgangast réttarkerfi Íslands. Þessir aðilar, sem áttu að vera undanþegnir því, eru ekki smáglæpamenn eða fólk sem hefur í breyskleika sínum neytt eiturlyfja, slegið einhvern eða stolið vegna fíknar eða matarskorts. Þetta er fólkið sem bar mestu ábyrgð á Íslandi og hlaut laun og ábyrgð í samræmi við það, oft óhóflega. En krafan núna snýst um að þau hafi í raun ekki borið neina ábyrgð.
Kenningin um ábyrgðarleysi
Kenningin er sú að þegar allt bankakerfi Íslands hrundi, með slæmum afleiðingum fyrir nánast hvern einasta landsmann, hafi ekkert verið gert raunverulega rangt, nema hugsanlega erlendis.
Til vara er kenningin sú að allir hafi gert eitthvað rangt, og því hafi enginn gert neitt sérstaklega mikið rangt þannig að viðkomandi verðskuldaði einhverjar sérstakar afleiðingar af því umfram það sem gerðist hvort sem er. Þannig hafi þeir sem fengu 300-föld laun meðalmanns á Íslandi fyrir að stýra banka ekki borið neina sérstaka ábyrgð þegar bankinn fór skyndilega á hausinn eftir að hafa sannfært alla um að ekkert væri athugavert við reksturinn, til dæmis með því að kaupa hlutabréf í sjálfum sér á yfirverði með krókaleiðum. Við eigum að trúa þessu og fyllast samviskubiti yfir því að þessir aðilar hafi verið rannsakaðir í tengslum við þær aðgerðir sem þeir gripu til í þeim tilgangi að afvegaleiða okkur til að kaupa hlutabréf í bönkunum og trúa því að allt væri í lagi þrátt fyrir merki um annað. Það var bara bjartsýni okkar og tíðarandinn sem við lifðum í sem lét þá gera þetta.
Þau gerðu þetta fyrir okkur
Enn önnur kenning er að þeir hafi orðið að gera þetta til að viðhalda bjartsýninni og tíðarandanum sem hélt hlutabréfaverðinu uppi og skuldatryggingarálaginu niðri. Fyrir okkur. Og launin og áhrifin sem þeir fengu voru þar með færð til þeirra fyrir að viðhalda þeirri bjartsýni sem við þurftum á að halda til að allt væri í lagi. Þeir blésu í bjartsýnisbóluna sem lyfti okkur og svipti okkur jarðtengingu.
Samkvæmt þessu eiga læknar að segja þér að æxlið í líkama þínum læknist af sítrónuvatni. (Þú drepst hvort eð er á endanum). Fótbrotið er ekkert vandamál, það eru bara taugaboðin til heilans sem eru að trufla þig. Lögreglan á að segja þér að makinn sem er að berja þig sé bara í tímabundnu ójafnvægi sem leysist með betra viðmóti. Ef þú brosir framan í heiminn geturðu leyst hvað sem er. Munurinn er sá að hvorki læknar né lögreglan græða á því að ljúga að þér.
Á endanum voru þau dópsalar. Þau vímuðu okkur, græddu á því að selja tímabundna, ósjálfbæra sælufyllta bjögun á raunveruleikaskyni, sem hafði síðan í för með sér niðurtúr.
Lokið augunum
Stærsta stéttarfélag landsins, VR - virðing og réttlæti, heldur úti námskeiði fyrir elstu meðlimi sína sem heitir „Bestu árin“, þar sem eldra fólki er ráðlagt að hætta að fylgjast með fréttum. Vegna þess að fréttir geti verið neikvæðar og geti truflað hamingju þína. Enda skiptir engu máli hvað þér finnst þegar þú ert orðinn gamall. Tengdu þig við hamingjuvélina. Aðrir passa upp á að allt sé í lagi. Eða að þér líði þannig.
Ímyndin tekur yfir veruleikann. Forsenda þess að okkur Íslendingum gangi vel er að við trúum því, segir forsætisráðherrann í hverri ræðunni á fætur annarri - svo við hættum að gagnrýna það sem hann gerir og segir, eins undarlegt og það getur orðið.
