Iceland Airwaves átti sér stað dagana 6. til 9. nóvember síðastliðinn og eins og venjulega var boðið upp á gríðarlegan fjölda tónleika bæði íslenskra og erlendra listamanna á fjölmörgum stöðum í miðbæ Reykjavíkur.
Hápunktar tónlistarhátíðarinnar voru meðal annars stórtónleikar sveitarinnar Of Monsters and Men í Vodafone-höllinni á laugardagskvöld, dularfulli grímuklæddi kúrekinn Orville Peck í Listasafni Reykjavíkur, hinn geðþekki kanadíski Mac de Marco og harðkjarnasveitin Une Misére með sinn magnaða hljóðvegg. Aðrir sem nutu sérstakra vinsælda í ár voru íslenska stuðsveitin Grísalappalísa en sveitin tilkynnti að þetta yrðu þeirra síðustu tónleikar og tónlistarmaðurinn Auður sem hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda fyrir síðustu plötu sína, Afsakanir.
Minna fór fyrir neðanjarðarsenunni á Airwaves í ár. Svo virðist sem bæði hátíðin og jafnvel íslenskir listamenn séu að færa sig meira yfir í að gera hlustendavænni tónlist hátt undir höfði, tónlist sem hljómar eins og vinsælar útvarpsvænar erlendar hljómsveitir. Hátíðin var smærri í sniðum þetta árið vegna tapreksturs síðustu ára sem Sena er að reyna að rétta af og það verður áhugavert að sjá hver afdrif hennar verða á næstu árum.
Athugasemdir