Ekkert ofbeldi - ekkert lögbrot
Rökstuðningurinn með kenningunni um ábyrgðarleysi er sú að bankamennirnir okkar hafi ekki gert neitt rangt, vegna þess að þeir lömdu engan. Þeir stungu engan með hnífi. Og forsætisráðherrann okkar fyrir hrun meiddi ekki heldur neinn. Þegar hann var dæmdur samkvæmt íslenskum lögum fyrir að halda ekki fundi með ríkisstjórninni um augljósa yfirvofandi hættu í efnahagslífinu, eins og stjórnarskráin okkar kveður á um, voru lögin ekki nógu góð.
Ein manneskja, sem sá þessar villur réttarkerfisins snemma, orðaði það svona: „Flestir sakborningarnir eru milli þrítugs og fertugs, vel menntað fólk sem hafði starfað í fjármálaheiminum í örfá ár eftir langt nám. Það taldi sig eiga framtíðina fyrir sér. Ekkert þeirra er grunað um ofbeldi svo ég viti.“
„Ekkert þeirra er grunað um ofbeldi svo ég viti.“
Hún var síðar gerð aðalritstjóri stærsta fjölmiðlafyrirtækis landsins, sem var einmitt í eigu eins helsta sakborningsins í rannsóknum á efnahagsglæpum, áður en hann seldi eiginkonu sinni fyrirtækið.
Nú taka fjölmiðlarnir við
Annar fjölmiðill sem hefur hneykslast á því að réttarkerfið fjalli um ábyrgð þeirra sem réðu einhverju fyrir hrun er Morgunblaðið. Fljótlega eftir hrunið var helsti áhrifavaldurinn í aðal valdaflokknum fyrir hrun gerður að ritstjóra blaðsins. Og forsætisráðherrann sem var dæmdur var gerður að sendiherra Íslands hjá voldugasta ríki heims.
Þannig stöndum við eftir, reynslunni ríkari, með tvö stærstu fjölmiðlafyrirtæki landsins, fyrir utan Ríkisútvarpið, undir stjórn þeirra sem grafa undan þeirri hugmynd að réttarkerfið eigi við um helsta valdafólk landsins. Þau trúa því ekki bara, heldur treysta, að við gleymum því eða okkur verði sama.
Ritstjórar Íslands fá milljónir í laun á mánuði í þágu þess að dreifa réttum upplýsingum til landsmanna.
„Nú taka fjölmiðlarnir við,“ skrifaði Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri 365, í leiðara í Fréttablaðinu fyrir skemmstu um annmarka á störfum dómstóla í máli, þar sem Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi eigandi 365 og eiginmaður núverandi aðaleiganda, var einn af sakborningunum.
Dagana á eftir birtust tvær forsíður á blaðinu þar sem fjallað var um hversu illa Hæstiréttur hefði staðið sig með því að dæma menn fyrir alvarleg efnahagsbrot, þegar hlutabréfaverð í Kaupþingi var falsað með markaðsmisnotkun fyrir hrun.
Treystið og uppskerið
Þið getið bráðum farið að fylgjast aftur með fréttum og átt hamingjuríkt ævikvöld. Það er verið að ritstýra okkur í rétta átt. Það er ekkert að, nema hjá þeim sem hafa það hlutverk að bregðast við því sem ráðandi aðilar gera.
Biskup Íslands hefur líka beðið ykkur að hætta þessari neikvæðni; hætta að trúa því að hagsmunir hafi áhrif. Þið getið unnið ykkur inn framhaldslíf til viðbótar við sæluríka ævikvöldið.
Hvað er satt? Hvað er ósatt? Þetta er allt afstætt þegar svo á við. Þið eruð vinsamlegast beðin um að byrja að treysta Alþingi og trúa á Ísland. En þið getið ekki treyst lögum eða dómstólum þegar fókusinn færist yfir á þá sem ráða og eiga.
Þau eiga kannski ekki allan veruleikann, en þau vilja ráða ímyndinni og hafa áhrif á hugsanir ykkar.
„Ekki drap hann mann“
Eftir að eiginkona eins hins dæmda í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings birtist á forsíðu fríblaðs Íslendinga steig faðir annars þeirra fram í Morgunblaðinu. „En hvað gerði sonur minn af sér sem réttlætti fjögurra og hálfs árs fangelsi óskilorðsbundið. Ekki drap hann mann, ekki flutti hann inn eiturlyf eða neytti þeirra eða lamdi konu sína til óbóta,“ skrifaði hann.
Auðvitað eigum við öll að skilja sársauka aðstandenda fólks sem gerir mistök; hvort sem það eru smáglæpamenn, fólk sem grípur til ofbeldis af einhverri ástæðu eða menn á milljónalaunum sem leiðast út í skaðlegar aðgerðir til að reyna að bjarga sjálfum sér og fyrirtækinu sem borgar þeim ofurlaun.
Það eru skiljanleg viðbrögð við erfiðleikum sonar að standa með honum. En það er líka mikilvægt að meðvirkni með þeim sem stunda skaðlegar athafnir verði ekki ráðandi í þjóðfélagsumræðunni.
Þjóðfélagið og umræða innan þess stýrist að stórum hluta sjálfkrafa af þeim sem hafa fjármagn til að yfirtaka fjölmiðla eða hafa náð þeirri stöðu að stýra stjórnmálaflokkum. Á endanum eru hagsmunir þeirra ekki endilega þeir sömu og hagsmunir allra hinna. Í mörgum tilfellum ganga hagsmunir þeirra þvert gegn hagsmunum heildarinnar. Meðal-Íslendingur fékk ekki hundraðföld laun í hverjum mánuði. Þjóðfélag sem horfir fram hjá lögum sem snúa að fjár- eða stjórnmálavaldi er óboðlegt venjulegu fólki. Þetta er ekkert persónulegt, við eigum bara ekki að láta misnota náungakærleika okkar og gildismat með þessum hætti.
Frelsa oss frá allri ábyrgð
Lýðræðið snýst beinlínis um að vega upp á móti valdi þeirra sem hafa vald til að brjóta aðra undir sig, rétt eins og við höfum lög sem segja að þeir sem eru líkamlega sterkir mega ekki beita aðra ofbeldi til að ná sínu fram í búðinni, umferðinni eða öðrum hversdagslegum athöfnum. Athafnir þeirra sem hafa verið dæmdir fyrir markaðsmisnotkun og önnur „mistök“ í aðdraganda hrunsins hafa margfalt meiri áhrif en flestra annarra dæmdra einstaklinga. Þrískipting ríkisvaldsins snýst síðan um að tryggja að einstaka flokkar eða einstaklingar komist ekki upp með hvað sem er.
Við höfum náð að setja lög sem eiga að tryggja að þeir sem eru valdir til áhrifa í kosningum á fjögurra ára fresti og þeir sem fá háar fjárhæðir fyrir ábyrgðarstörf standi undir ábyrgð sinni gagnvart öðrum. Frelsið snýst ekki um að refsa bara smáglæpamönnum og sleppa þeim sem hafa auð og áhrif, þótt helstu stuðningsmenn frelsisins styðji oft frelsi valdsins ofar öðru.
Frelsið er almannaréttur en ekki sérréttindi. Það snýst um frelsi okkar allra undan valdi þeirra. Ábyrgðarleysi þeirra sem ráða myndi gera samfélagið okkar verra en við eigum að sætta okkur við. Og það er líka á okkar ábyrgð að koma í veg fyrir það.
En þetta er ekkert nýtt. Það eru líka til einstaklingar sem eru teknir fyrir lögbrot, eins og ölvunarakstur eða hraðakstur, og heimta að losna undan því að borga sektina, vegna þess að þeir drápu engan. Það bara heyrist ekki jafnhátt í þeim.
Athugasemdir